489. - Jón grindamígur - bóka það

Þetta gerðist á Húsavík fyrir margt löngu. Jakob Hafstein var þar sýslumaður. Einhverju sinni sáu þeir Jakob og skrifari hans til bónda nokkurs sem veltist um blindfullur og pissaði auk þess utan í grindverkið um lóð sýslumannsins.

"Jón grindamígur - bóka það" varð sýslumanni að orði.

Nokkru seinna fékk nefndur bóndi bréf frá sýslumannsembættinu. Ekki segir neitt frá efni þess en utanáskriftin var:

Jón bóndi og grindamígur Jónsson
Grund

Bóndi varð æfur við þetta og næst þegar hann kom til Húsavíkur sneri hann sér beint til sýslumanns til að klaga þetta.

Dvaldist þeim nokkuð á skrifstofu sýslumanns en bónda var auðsjáanlega létt að fundinum loknum.

Skrifari sýslumanns spurði hvernig málinu hefði lyktað.

"Já það." sagði sýslumaður. "Okkur kom saman um að breyta orðinu grindamígur í stakketpisser."

Nú er sjálf meirafíflskenningin farin veg allrar veraldar. Ekki sé ég eftir henni og aldrei notaði ég mér hana. Hún er samt sú hagfræðikenning sem útrásarvíkingarnir græddu hvað mest á. Í matadorfylliríi eins og hér hefur ríkt er lengi hægt að haldast á floti ef sífellt finnast meiri fífl. Að því hlaut samt að koma að fleiri fyndust ekki. Bankaævintýrið í heiminum öllum var í rauninni bara einn risastór svindlpíramídi.

Ég hef alveg frá 1972 verið þeirrar skoðunar þó ég hafi ekki haft mjög hátt um hana að við ættum að ganga í EU þó ekki væri nema til tryggingar ef illa færi. Ég átti samt frekar von á aflabresti eða eldgosum en svona móðuharðindum af mannavöldum. Hvað um það, í súpunni sitjum við og reynum nú bara að bjarga okkur eins og best gengur. Stjórnmálamönnum og útrásarvíkingum hugsum við auðvitað þegjandi þörfina.

Sigurður Þór Guðjónsson (nimbus.blog.is) hefur nú læst bloggi sínu. Mér finnst það ósniðugt en kannski hefur hann ástæðu til þess. Seinna meir kann að vera að ég sæki um aðgang að síðunni.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Getur verið að hér sé átt við Júlíus Havsteen sem var sýslumaður Þingeyinga frá1921 - 1956?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 25.10.2008 kl. 10:11

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, það gæti vel verið. Svona var þetta samt í minni mínu. Líklega hef ég þetta úr bók frekar en að mér hafi verið sagt þetta. Hafði ekkert fyrir því að staðreyna nafnið sem auðvitað hefði verið skynsamlegt að gera.

Sæmundur Bjarnason, 25.10.2008 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband