545. - Bjarnastaða beljurnar baula mikið núna. Eru að verða vitlausar það vantar eina kúna

Þetta er vísa sem var mjög vinsæl í mínu ungdæmi. Alveg meiningarlaus þó og óttalegt þrugl.

Þegar ég fór að vinna í byggingavörudeildinni í Borgarnesi árið 1978 voru þónokkur verkfæranöfn sem komu á óvart. Öfugugginn var samt það merkilegasta. Öflug og sterk skrúfa með öfugum skrúfgangi ætluð til þess meðal annars að ná borðaboltum út eftir að borað hafði verið í hausinn á þeim.

Hamrar voru þarna líka í miklu úrvali. Klaufhamrar, kúluhamrar, Gúmmíkjullur, plastkjullur, glerhamrar, sleggjur, slaghamrar og svo framvegis

Sömuleiðis sílar, nafrar, afeinangrunartengur, visegrip tengur, naglbítar, síðubítar, flatkjöftur, dúkknálar og svo mætti lengi telja.

Hóffjaðrir voru aldrei kallaðar annað en hóffjaðrir. Hefði einhver farið að tala um hesta eða nagla í sambandi við þær hefði verið horft á hann í forundran.

Sagt er að óskastund sé á hverjum degi. Sæmundur fróði kom í skála og tilkynnti að nú væri óskastundin. Ein vinnukonan sagði þá strax:

Eina vildi ég eiga mér
óskina svo góða.
Að ég ætti syni sjö
með Sæmundi hinum fróða.

Þetta rættist segir þjóðsagan og allir urðu þeir prestar. En...

Mörgum þótti málug ég.
Mælti kerling skrýtileg.
Þagað gat ég þó með sann
þegar Skálholtskirkja brann.

Og brunnu þeir þar inni allir sjö.

"Þetta er ungt og leikur sér" sagði Imba í sjónvarpsfréttum í kvöld. Eða þannig skildi ég hana. Landslagið í stjórnmálum er að breytast. Mótmæli að aukast og harkan líka. Lögreglan barmar sér yfir hve dýrt sé að standa í svona löguðu en ég vorkenni þeim ekki baun. Bjarni Harðarson hefur lög að mæla þegar hann talar um ástarsamband fjölmiðla, stjórnmálaflokka og auðkýfinga. Hinsvegar held ég að þarna eigi allir flokkar sök ekki bara einhverjir útvaldir. Stjórnvöld eru þó af eðlilegum ástæðum meira milli tannanna á fólki en stjórnarandstaðan.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir mig :)

Óskar Þorkelsson, 17.12.2008 kl. 02:09

2 identicon

Sæmundur, manstu eftir samsetningnum "Gekk ég niður götu seint á degi...." o.s.frv.? Þetta voru skolli mörg erindi og ég man fæst þeirra. Mig rámar í að þetta hafi verið sungið í rútu frá Sæmundi nafna þínum Sigmundssyni þegar við fórum til Rvíkur að sjá Jónas frá Hriflu (meðal annarra forngripa). Er það vitleysa í mér?

Ellismellur 17.12.2008 kl. 06:48

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já mig minnir að sungið hafi verið sjúddirarirei sem einskonar viðlag fyrir klámfengin orð í textanum en ég kann eiginlega ekkert úr honum. Rúgbrauð með rjóma á og Baldur Óskarsson sem forsöngvari er mér samt eftirminnilegast úr rútuferðum. Svo var sálmurinn eða druslan um Jón bónda berrassaðan skemmtileg.

Sæmundur Bjarnason, 17.12.2008 kl. 15:47

4 Smámynd: Sverrir Einarsson

Já mörg eru verkfæranöfnin, ég þekki þau þó ekki öll, en segðu mér eitt. Ættlar þú að halda því fram að í allann þennann starfstíma hafi enginn komið inn í búðina og beðið um "hestskónagla". Ég hef þvælst of mikið um landið í vinnu til að muna hvar ég heyrði þetta og aldrei kallað annað.

Sverrir Einarsson, 17.12.2008 kl. 19:20

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég held að þetta með "hesteskonagle" sé gamall brandari. Sagt var að þetta væri danska. Ég er samt ekkert viss um að það sé rétt enda ekki hestamaður sjálfur.

Æ, þá man ég það. Þetta svar verður víst alltof stórt um sig því ég er í vitlausri töluv. (Sumir mundur segja að þær væru allar jafn vitlausar)

Sæmundur Bjarnason, 17.12.2008 kl. 19:50

6 Smámynd: Bjarni Harðarson

heskunagli kemur fyrir í skrifum holtamannsins helga hannessonar f.1896 sem eðlileg og réttmæt dönskuslétta rétt eins og gardína... mig minnir það sé í þykkskinnu númer ii

Bjarni Harðarson, 22.12.2008 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband