456. - Minningar úr Hveragerði. Álfafell, Aðalsteinn Steindórsson, svört girðingarrolla og fleira

Ég held að ég hafi minnst á það áður í bloggi að ég vann einu sinni hjá Gunnari Björnssyni í Álfafelli. Gunnar seldi okkur Vigni fyrsta bílinn sem ég eignaðist sem var fólksvagn módel 1959 en það er önnur saga. Ætli það hafi ekki verið árið 1958 sem ég vann í Álfafelli. Samkvæmt því mun ég hafa orðið 16 ára um haustið þegar þetta var og það finnst mér passa. Mig rámar í landhelgisumræðu mikla um það leyti sem ég vann þar.

Margt af eftirminnilegu fólki vann með mér í Álfafelli en fáir eru mér samt eins minnisstæðir og Aðalsteinn Steindórsson eða Alli Steindórs eins og hann var jafnan kallaður. Alli var mun eldri en ég og oft vorum við saman við ýmis verk og þá var ég auðvitað fyrst og fremst í því að aðstoða hann.

Meðal annars var það verkefni okkar Alla að sjá um að rolluskjátur væru ekki að flækjast á Álfafellslóðinni. Ef kindur höfðu komist þangað var það okkar verk að koma þeim útfyrir og lappa nægilega uppá girðinguna til að þær kæmust ekki aftur innfyrir.

Einu sinni komum við að nokkrum nokkrum kindum á lóðinni. Mér tókst að ná í hornið á einum lambhrút og við fórum að mjaka skjátunum útfyrir. Þetta var í brattri hraunskriðu og allt í einu tók hrúturinn undir sig stökk og við duttum báðir ég og hrúturinn og ultum niður skriðuna en varð þó ekki meint af því en ég man að ég sleppti ekki horninu á hrússa í veltingnum og Alli hrósaði mér fyrir ákveðnina.

Ein svört rolla komst mjög oft inná lóðina og virtist sama hve vel við gengum frá girðingum á svæðinu. Við töldum þessa rollu vera frá Friðastöðum og einnig að hún stæði fyrir einskonar girðingarskóla og kenndi öðrum rollum hvernig ætti að komast innfyrir Álfafellsgirðingarnar. Stykki jafnvel yfir þær. Seinna þegar ég vann á Reykjum sá ég rolluhóp vera að æfa sig í að stökkva yfir rörahlið. Ég trúði varla eigin augum en svona er þetta.

Einu sinni komum við að svörtu rollunni og nokkrum fleiri á ólöglegum stað og ákváðum að kenna þeim lexíu og lokuðum þær inni í gamalli laukageymslu uppi í Hlíðarhaga. Það var svo allmörgum dögum eða vikum seinna sem Alli sagði allt í einu við mig.

„Heyrðu, hleyptum við rollunum nokkurn tíma út úr laukageymslunni um daginn?"

Ekki mundi ég til þess.

„Þú verður að fara og athuga það."

Ég þorði ekki annað en hlýða þessu en óaði þó við að koma ef til vill að rollunum dauðum eða hálfdauðum. Auðvitað var búið að hleypa þeim út. Alli hefur líklega gert það sjálfur.

Við Alli byggðum eða settum þak á lítið gróðurhús niðri í kvosinni hjá ánni. Þá þurftum við að saga til sprossana og Alli hafði það að orðtaki þegar sögunin tókst bærilega að segja.

„Já, þetta passar alveg uppá klofið kuntuhár."

Annars fór ég til Kaupmannahafnar á föstudaginn var og er nýkominn þaðan. Þessvegna þetta bloggleysi undanfarna daga. Ofanritaða frásögn átti ég að mestu tilbúna og skutla henni semsagt inn núna en nenni ekki að gera meira.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Velkominn heim aftur. Ég var að byrja að hafa áhyggjur af þér -- eða gera því skóna að þú hefðir brugðið þér bæjarleið.

Sigurður Hreiðar, 22.9.2008 kl. 12:18

2 Smámynd: Yngvi Högnason

Afskaplega er gott að koma hér við,ekkert þras,pólitík eða þaðan af verra.Takk fyrir.

Yngvi Högnason, 22.9.2008 kl. 20:44

3 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Mannstu eftir Baldri frænda mínum og Siggu Ellerts konu hans, góðum gróðurhúsabændum í bænum um langt árabil?

Magnús Geir Guðmundsson, 23.9.2008 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband