420. - Orðljótir bloggarar

Margir bloggarar eru bæði orðhvatir og orðljótir. Ég reyni að vera það ekki. Þó á ég það til að kveða fast að orði og sé jafnvel eftir því stundum. Stjórnmál kalla oft á ljót orð. Stjórnmálamenn eru breyskir og oft er auðvelt að vera vitur eftirá. 

Mér finnst sjálfsagt að reyna að segja á mínu bloggi annað en nokkurnvegin það sama og flestir aðrir. Það er bara svo fjandi erfitt. Hugsa ekki flestir næstum því eins? Það hefur mér fundist. Og skrifa þá ekki flestir eins líka? Jú, auðvitað. En

Enginn gerir svo öllum líki
og ekki Guð í himnaríki

Margt er það á moggablogginu sem ekki tekur því að fylgjast með. Gagnrýni frá einhverjum sem ekki treysta sér til að gefa upp sitt rétta nafn er að litlu hafandi og sjaldnast svaraverð. Ef ástæðan fyrir nafnleyndinni er augljós er allt í lagi með hana. En oft er nafnleyndin bara skálkaskjól fyrir menn sem eru að reyna að sýnast merkilegir og æsa aðra upp.

Töluð orð og tapaður meydómur verða ekki aftur tekin var einhvern tíma sagt. Verðfelling á skoðunum með alltof sterkum orðum er því miður of algeng.

Svo ég láti aðeins ljós mitt skína varðandi borgarmálefnin þá er það ljóst í mínum huga að Sjálfstæðismenn ætluðu sér aldrei að halda samkomulagið við Ólaf F. Magnússon til loka kjörtímabilsins. Þetta vissu líklega allir nema Ólafur og því er óþarft að láta eins og það komi á óvart. Ég er líka þeirrar skoðunar að það fólk sem er í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins eigi enga framtíð fyrir sér í stjórnmálum. Hugsanlega þó Hanna Birna og Gisli Marteinn en örugglega ekki aðrir.

Í útvarpsfréttum RUV í tengslum við væntanlegt óperuhús í Kópavogi var talað um ljós sem sést vel í myrkri. Ég veit ekki hvaða ljós það eru sem sjást illa í myrkri. Kannski eru þau þó til.

Í útvarpsfréttum kom einnig fram að rafhlöður muni taka við af olíunni. Þetta finnst mér ekki merkilegar fréttir. Samt eru sumir enn með vetnisglýju í augunum. Þar til nú hefur mest áhersla á allri orkuþróun verið á olíunni. Vatnsafl og jarðhiti getur komið að gagni en meginmálið er þó geymsla orkunnar og meðfærileiki. Þegar bensín margfaldast í verði verða aðrir orkugjafar samkeppnisfærir.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það er skuggalegt hvað við getum verið sammála Sæmundur.

Hrannar Baldursson, 16.8.2008 kl. 10:18

2 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Það er mikið til í því sem þú skrifar. Mér finnst stundum eins og aðilar hafi fengið einkaleyfi til að hakka í sig mann og annan og alls ekki alltaf undir nafnleynd.

Sumir verða að vera undir nafnleynd, ég skil þá afstöðu. Sjálf lenti ég í því að blogga um útlendinga og missa vinnuna. Sumir eru sannleikanum sárreiðastir. Þannig er það.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 16.8.2008 kl. 19:46

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þú misskilur mig. Ég er ekkert að tala um að nafnlaus gagnrýni geti ekki verið réttmæt ef málefnalegar ástæður eru fyrir nafnleysinu. Ég álít bara að svo sé yfirleitt ekki. Það er auðvitað heldur ekki nein trygging fyrir réttmæti þó gagnrýni sé sett fram undir fullu nafni. Ég held bara að það sé algengara.

Nafnleysi eða nafnleysi ekki er bara einn hlutur af mörgum sem getur skipti máli þegar ákvörðun er tekin um réttmæti ákveðinnar gagnrýni og hvort hún sé svaraverð eða ekki. Hver og einn verður að taka slíka ákvörðun fyrir sig.

Margir góðir bloggarar skrifa undir dulnefni. Það veit ég vel. Dulnefnin auka samt ekki gæði bloggs þeirra neitt. Og þeir eru ekkert endilega í því að gagnrýna allt og alla.

Sæmundur Bjarnason, 17.8.2008 kl. 05:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband