474. - Gasprarar eru gallagripir en sálarró er allra meina bót

Mér virðist stefna í alvarlega milliríkjadeilu við Breta. Mér er minnisstætt hve hataðir Bretar voru þegar á þorskastríðunum stóð. Ekki hefði verið mikill vandi fyrir stjórnvöld að espa fólk til óhæfuverka þá. Svipað getur orðið uppi á teningnum núna. Rétta ráðið er að draga andann djúpt og telja nokkrum sinnum uppað tíu.

Slæmt er hve mikið af umræðunni undanfarna daga hefur farið í að bollaleggja um hverjum ástandið sé að kenna og hvernig skuli ná sér niðri á þeim. Hatursáróður er aldrei til heilla. Reiði er afleitur félagi.

Einu sinni var sagt um Össur Skarphéðinsson að hann væri helsta vandamál Samfylkingarinnar. Líklega er hann svolítið að spekjast núna eftir að hann varð ráðherra. Þó er það ekki víst. Hann bloggar enn af miklum krafti. Einkum eftir miðnætti að sagt er. Trúlega minnist hann þá Þjóðviljaáranna. Sumir eiga um sárt að binda eftir eiturörvar hans en stundum lenda þær á honum sjálfum.

Davíð Oddsson er augljóslega mikill gasprari líka. En kjöftugum ratast stundum satt á munn. Sagt er að Davíð hafi gert margan útlendinginn frábitinn stuðningi við Íslendinga í þrengingum þeirra. Hann talaði um erlendar skuldir með óvægnum hætti í Kastljósviðtali um daginn. Davíð á það til að segja sannleikann umbúðalaust og talar þá gjarnan á annan hátt en embætti hans segir til um að hann ætti að gera. Sumir segja að hann tali eins og byltingarforingi.

Eiginlega eru þessir tveir menn nauðalíkir. Bæði í útliti og á annan hátt. Lífið á Íslandi væri öðruvísi ef þeirra nyti ekki við. Allir hafa yndi af að hafa skoðun á þeim. Ýmist er þeim lýst sem óalandi og óferjandi eða sem einhverjum mestu snillingum sem uppi hafa verið.

Geir Hilmar Haarde hefur vaxið í áliti hjá mér að undanförnu. Síðustu dagar hafa svo sannarlega verið eldskírn hans og hann hefur staðist þá raun. Á blaðamannafundinum í dag (fimmtudag) var hann þó áberandi taugaóstyrkur. Deilan við bresk stjórnvöld kann að hafa valdið því.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þú ert blindur

eymar 10.10.2008 kl. 09:44

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það eru margir sjáendurnir þessa dagana. Hæfileg blinda held ég að sé bara af hinu góða.

Sæmundur Bjarnason, 10.10.2008 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband