509. - Þessvegna vil ég að Ísland gangi í Efnahagsbandalagið

Þegar ég var í Kaupmannahöfn fyrir margt löngu og staddur í Magasin du Nord (sem Íslendingar áttu ekki þá) sá ég að fólk safnaðist saman og horfði á eitthvað merkilegt í sjónvarpstækjum sem til sölu voru í vöruhúsinu. Ég skildi ekki almennilega hvað var á seyði fyrr en drengur einn kom skokkandi og rétti mér prentaðan seðil. Ég fór strax að stauta mig framúr því sem á miðanum stóð. 

Efst stóð „Löbeseddel" . Næst stóð „Politiken". (Eða var það öfugt) Síðan kom svo setning með langstærsta letrinu „Krag gaar av". Ég man ekki hvort það stóð nokkuð meira á seðlinum. Allavega skipti það ekki miklu máli því aðalmálið var auðvitað að Krag hafði sagt af sér sem forsætisráðherra öllum að óvörum.

Jens Otto Krag (1914 - 1978) var forsætisráðherra Danmerkur til 1972. (Fyrst frá 1962 til 1968 og svo aftur 1971 til 1972) Það var einmitt þá sem ég var staddur í Kaupmannahöfn og daginn áður hafði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að Danir gengju í Efnahagsbandalagið. Krag hafði fyrst og fremst litið á það sem sitt hlutverk að koma þeim þangað. Þegar því takmarki var náð var ástæðulaust fyrir hann að vera forsætisráðherra lengur.

Krag var giftur leikkonunni Helle Virkner. Eitt sinn voru þau hjón heiðursgestir á pressuballi hér uppi á Íslandi. Pressuböll voru fínustu böllin sem haldin voru á Íslandi í þá daga og heimsókn þeirra Krag-hjóna jafnaðist fyllilega á við þegar töluvert seinna fór að tíðkast að fá heimsfræga söngvaragutta til að skemmta í afmælum nýríkra Íslendinga.

Það var Anker Jörgensen sem tók við af Jens Otto bæði sem flokksformaður og forsætisráðherra. Hann var svarthærður, svartbrýndur og með svart skegg. Satt að segja minntu myndir af honum mig alltaf á þann svarta sjálfan en það er önnur saga.

Því minnist ég á þetta að allt frá þessum tíma hef ég verið sannfærður um að við Íslendingar mundum að lokum enda í Evrópusambandinu. Allt frá þessum tíma hef ég líka verið því hlynntur að svo yrði og engin rök hafa ennþá breytt þeirri skoðun minni. Í mínum augum er það merkilegt hve lengi Íslendingar hafa staðið utan við sambandið. Sennilega hefði samt verið betra að ganga í það meðan við vorum velkomnir þangað en ekki er víst að svo sé enn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Við höfum nú aldrei verið nálægt því að uppfylla skilyrði Maastricht sáttmálanns fyrir inngöngunni t.d. Ekki í neinu atriði nánast og hann er ansi stór. 

Veit ekki hvort þér er kunnugt um Rómarsáttmálann heldur, en hann kveður á um að allir fiskstofnar aðildarlandanna, séu sameign bandalagsins. Nóg til að menn setji tungu í kinn, sem hafa 70% af viðurværi sínu úr þþeim brothætta brunni.

Bara svona ábending. Ég gæti raunar skrifað langar ritgerðir um þetta og þú hefur vafalaust séð köflum bregða fyrir.  Mér er annt um sjálfstæðið og sjálfráðaréttinn. Hann er keyptur fyrir blóð svita og tár forfeðra okkar. Ég hef enn ekki heyrt rök sem mæla með þessu. Því miður. Ekki hér að ofan heldur.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.11.2008 kl. 12:02

2 identicon

Svo er það auðtitað Lissabon skrifræðið, það sýnir hve lýðræðislegt ESB er að þar sem kosið var um þetta ákvæði og það fellt, þá ákvað sovétið (sovét=stjórn með nefndum) að hætta bara að kjósa um þetta - þið fáið það bara samt! sögðu þeir.

Gullvagninn 13.11.2008 kl. 14:58

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég geri mér alveg ljóst að skiptar skoðanir eru um aðild að EU og reikna ekkert með að allir verði sammála um þetta. Landráðabrigslið finnst mér orðið úrelt í þessu sambandi og reikna ekki með að margir taki það alvarlega.

Sæmundur Bjarnason, 13.11.2008 kl. 15:06

4 identicon

Sæll Sæmundur

Ég var í Kaupmannahöfn eins og þú þegar þetta gerðist og hef alla tíð síðan verið viss um að ísland ætti heima í Sambandinu. Danir eru engir kjánar.

Jens H. Valdimarsson 13.11.2008 kl. 15:20

5 Smámynd: Jens Ruminy

Sæll Sæmundur,

mikið er það vel séð hjá þér, ESB er samband sem byggist í raun á sameiginleg gildi hvað varðar grundvallaratriði í samskiptum landanna á milli, umgjörð efnahagsins, lýðræði og ekki síst þeim skilningi að það er alltaf farsælla fyrir alla að standa og vinna saman frekar en að reyna að komast áfram á kostnað annarra.
Skriffinka eða spurning um viðkvæmar auðlindir eru í raun bara smáatriði sem þeir draga fram sem sjá ekki stóra myndina. Auðvitað eru fiskimiðin mjög mikilvæg fyrir Ísland en þar yrði örugglega hægt að semja lausn þar sem Íslendingar gætu stjórnað fiskveiðum, ef annars allir utan 12 mílna eru með sömu réttindi. Þar gæti verið lykillinn að lausninni sem svo margir leita hér sem krefjast jafnréttis í kvótamálum.

Maastricht-skilyrði eru ekki forsenda inngöngu í ESB heldur upptöku Evru sem þýðir í raun að þegar jafnvægi í efnahagsmálum tekur ríki upp Evruna. Og skriffinka finnst nú alls staðar. Hvenær fengju Íslendingar síðast að kjósa um lög? 1944? ESB-andstæðingar koma til skiptis fram með gagnrýni að ESB þýddi algjör uppgjöf sjálfsákvarðanarétts eða að það væri ekki neitt skynsamlegt af því að þar er engin stofnun sem bjargar okkur í vandræðum (þ.e. tekur ákvörðun fyrir okkar hönd). Annaðhvort er sagt að það skpti sér of mikið eða of litið af málum.
Í raun gætir maður sagt að ríki eða þjóð sem skilur ekki að ESB gengur út á að bæði gefa og þiggja og vinna saman frekar en bara gæta eigin hagsmuni eins langt og hægt er, er ekki nægilega þroskuð til að taka þátt í slíku samstarfi.

Jens Ruminy, 13.11.2008 kl. 18:16

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir málefnalega umræðu. Ég hef alltaf litið á þátttöku í EU sem tryggingu og það að taka þátt í samfélagi þjóðanna. Tryggingu gegn vanhugsuðum ákvörðunum og hvers kyns hamförum. Ég held að ekki væri nú komið eins illa fyrir okkur og raun ber vitni ef við hefðum ráðið minna um efnahagslegar ákvarðanir okkar. Ég átti samt alltaf frekar von á að hamfarir yrðu af utanaðkomandi orsökum til dæmis aflabresti en af mannavöldum.

Sæmundur Bjarnason, 13.11.2008 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband