506. - Bretar hafa komið mjög illa fram en málstaður þeirra er ekki slæmur

Það mátti skilja á mínu síðasta bloggi að ég teldi Breta og Hollendinga hafa betri málstað í icesave-deilunni en Íslendinga. Sá skilningur er réttur. Ég tel samt að við eigum að gera það sem við mögulega getum til að ergja Breta í þessu máli. Stjórnvöld þar hafa komið fram við okkur með miklum ofstopa og yfirgangi og eiga ekki annað skilið. 

Ef við getum fengið þau lán sem við þurfum án þess að Bretar eigi þar hlut að máli eigum við hiklaust að gera það. Ef þeir geta komið í veg fyrir að við fáum aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eigum við að reyna að komast af án hennar ef við mögulega getum.

Það er slæmt hvað stjórnvöld eru treg til að segja sannleikann. Það er mun betra að fá ill tíðindi strax en að láta matreiða þau ofan í sig í smáskömmtum. Nú orðið reikna ég með að það gerist sem Geir Haarde segir að sé mög ótrúlegt að geti gerst.

Ekki gat ég farið á mótmælafundinn á Austurvelli í gær en um næstu helgi mun ég reyna að mæta. Óþarfi er að láta það hafa áhrif á sig þó einhverjir unglingar hendi eggjum eftir fundinn. Ég hef fylgst nokkuð vel með fréttum af fundinum og tel afar lítið að marka fréttir hinna hefðbundu fjölmiðla og lögreglu af því sem gerðist. Þá er nú bloggið betra. Það besta sem ég hef fundið þar eru frásagnir bloggvina minna þeirra Láru Hönnu Einarsdóttur og Salvarar Gissurardóttur.

Það er mikill misskilningur að halda að laugardagsmótmælendur þurfi að vera sammála um allt. Að mótmæla ástandinu er nóg. Alþingismenn eru flestir geðlausar lurður sem hugsa bara um eigið rassgat svo almenningur verður að stíga fram. Burt með óhæf stjórnvöld og kjósum sem fyrst.

Helst vildi ég blogga um eitthvað annað en þetta eilífðarmál sem bankahrunið er að verða. En ég get ekki stillt mig um að láta ljós mitt skína. Kannski er það líka mjög gáfulegt sem ég hef til málanna að leggja.

Samkvæmt frétt á Eyjunni.is biður rithöfundurinn Þórunn Erla Valdimarsdóttir um gott veður fyrir útrásarvíkingana. Jú, hún fékk að kyssa þá og mola af borðum þeirra en það skiptir ekki máli. Það má færa rök fyrir því að engum skíni gott af því að setja útrásarvíkingana í gapastokk á almannafæri. Mér finnst þó að þeir verði að taka þátt í því uppbyggingarstarfi sem framundan er en ekki bara að hamast við að eyða því sem þeim hefur ef til vill tekist að stinga undan.

Burt með spillingarliðið.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill :)

Óskar Þorkelsson, 10.11.2008 kl. 16:18

2 Smámynd: Beturvitringur

Ekki kannski í gapastokk á almannafæri - e.t.v. í einrúmi þá?! :)

Satt segirðu, málstaður reikningseigenda í Eng og Hol er skotheldur og kröfur þeirra sanngjarnar. Ekki vildi ég vera í þeirra sporum ef e-r helv.. Hollendingar/Bretar hefðu gabbað mig til að... (nóg er að láta t.. s.. í r.... hér heima og láta flaka af manni sparibaukinn.

Svipað og þú segir hafa viðbrögð br. yfirvalda verið grimm.  Eins og að senda handrukkara á húsbyggjanda sem skuldar í Byko og er á fullu að leita að láni til að borga þeim.  Þessir diplómatísku Bretar hafa raknað á saumunum af ótta.... kannski ekki skrýtið.

Beturvitringur, 10.11.2008 kl. 22:27

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Legg til að fólk hlusti á Spegilinn frá því fyrr í kvöld. Þar er fínt viðtal við Magnús Árna Skúlason, hagfræðing, og einn af aðstandendum www.indefence.is.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.11.2008 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband