458. - Dálítið um bloggið hér og meira af Kaupmannahafnarmyndum

Ég hef fengið það svolítið á tilfinninguna að sumir sem hingað koma séu því fegnir að hér eru ekki miklar bollaleggingar um fréttir dagsins og stjórnmálin fá að mestu frí. Lítið er minnst á Baugsmál, Hafskipsmál, virkjanamál og þess háttar. Þó hef ég skoðanir á þessu öllu. Gallinn er að þær eru breytilegar svo best er að þegja.

Samt er um nóg að skrifa. Þegar ekki vill betur þá blogga ég hiklaust um blogg eins og bloggrýnirinn sællar minningar virtist alveg hafa gert sér grein fyrir.

Bloggið er fjölmiðill og ég er orðinn háður því. Tveir aðrir fjölmiðlar sem ég gæti alveg orðið háður eru Útvarp Saga og Ínn sjónvarpsstöðin sem Ingvi Hrafn kom á fót.

Þó hef ég ýmislegt við alla þessa fjölmiðla að athuga. Það er engin leið að komast yfir allt sem máli skiptir í Blogginu og margt er þar afar ómerkilegt. Arnþrúður á Sögu stjórnar þar öllu með harðri hendi og mér hugnast fremur illa sú stjórnmálaskoðun sem þar birtist.

Ínnið hans Ingva Hrafns hef ég lítið horft á. Hluta af samtali við Helga Magnússon sá ég þó í dag. Þar var aðallega rætt um Hafskipsmálið og margt áhugavert kom þar fram. Ingvi Hrafn stjórnaði því viðtali og fór vaðallinn í honum greinilega oft í taugarnar á Helga. Hugsanlega er þessi fjölmiðill þó allar athygli verður.

Ég get ekki að því gert að mér dettur oft í hug fyrrverandi bloggvinur minn Þjóðarsálin með hundshausinn. Þó ég meini eiginlega allt sem ég skrifa á mitt blogg þá meinar hann greinilega fátt af því sem hann skrifar en verður svo öskureiður ef hann er ekki tekinn alvarlega þegar það á við og lokar fyrir athugasemdir ef þær eru ekki nógu margar að hans dómi. Líka þurrkar hann út bloggfærslur eftirá og linkar í allar mbl.is fréttir sem hann mögulega getur.

Eiginlega hagar hann sér á allan hátt öfugt við mig en auðvitað er það hans mál en ekki mitt og ekkert athugavert við það. Það er ekki ég sem ræð hérna. Hann er oft bráðfyndinn og elja hans er mikil. Svo er hann með afbrigðum fundvís á skemmtilegar myndir. Ég er aftur á móti bara gamall og ruglaður kall sem skrifa einu sinni á dag um það sem mér dettur í hug í það og það skiptið og linka ekki í fréttir. Skrifin verða samt oft í lengra lagi ekki neita ég því.

Og svo eru það myndirnar:

Picture 314Þetta er inngangurinn í Tívolí og að sjálfsögðu þröng á þingi.

Picture 324Aðaljárnbrautarstöðin við Vesterbrogade. Heldur óhrjálegt umhverfi í miðri stórborg.

Picture 325Litskrúðugt hús en mér er ekki með öllu ljóst hvað þarna fer fram.

Picture 329Þjóðleikhúsið danska - að ég held.

Picture 341Ruslatunna sem styður motorhjól. Musikandagtin er sennilega vegna þess að hjólið er ekki í gangi!

Picture 354Nýhöfnin í öllu sínu veldi.

Picture 370Komið úr skoðunarferð. Allir dasaðir.

Picture 386Undirgangur að Strikinu. Hér má ekki leggja reiðhjólum.

Picture 394Hér er allur akstur bannaður eins og eðlilegt er.

Picture 407Ef þú tekur mynd af mér þá skal ég jafna um þig.

Picture 410Eitt vinsælasta farartækið á göngugötunni Strikinu.

Picture 486En samt er þetta nú hálfgert hundalíf.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Til hamingju með nýju myndina. Vangamyndina við höfundaboxið!

Nú sé ég að þú ert dæmigerður langhöfði og með þetta myndalega nef. Alltaf batnar álit mitt á þér.

Þegar þú varst með köttinn fyrir framan þig, hélt ég hreint út sagt að þú værir þverhaus.

Góðar myndir hjá þér. Þær minna mig dálítið á staðinn sem ég bý á, en ekki fæ ég heimþrá.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 24.9.2008 kl. 14:55

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, þessi er tekin núna um daginn og einmitt í Köbenhavn. Nú er ég búinn að finna út hvernig þetta er gert og búast má við myndaskiptum ótt og títt. Þverhaus og langhöfði get ég vel verið. Og auðvitað er ég að stara á tölvuskjá þegar myndin er tekin.

Sæmundur Bjarnason, 24.9.2008 kl. 15:44

3 identicon

"Arnþrúður á Sögu stjórnar þar öllu með harðri hendi og mér hugnast fremur illa sú stjórnmálaskoðun sem þar birtist."

Ég er sammála.  Er komin með mjög illan bifur á Útvarpi Sögu - og nánast hætt að hlusta á hana.  Eina undantekningin er þáttur Sigurðar G. Tómassonar, sem ég hlusta stundum á í endurflutningi.  Stöðin er orðin hrein áróðursstöð fyrir Frjálslynda Flokkinn - og alveg hreint ótrúlegur óþverri sem veður uppi þarna.

Malína 25.9.2008 kl. 00:43

4 identicon

Heill og sæll frændi.

Litríka húsið er bíó, Palads cinema til að vera nákvæmur.

Máni Atlason 27.9.2008 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband