448. - Ég sé að Þjóðarsálin svokallaða sem kommentar grimmt hjá öðrum leyfir ekki öðrum að kommenta hjá sér. Það finnst mér klént. Fyrirsögnin átti annars að vera um Káinn

Kristján Níels Jónsson (Káinn) fæddist 7.apríl árið 1860. Hann fluttist 18 ára gamall til Ameríku og átti ekki afturkvæmt þaðan. 

Þegar hann fluttist til Vesturheims tók hann sér ættarnafnið Júlíus. Oft var hann einnig nefndur eftir upphafsstöfum sínum KN. Hann var með öllu ómenntaður og naut lítillar skólagöngu. Alla sína æfi vann hann almenna verkamannavinnu og mest við búskap. Hann kvæntist aldrei og ekki er vitað til að hann eigi afkomendur.

Margar vísna hans eru nokkuð enskuskotnar en alls ekki verri fyrir það. Ein af þeim vísun sem ég man mjög vel eftir og er einmitt skemmtilegt sambland af ensku og íslensku er þessi:

Bágt er að vera birtu án.
Berið hingað ljósið.
Everything is upside down
allt í kringum fjósið.

Vísa sem Káinn orti einhverju sinni eftir að ofsatrúarmenn höfðu komið í heimsókn til hans án þess að geta snúið honum er mjög þekkt:

Kýrrassa tók ég trú.
Trú þessa hef ég nú.
Í flórnum fæ ég að standa
fyrir náð heilags anda.

Þessi vísa er kannski ekki rétt eftir höfð en satt að segja held ég að til séu óhemjumörg afbrigði af henni í minni manna.

Konur nokkrar spurðu Káinn einhverju sinni um álit á stuttu tískunni sem þá var mjög til umræðu:

Kæru löndur hvað veit ég
karl um pilsin yðar.
Mér finnst síddin mátuleg
milli hnés og kviðar.

Káinn var nokkuð vínhneigður. Sagt er að hann hafi einhverju sinni verið á veitingahúsi og afgreiðslustúlka þar amaðist við því að hann væri að drekka á staðnum. Káinn fyrtist við, setti flöskuna á borðið og rak í hana tappann með látum um leið og hann mælti fram þessa vísu:

Heyrðu Manga hýr á brá
hlýddu meðan sérðu.
Þannig ganga þyrfti frá
þér að neðanverðu.

Hin eftirfarandi fræga og minnisverða vögguvísa mun vera eftir Káinn. Margir kunna hana eða kannast við án þess að vita eftir hvern hún er. Margar útgáfur eru til af þessari vísu. Einkum er önnur ljóðlínan breytileg.

Farðu að sofa blessað barnið smáa.
Brúkaðu ekki minnsta djöfuls þráa.
Haltu kjafti hlýddu og vertu góður.
Heiðra skaltu föður þinn og móður.

Ég veit að gefin hefur verið út bók með helstu verkum Káins en hún er mér ekki tiltæk svo allar vísurnar sem hér eru settar á blað eru eftir minni.

Kannski reyni ég einhvern tíman seinna að setja saman fleiri vísnaþætti. Nóg er til af vísum.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bloggrýnirinn

Þetta er fyrsta athugasemd mín á blog.is. Það er við hæfi að ég leggi hana inn hjá þér því ég fjallaði um þig fyrstan á mínu bloggi.

Mér finnst þessi færsla þín sú besta um langa hríð Sæmundur. Hún er fræðandi og skemmtileg. Þú skrifar góða íslensku og kannt greinilega að halda hrynjandinni í málinu.

Bloggrýnirinn, 12.9.2008 kl. 00:24

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég eiginlega beið spenntur frá því ég las fyrri færzlu þína, um að fá að njóta vízna Káinn á bloggi.

En allar þínar færzlur eru mér andlegur matur.

Takk.

Steingrímur Helgason, 12.9.2008 kl. 00:37

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég man þessa vísu, að mínu mati

Kýrrassa tók ég trú

traust hefur reynst mér sú

í flórnum því fæ ég að standa

fyrir náð heilags anda

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.9.2008 kl. 02:06

4 identicon

Ég átti bókina um Káinn. Tapaði henni og sakna hennar mikið.

Hef ekki fengið hana í bókabúðum.

Sigrún Jóna 12.9.2008 kl. 07:51

5 identicon

Sæll Sæmundur.

Ég fletti upp í bókinni Vísnabók Káins. Þar er kýrrassavísan eftirfarandi:

Kýrrassa tók ég trú,

traust hefir reynst mér sú.

Í flórnum því fæ ég að standa

fyrir náð heilags anda.

Leyfi þessari að fljóta með til gamans:

Í danslok

Hættu að dansa og gætni gleym,

gríptu ,,chance"-ið, maður!

Taktu kvensu og töltu heim.

,,Tell your friends to do the same".

Með kveðju

Óli Ágústar 12.9.2008 kl. 11:32

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þjóðarsál. Og hver er sú skýring? Og af hverju notar þú dulnefni?

Sæmundur Bjarnason, 12.9.2008 kl. 14:15

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þegar ég las fyrirsögnina átti ég von á djúsí fjasi um já-fólkið, en svo blasir við mér pistill um Þráinn sem kallaði sig Eyjólf.

jahhá

Brjánn Guðjónsson, 12.9.2008 kl. 14:23

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Tippíkal eins og einhver sagði: Þjóðarsálin veður bloggelginn upp undir hendur en svarar ekki því sem hann er spurður um. Ég fæ ekki séð að skýring á kommentabanni sé á blogginu hans.

Sæmundur Bjarnason, 12.9.2008 kl. 16:49

9 Smámynd: Yngvi Högnason

Ekki held ég að það skipti máli Sæmundur,hvort hægt er að skilja eftir athugasemd hjá andlitslausri hjárænu eða ekki.

Yngvi Högnason, 12.9.2008 kl. 19:45

10 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Komdu sæll Sæmundur!

Í Vísnabók Káins sem vitnað er í hér að ofan og fyrst var prentuð 1965, er önnur hendingin í vögguvísunni alkunnu, "brúkaðu ekki minnsta fjandans þráa".

Þannig lærði ég hana líka og hafði aldrei séð aðra útga´fu fyrr þar til í gær á öðrum vettvangi, sem er birtur á vefnum skaldhus.akureyri.is. Þar er önnur hendingin, "brúkaðu ekki nokkurn fjárans þráa". Finnst mér það öllu óþjálli og ólíklegri útgáfa, en erfitt er nú að fullyrða um það samt, sem og um margar vísurnar sem farið hafa á flakk, orðið fleygar í munnlegri geymd.

Magnús Geir Guðmundsson, 15.9.2008 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband