451. - Fáeinar vísur héðan og þaðan og hugleiðingar um þær

Nú ætla ég að setja saman smávísnaþátt. Þetta eru allskonar vísur og ég get ekki séð að þær eigi neitt sameiginlegt. 

Greiddi upp trýnið gluggasvín
greitt að hnefabragði.
Sverðarunn tók sér í munn
og saman aftur lagði.

Þetta er úr einhverri rímu. Hugsanlega eftir Sigurð Breiðfjörð. Þarna er því lýst þegar barið er að dyrum, dyrnar opnast og maðurinn gengur inn.

Konur nokkrar sátu við hannyrðir og ræddu barneignir og barnsgetnaði svo sem fara gerir. Maður nokkur kom vongóður til þeirra og sagði:

Glöggt á þessu greini ég skil.
Geymið þið stúlkur dótið.
Ég skal búa barnið til
bara þið lánið mótið.

Vondir menn með vélaþras
að vinum drottins gera brigsl.
Kristur stóð fyrir Kaifas,
klögumálin gengu á víxl.

Ég held að fyrri partur vísunnar hafi upphaflega verið hugsaður sem einhvers konar rímþraut. Vel gæti eitthvað hafa skolast til hjá mér í þessari vísu.

Jóhann Sveinsson frá Flögu gaf eitt sinn út vísnabók. Ég man vel eftir þeirri bók. Bæði útlitinu á henni og eflaust hef ég lært einhverjar vísur úr henni. Bókin heitir: "Ég skal kveða við þig vel" og fyrsta vísan í henni er svona:

Ég skal kveða við þig vel
viljirðu hlusta kindin mín.
Pabbi þinn fór að sækja í sel.
Senn kemur hún mamma þín.

Ég man að mamma kenndi mér eftirfarandi vísu og lét þess getið um leið að auðvitað mætti svosem setja alltaf í staðinn fyrir aldrei í byrjun hverrar ljóðlínu:

Aldrei skal ég eiga flösku.
Aldrei drekka brennivín.
Aldrei reiða ull í tösku.
Aldrei bera tóbaksskrín.

Ég veit ekkert um tilefni næstu vísu eða hver hefur sett hana saman. Ég hef áreiðanlega lært hana á sínum tíma bara vegna blótsins og hvað orðalagið í henni er kraftmikið.

Lítill er og læramjór.
Lítt að góðu kenndur.
Drekktu vín og drýgðu hór
Djöfullið þitt Gvendur.

Það má eiginlega ekki minna vera en að sjö vísur séu í einu vísnabloggi Hér kemur sú sjöunda og síðasta. Nokkuð vel gerð hringhenda úr safni Gunnars frá Selalæk minnir mig:

Háum kofa herrans í
hörð var ofin snara.
Ég hef lofað aldrei í
önnur klof að fara.

Jú annars. Ég held að ég haldi bara áfram. Vísur eru svo fljótlesnar að það er afsakanlegt að hafa þetta aðeins í lengra lagi núna. Umræðan um þjóðskáldin varð til þess að ég fór að hugsa um Grím Thomsen.

Aldrei hefur enn í manna minnum
meira riðið nokkur Íslendingur.

segir í Skúlaskeiði og það hefur ekki enn verið hrakið svo ég viti. Þó skilst mér að menn ríði og ríði viðstöðulaust um allar koppagrundir til að reyna við metið.

En hvert er metið?

Það er sem ég þrái mest
og þyrfti að fá mér bráðum.
Góða konu og góðan hest
og geta riðið báðum.

Þetta er gamall húsgangur og ekki mikið að marka hann. Allavega ekki við metslátt.

Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar.

Vissi Grímur ekkert um hefðbundna stuðlasetningu eða er þetta bara skáldaleyfi?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég á til hróz fyrir þig ..

Takk.

Steingrímur Helgason, 15.9.2008 kl. 00:09

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég kenni hér eitthvert efni úr Apókrýfar vísnabókinni góðu...

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.9.2008 kl. 00:22

3 identicon

Sæll, Sæmundur. Hef heyrt flestar þessar vísur, sem þú tiltekur. "Faðernið" liggur ekki alltaf fyrir, en vísan "Háuk kofa herrans í" er eftir Bjössa bomm, Björn Jónsson, lækni, sem starfaði lengst af sinni starfsævi Westan hafs. Hann var fæddur og upp alinn á Sauðárkróki og þar gekk hann í hjónaband í kirkju þorpsins og kominn út úr "háum kofa Herrans"=kirkjunni, þá orti hann vísu þessa.

Ellismellurinn 15.9.2008 kl. 07:19

4 identicon

Á þetta ekki að vera: „góða konu og graðan hest"? Eða var það öfugt?

                           Gaman að sjá kveðskap á blogginu

Hörður

Hörður Björgvinsson 15.9.2008 kl. 08:37

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvar brenglar Grímur hefðbundna stuðlasetningu í þessum ljóðlínum?

Ég hef enga bragfræði lært en sé ekki né finn neitt við þetta að athuga.

En sagði ekki einn af gömlu meisturnum um Grím og ljóðin hans:

Það voru lög hjá gamla Grími- að gera ljóð sín hrein og skýr´.

Þó lítill sé þar blóðsins brími- og brotalöm á mörgu rími

í þeim kyngikraftur býr?

Árni Gunnarsson, 15.9.2008 kl. 09:23

6 identicon

 

 

Sem sjálfútnefndur beturvitrungur verður maður að standa í stykkinu og því koma hér nokkrar athugasemdir við ágætan vísnaþátt pistilhöfundar. Því er nú þannig farið að fólki finnst alltaf vísa rangt með farin, ef hún í meðförum annarra hljóðar ekki nákvæmlega eins og það lærði hana sjálft. Ég er þar engin undantekning.

 

Vondir menn með vél og þras

vinum drottins gera brigsl.

Kristur stóð fyrir Kaifas

klögumálin ganga á víxl.

 

Mér finnst mikill óþarfi að bæta þarna ”að” inn í.  Gera aðför að einhverjum, en brigsla einhverjum. Gera álít ég bara vera útfyllingarorð eða segir fólk að gera brigsl einhverjum?

 

Ég skal kveða við þig vel

Vertu hýr og kátur.

Pabbi er að sækja sel

Sýður mamma slátur.

 

Hér eru augljóslega á ferð tvær útgáfur. En að sjálfsögðu er merkingin önnur í ”sel” .

Er þó ekki frá því að ég hafi heyrt útgáfu pistilhöfundar.

 

Ekki var farið með klúrar vísur heima og er ég því ekki heima í þeim.Hef reyndar aldrei heyrt þær. Skortur í uppeldinu!!?

 

Svo vikið sé að Skúlaskeiði: Stendur ekki ” Aldrei hefur enn í manna minni” Ég fer bara eftir mínu minni og það getur svikið mig.

 

Og nú að bragfræðinni. Jú, Grímur vissi nú sínu viti. Mig trufla ekkert þessar ljóðlínur:

 

”Þeir eltu hann á átta hófahreinum

og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar”

 

”Ei var áð og ekkert strá þeir fengu

orðnir svangir jóar voru og mjóir”

 

Í okkar hefðbundna íslenzka skáldskap eru það stuðlasetning, hrynjandi og áherzlur sem stýra í bragfræðinni. Stundum verður maður að hjálpa upp á skáldið með því að leggja áherzluna á rétt atkvæði. Í fornmálunum grísku og latínu er ”kvantiteten” eða lengd ljóðlínunnar ráðandi:

 

”Natten gick hän, och det grydde till dag, och de seglade ständigt” (Odyssuskviða,  2. sången, bragarháttur: hexameter).  Kann þetta ekki á íslenzku , því miður.

 

Nóg komið, þarf að feta mig niður af himinháu sviði beturvitringa. En ég auglýsi eftir fleirum. Hef ekkert á móti leiðréttingum. Vil hafa það sem sannara reynist.

 

S.H. 15.9.2008 kl. 10:51

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður :)

Óskar Þorkelsson, 15.9.2008 kl. 12:23

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þakka athugasemdirnar. Betur sjá augu en auga. Ég er ekki frá því að flestir sem hér hafa skrifað hafi alveg rétt fyrir sér. Vísur sem bara eru teknar úr minninu vilja oft vera afbakaðar á ýmsan hátt.

Varðandi Grím Thomsen þá sé ég ekki betur en um tvístuðlun sé að ræða í tilgreindum vísuorðum "hófahreinum" tel ég að stuðli og því ætti höfuðstafurinn að vera h, en er það ekki. Mig minnir að það hafi verið Gunnar Benediktsson sem benti okkar á þetta þegar ég var í skóla fyrir langalöngu. En hvorki bragfræði, stafsetning eða málfar er "absolútt" vísindi og alltaf pláss fyrir mismunandi skoðanir.

Sæmundur Bjarnason, 15.9.2008 kl. 14:52

9 identicon

 

 

Ég má til með að bæta hér ögn við.  Í athugasemd við blogg nr 450
hnuplaði  ég úr vísu Kristjáns Ólasonar, bróður Árna Óla. Í Ferhendu -
 litlu vísnakveri  eftir Kristján - hefur vísan þessa fyrirsögn:

 Eftirmæli um hinn skjótráða

Þegar hann er fallinn frá
fólkið ber í minni:
viðbrögð snögg, en oftast á
undan hugsuninni.

 Heyrt hef ég um hvern þetta var ort, en hef það ekki í hámælum.

S.H. 15.9.2008 kl. 16:20

10 identicon

Vondir menn með vélaþras
að vinum drottins gera brigsl.
Kristur stóð fyrir Kaifas,
klögumálin gengu á víxl.

Þetta er að ég tel úr Jesúrímum Tryggva Magnússonar

Þar er einnig þessi Heródesar lýsing úr annari rímu:

Einkannlega elskar jall

alla vega svikabrall

Gæðatregur gjarn á svall

geysilega vondur kall

og

Trauðla góður tjörguþór

tældi fljóðin kostasljór

Og síns bróður uppá fór

Auðarslóð, og drýgði hór

Tryggvi var afar vel kvæður auk þess að vera einn besti skopmyndateiknari sem við höfum átt.

Kveðja

Leifur

Þórleifur Ásgeirsson 16.9.2008 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband