422. - Ímyndunarviðtalið heldur áfram

Samtalsformið er skemmtilegt. Kannski ég láti viðtalið bara halda áfram. (NB þetta er ímyndað viðtal.)

BMB = blaðamaður Moggabloggstíðinda.

SB = Ég sjálfur.

BMB: Hvað er það sem rekur þig áfram með bloggið? Fyrir hverja ertu eiginlega að þessu?

SB: Margir bloggararr virðast líta svo á að þeir þurfi að láta í ljós álit sitt á því sem hæst ber í fréttum hverju sinni. Að minnsta kosti á því sem þeim sjálfum þykir merkilegt. Þessu er ekki svo farið með mig. Mér finnst að ég þurfi bara að blogga um það sem mér finnst skemmtilegast að blogga um. Hvort einhverjum öðrum finnist að ég ætti að láta í ljós skoðun mína á einhverju tilteknu máli truflar mig ekki. Ég tala bara um það sem mér dettur í hug. Og svo blogga ég náttúrlega líka fyrir stórfjöskylduna og segi frá því helsta sem á daga okkar hjóna og krakkanna drífur.

BMB: Sem er?

SB: Fyrir utan yfirvofandi flutninga og húsakaup er það helst að segja að fjölskyldan virðist vera orðin Flickr-óð. Allir eru komnir með Flickr síður. Meira að segja ég sjálfur. Aðgengismál á Flickr.com eru reyndar svo flókin að ég reyni varla að skilja þau. Sjálfur fer ég yfirleitt á Flickrið í gegnum 123.is síðu konunnar minnar (123.is/asben). Síðan held ég að það fari eftir ýmsu hvaða myndir hver og einn getur séð. Já og svo vil ég bara minna á ljósmyndasýningu Bjössa bróður á Bókasafninu í Hveragerði sem ég held að standi enn.

BMB: Hvað er um bloggvinina að segja? Þetta fyrirkomulag vekur talsverða athygli margra.

SB: Já, þetta með bloggvinina er merkilegt. Hægt væri að skrifa mörg blogg um það. Sjálfur fann ég fljótt út á moggablogginu hvernig á að biðja fólk um að gerast bloggvinir sínir. Sumir eru með fjöldamarga slíka og virðast safna þeim af ákafa. Sjálfur er ég að mestu hættur að bjóða öðrum bloggvináttu. Samt fjölgar þeim. Ég hef oft bloggað um bloggvini. Í rauninni eru þetta bara "favorities" en þó óháð tölvum og hægt að fá fyrirsögn og smáágrip af bloggbyrjuninni án þess að eyða miklum tíma. Það getur semsagt skipt töluverðu máli hvernig fyrirsagnir og fyrstu línur eru í bloggum.

BMB: Það er dálítið átak að blogga svona á hverjum degi er það ekki?

SB: Ekki finnst mér það. Ég er orðinn svo vanur þessu að ég get hæglega fimbulfambað eitthvað án þess að segja nokkuð. Nei, það er alltaf eitthvað til að skrifa um og engin hætta á að verða þurrausinn. Sumir bloggarar virðast hafa einsett sér að vera alltaf með eitthvað fræðandi og myndskreytt efni og vel getur verið að þeim finnist stundum frá litlu að segja.

BMB: Hvernig finnst þér Moggabloggsguðirnir standa sig?

SB: Bara þrælvel. Nýja fúnksjónin með að taka öryggisafrit af blogginu sínu virkar fínt hjá mér. En mikið skelfing er þetta lítið að vöxtum sem maður er búinn að vera að rembast við að skrifa í allan þennan tíma. Reyndar er þetta víst þjappað svo ekki er að furða þó skráin sé litil. Ég er ánægðastur með að athugasemdirnar skuli vera með. Mjög fljótlegt er að hala þetta niður og skoða þegar best hentar en hver er ekki nettengdur allan daginn nú orðið?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Yngvi Högnason

Að kíkja á bloggið þitt er eins og að hlusta á útvarpsstöðina Rondó, ekkert bull og hér er ekki verið að reyna að leysa lands- eða borgarmál í nokkrum setningum eins og að margir halda að þeir geti á bloggi sínu.

Yngvi Högnason, 18.8.2008 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband