421. Ímyndað viðtal við ímyndaðan ofurbloggara

Blaðamaður Moggabloggstíðinda tók nýlega viðtal við bloggarann Sæmund Bjarnason og fer það hér á eftir:

BMB: Nú ert þú búinn að blogga manna lengst hér á moggablogginu. Hvenær byrjaðirðu á þessu og hvernig stóð á því?

SB: Það er tæpast rétt hjá þér að ég hafi bloggað manna lengst hér. Mig minnir að ég hafi byrjað í árslok 2006. Ástæðan var aðallega sú að ég hafði gengið lengi með þetta í maganum og ákvað að prófa þegar ég sá hve einfalt og auðvelt þetta er. Nú er þetta orðið að einskonar ávana.

BMB: Urlið hjá þér er: saemi7.blog.is. Hvaða sjö eru þetta?

SB: Sjö er bara mín uppáhaldstala. Mig minnir líka að tölustafslaus saemi hafi verið frátekinn þegar ég byrjaði.

BMB: Hvaða fólk er þetta á hausmyndinni hjá þér?

SB: Já það. Þetta er gömul mynd tekin í Hveragerði. Gunnar Helgi gerði þessa mynd fyrir mig og þarna er til dæmis pabbi hans. Einnig Bergþóra Árnadóttir og fleiri. Viltu vita nöfnin á öllum?

BMB: Já, því ekki það.

SB: Talið frá vinstri: Björgvin Bjarnason, Margrét Árnadóttir, Eysteinn Gunnarsson, Bergþóra Árnadóttir, Vignir Bjarnason og Jón Sverrir Árnason. Annars getur vel verið að ég setji nýja hausmynd einhvern tíma. Myndin af mér sjálfum er heldur ekki góð. En ég myndast nú alltaf svo illa.

BMB: Takk fyrir þetta. Ég hef tekið eftir því að þú bloggar langmest um blogg. Er hægt að blogga endalaust um blogg?

SB: Já, líklega er það hægt. Þetta er hvorki meira né minna en nýr samskiptamáti og engin hætta á að hann hverfi fljótlega.

BMB: En lestu mikið af bloggum annarra?

SB: Talsvert. Ég er aftur á móti næstum hættur að lesa dagblöð. Les bækur, horfi svolítið á sjónvarp og vafra um á Netinu. Fjölmiðla- og Netneysla fólks hér á landi er með ólíkindum mikil. Þetta með Netið er svolítið eins og að ganga í björg. Hjá flestum hljóta samskiptin í kjötheimum að minnka eftir því sem Netsamskiptin aukast. Það er ekki bara moggabloggið eða blogg yfirleitt sem vex sífellt. Önnur samskipti á Netinu fara líka sívaxandi. Leikjafíkn þar getur orðið verulegt vandamál. Einhverja frétt sá ég um daginn þar sem sagt var frá því að fólk skíti jafnvel í pizzukassa til að þurfa ekki að yfirgefa tölvuna augnablik. Vonandi verða bloggarar aldrei svona.

BMB: En er ekki hægt að ganga of langt í þessu eins og flestu öðru?

SB: Jú, eflaust. Þegar fólk situr kannski við tölvu í vinnunni og fer svo beint í heimatölvuna og eyðir þar mestöllum vökutímanum sem eftir er, þá er hætta á ferðum.

BMB: Hvað ertu lengi að skrifa hvert blogg?

SB: Það er ákaflega misjafnt. Stundum er ég skotfljótur en stundum óralengi. Ég er þó svo heppinn að ég get oft eytt tímanum í vinnunni í þessi ósköp. Ég er nefnilega næturvörður. Ég ímynda mér oft að ég geti minnkað þann tíma sem ég eyði í annað net-tengt ef ég er lengi að blogga en auðvitað er það misskilningur. Ég þarf að lesa önnur blogg og ýmsar síður, leika í bréfskákum, lesa netmiðla, kommenta hjá öðrum og svo framvegis og framvegis og tíminn flýgur. Annars er þetta komið hátt á aðra síðu hjá okkur og bloggin mín mega helst ekki vera lengri en þetta. Sjáumst seinna.

Þar með var ofurbloggarinn rokinn til að setja þetta viðtal á bloggið sitt.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Yngvi Högnason

Ég tók eftir að hvergi var setningin :segir ofurbloggarinn og hlær. Var þetta svona alvarlegt viðtal?

Yngvi Högnason, 17.8.2008 kl. 08:46

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kosturinn við ímynduð viðtöl er að þau geta verið alvarleg eða hlægileg allt eftir því sem lesandinn ákveður. Ef þetta viðtal er alvarlegt þá er það vegna þess að blaðamaðurinn var alvarlegur. Ég held að hann hafi skrifað þetta eftirá.

Annars er það alveg rétt hjá þér, það gæti verið miklu léttara yfir þessu.

Sæmundur Bjarnason, 17.8.2008 kl. 15:42

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Snilldarviðtal.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 17.8.2008 kl. 16:56

4 Smámynd: Yngvi Högnason

Takk fyrir bloggið Sæmundur.
Þetta var nú eiginlega skot á misvitra blaðamenn frekar en að mér væri skilnings vant á eðli færslunnar. Svona hláturssetning er í ansi mörgum viðtölum en samt held ég að sá blaðamaður sem sagði frá því í viðtali við blindan mann fyrir skömmu, að "hann horfði ástúðlega á konu sína", fái kjánaverðlaunin.

Yngvi Högnason, 17.8.2008 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband