536. - Framtíð fjölmiðla og fall þeirra hefðbundnu

Framtíð fjölmiðla er á Netinu heyrðist mér Salvör segja í sjónvarpinu í gær. Auðvitað er þetta alveg rétt. Áfram mun þó eitthvað verða prentað af auglýsingum, fréttum og fleiru. Hinu og þessu sjónvarpsefni verður áfram dreift um sjónvarpsstöðvar en þýðing alls þessa mun fara síminnkandi.

Fjármálamógúlum, ritstjórum og öðrum fjölmiðlungum finnst þetta að sjálfsögðu afleit þróun. Blöð og fjölmiðlaveldi munu fara á hausinn bæði hér á Íslandi og annars staðar. Bloggarar fagna og skrifa sem aldrei fyrr og án þess að fá nokkuð fyrir nema nagg og nöldur.

Í gengum Nagportal.net kynntist ég blogginu fyrst fyrir allmörgum árum. Lengi vel þótti minnkun að því að vera kallaður bloggari. Egill Helga vildi til dæmis lengi vel ekki kannast við að hann bloggaði. Ennþá eimir eftir að þessum fordómum. Bloggið hefur samt staðið allt af sér og er nú orðið einn af hornsteinum tjáningarfrelsisins hvort sem varðhundar þess frelsis viðurkenna það eða ekki.

Því í ósköpunum skyldi fólk vera að borga peninga fyrir að láta svo lítið að neyta einhvers af því fjölmiðlafóðri sem sífellt er verið að halda að því. Merkilegt að fólk skuli enn vera fáanlegt til að borga fyrir bækur. Það er hægt að fá nóg af allskonar efni án þess að borga nokkuð sem heitir. Fjölmiðlasamsteypur nútímans eru algjörar risaeðlur og munu deyja út áður en langt um líður.

Fór ekki á Austurvöll á laugardaginn einfaldlega vegna þess að ég var að vinna. Kemst væntanlega á laugardaginn kemur. Það er skaði ef þessar samkomur leggjast af. Ef veður er bærilegt er ágætt að sameina þetta ferð í Kolaportið. Þar er sérstakur heimur sem vel er þess virði að skoða.

Ég er að mestu sammála Önnu Kristjánsdóttur um að gjalda varhug við tillögum um að frysta eða fella niður verðbætur húsnæðislána. Líklegast er að með því verði lífeyrissjóðirnir (og sparifjáreigendur) enn einu sinni rændir eigum sínum. Ég man eftir þeim tíma þegar greiðslur í lífeyrissjóði jafngiltu því að henda peningunum. Þetta breyttist með verðtryggingunni en nú vilja þeir sem skuldugir eru enn og aftur ræna lífeyrissjóðina sem hugsanlega hafa þegar tapað þónokkru.

Ég veit ekki hve mikil verðbólgan verður hér á næstunni en hún hefur áður verið talsverð hér á landi. Ég er ekki viss um að margir hafi farið á hausinn vegna verðbóta á húsnæðislánum.

Það að gengið hefur styrkst undanfarna daga segir mér bara að gjaldeyrishöftin eru ef til vill mátuleg til slíks.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Endilega fræddu okkar lífeyrízsjóðzgreiðendur, hvenær & hvar það gerðist að greiða í lífeyrizsjóð, varð okkur arðbært.

Ekki þreyta mig með mótframleggszuðinu, því þá tek ég Roy Rogerz á þig.

Steingrímur Helgason, 8.12.2008 kl. 01:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Um hversu arðbært það er að greiða í lífeyrissjóði veit ég ekki. Fer eftir því hvað átt er við með orðinu. Hinsvegar minnir mig að það hafi verið um 1980 sem sýnt var framá það með útreikningum að eftirlaun gætu hækkað við auknar lífeyrissjóðsgreiðslur þrátt fyrir verðbólgu.

Sæmundur Bjarnason, 8.12.2008 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband