459. - Ellismellur, Leirlistinn, vísur, gosdrykkir og fleira

Nú fer hringurinn um Ellismellinn að þrengjast. Ég þóttist viss um það fyrir nokkru að hann hefði verið með mér á Bifröst. Nú kemur í ljós að hann var líka og er jafnvel ennþá á Leirlistanum. Leirlistinn var reyndar nokkuð skemmtilegur. Kannski ég fari að skoða hann aftur. Bloggið er samt skemmtilegra og fjölbreyttara held ég.

Ég orti ekki oft á Leirlistann en þó kom það fyrir. Einhverju sinni var mál eitt mikið til umræðu. Upplýst var að fiskifræðingar við Hafrannsóknarstofnum hefðu misreiknað sig og jafnvel týnt um milljón tonnum af þorski. Þá gerði ég þessa vísu sem vel getur verið að ég hafi birt áður hér á blogginu. Biðst afsökunar ef svo er.

Hér var 1.000.000 tonnum týnt
í torráðinni gátu.
Þjóðinni var svarið sýnt.
Sægreifarnir átu.

Ólína Þorvarðardóttir spyr um höfunda nokkurra lausavísna sem hún tilgreinir. Í einu af svörunum er bent á vísnasafn Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Þetta safn er ágætt og ég hef nokkrum sinnum komið þangað (sendur af Google - líklega) Mér finnst samt ómaksins vert að setja í bloggið sitt góðar vísur ef mann langar. Gjarnan má reyna að feðra þær og ekki sakar að fá fram afbrigði. Ég veit ekki hvernig safnið hjá Skagfirðingum er hvað afbrigði varðar. Annars finnst mér feðrun lausavísna vera sérmál og ekki mjög áhugavert.

Þetta er búið að vera erfitt og þakkarvert að ég skuli ekki hafa hrokkið uppaf sagði Bragi Ásgeirsson í Kastljósinu. Ég man alltaf hvað mér þótti hræðilegt á sínum tíma að sjá dúkkuhausana hjá honum. Bragi er samt án vafa meðal merkustu listamanna okkar og að hann skuli hafa yfirunnið heyrnarleysið er ekkert minna en kraftaverk.

Það er ekkert ýkja langt síðan gosdrykkir fóru að fást í plastflöskum. Lengi vel var til dæmis einungis hægt að fá Coca Cola í 18 sentilítra flöskum sem nú til dags væri kallað lítil kók. Svo komu stórar kók (1/3 úr lítra að mig minnir) Enn seinna komu svo líters kók sem þóttu geysistórar. Þá varð til brandarinn: "Kaupa glerið eða drekka hérna?" sem þótti meinfyndinn. Núna hugsa ég að hálfs líters kók í plastflöskum sé vinsælast. Kannski er kók ekki það vinsælasta samt. Í gamla daga fékkst bara kók, appelsín, malt, pilsner og í hæsta lagi Sinalco, spur og Canada dry. Ef farið var til Akureyrar var samt hægt að fá Valash, Cream sóda, Jolly Cola og kannski eitthvað fleira.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband