447. - Um málfar, nýjan og snjallan bloggara, dægurlög, sveitaböll og Badda kött

Ég tek eftir því að ef ég skrifa um málfar eru heimsóknir og komment með mesta móti. Líklega hafa mjög margir áhuga á slíku og er það vel. Mér líkar samt ekki alltaf sú dómgirni sem ég þykist verða var við í þessum efnum. Kannski reyni ég að koma hugleiðingum um þetta að á næstunni.

Get ekki stillt mig um að benda á nýjan bloggara hér á Moggablogginu. Hann segist heita bloggrýnirinn (bloggryni.blog.is). Þegar ég uppgötvaði hann hafði hann bara skrifað tvo pistla. Pistill númer tvö heitir sæmundarháttur í bloggi. Ég var alveg gáttaður þegar ég las hann. En svo flýtti ég mér að bjóða þessum snillingi bloggvináttu sem hann þáði.

Eins gott að ekki var minnst á dægurlög í klukkinu því þá hefði ég lent í vandræðum. Tónlist er yfirleitt bara hávaði í mínum eyrum. Þó man ég eftir einu dægurlagi. Ég var að vinna uppi á Reykjum og Örn Jóhannesson kom með amerískan 45 snúninga glymskratta með sér úr einni bæjarferðinni. Hann kom einnig með nokkrar plötur og sagði að á þeim væru nýjustu og flottustu dægurlögin. Ég man að eitt að þessum lögum var "The Banana boat song" sem sungið var af Harry Belafonte. Þetta lag festist af einhverjum ástæðum í minni mér.

Um svipað leyti kom Bill Haley og rokkið til sögunnar og allir þurftu að vera í hvítum peysum og svörtum gallabuxum með hvítum saumum. Af hverju veit ég ekki.

Seinna komu svo sveitaböllin. Mesta fjörið var yfirleitt á Hvoli en aðrir staðir voru líka í lagi. Svo sem Hella, Aratunga, Þjórsárver, Selfossbíó og fleiri. Aðalhljómsveitin var auðvitað Hljómsveit Óskars Guðmundssonar.

Sá um daginn í Kastljósi kvöldsins sýnt frá heimsókn til Bjarna E. Sigurðssonar. Þegar hann átti heima í Hveragerði í gamla daga var hann alltaf kallaður Baddi. Hróðmar og hann voru stundum kallaðir Hrói höttur og Baddi köttur. Já, Baddi var kattliðugur þá og varð seinna íþróttakennari. Eftir það fór hann svo í hestamennsku og var lengi eitthvað viðloðandi slík störf. Ég held að þetta með landnámshanana bæði uppstoppaða og lifandi sé fremur nýtilkomið.

Jón Helgi Háldánarson vinur Badda og félagi var stundum dálítið fljóthuga og fljótmæltur. Einhvern tíma á hann að hafa sagt: "Ég, Baddi og þrjár aðrar stelpur fórum í óleyfisleysi niður í Þorlákshöfn."

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Saelir, sakna thess ad sja ekki myndir lengur hja ther Saemundur.  En thad setur ljomandi brag a daginn hja mer ad sja myndir fra ykkur.

Er her i vinnuni tharr sem eru ekki til islenskir stafir en eg reini ad setja inn nokkrar myndir fra ferdinn okkar a naestu dogum.

 Bestu Kvedjur Benedikt.

Benedikt Gudmundsson 11.9.2008 kl. 11:53

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er hægt að hafa yfir heilar bögur. Án þess að rímið þekkist þegar þær eru nógu alþýðlegar.

Ég þekki fáar svona vísur en ef manni er sagt að um vísu sé að ræða er yfirleitt ekki mikll vandi að finna útúr því. Fyrri setningin er vísa en sú seinni ekki mér vitanlega.

Sæmundur Bjarnason, 11.9.2008 kl. 16:10

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Úps. Þetta var lélegt hjá mér. Það er engin ástæða til að hafa punkt á eftir bögur. Viðurkenni það. Í seinni málsgreininni hefði ég ekki átt að tala um setningar heldur málsgreinar. Og þetta hér er áreiðanlega ekki vísa.

Sæmundur Bjarnason, 11.9.2008 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband