418. - Enginn veit allt og fáir vita flest. Sumir þó sitt lítið af hverju

Enginn veit allt og fáir vita flest. Margir þykjast þó vita ansi mikið. Sjálfur var ég einu sinni í þeim hópi en er ekki lengur. Aldurinn fleytti mér yfir þá hindrun.

Hvergi er þetta meira áberandi en í tæknimálum. Þar er alltaf eitthvað eftir sem maður skilur alls ekki nógu vel. Snemma lærði ég inná að oft er betra að þykjast vita minna en maður þó veit. Margir eru samt því marki brenndir að þykjast vita meira en þeir gera og þó það geti fleytt mönnum áfram á sumum sviðum getur það líka verið til mikilla trafala.

Þetta var mjög áberandi hér áður fyrr við bílaskoðun. Skoðunarmennirnir voru greinilega oft orðnir hundleiðir á að þræta við alls kyns besservissera í bílamálum og ef maður vildi fá fljóta og góða þjónustu var um að gera að hafa sem minnst vit á bílum.

Þessu ráði má stundum beita í tölvumálum. Það sem oft er kallað tölvuþekking er gjarnan ekki annað en það að hafa vanist ákveðnum forritum. Það langmikilvægasta í þessu öllu er að spyrja réttu spurninganna. Sannleikurinn er nefnilega sá að spurningin þarf að henta þeim sem spurður er.

Svörin geta auðvitað oft hjálpað en stundum eru þau samt einskis virði hvort sem þau eru rétt eða röng. Röng svör geta veitt mikla hjálp þó ekki sé nema til þess að spyrja réttu spurninganna.

Nú er talað um hve hættulegur vegarkaflinn milli Hveragerðis og Selfoss sé. Einu sinni gekk ég hann allan með Ingibjörgu systur minni. Þá var hann ekki hættulegur og umferð á honum lítil. Hættulegasti kaflinn var líklega skammt frá Kotströnd. Þar voru tvær einbreiðar trébrýr. Malbikaðir eða olíubornir vegir þekktust ekki á þessum tíma.

Þegar þetta var höfðum við verið í sveit í Eystri Garðsauka hjá Hvolsvelli og umtalað var en þó ekki frágengið að við færum heimleiðis á ákveðnum tíma. Við fórum með mjólkurbílnum að Selfossi en höfðum ekki meiri peninga en fyrir farinu þangað svo ekki var um annað að ræða en labba út í Hveragerði. Ég hef líklega verið 10 ára og Ingibjörg 12 þegar þetta var.

Nú er Stebbi yfir-blogg-fréttaskýrandi að hætta segir hann. Fréttaskýringarblogg með mörgum linkum á dag eru stundum hálfleiðinleg en geta verið ágæt til síns brúks. Maður var farinn að venjast Stebba dálítið og saknar hans kannski. Það kemur í ljós. Einhver hlýtur að taka við.

Hafdís og Jói buðu í íbúð á Akranesi. Því var tekið og flytjast þau líklega þangað í nóvember. Bjarni og Carmaine munu flytjast í húsið sitt í byrjun september.

Í lokin eru svo þrjár myndir sem ég tók nýlega. Eitthvað er búið að eiga við þær (sumar eða allar) þó ég viti ekki nákvæmlega hvað. Konan mín er miklu flinkari en ég í slíku.

Img 2133Ekki man ég hvar ég hitti þessa ófreskju. Líklega er þetta þó frekar Reykvíkingur en Grímsnesingur.

IMG 2214Þessi mynd gæti heitið Strætóskýli á villigötum. Ég er samt ekkert viss um að það sé á villigötum. Kannski bara ljósmyndarinn.

steinarÉg heiti Sæmundur Steinar og vissulega eru þetta steinar.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjá köngurlóarkvik-yndið þarna..

alva 14.8.2008 kl. 00:29

2 Smámynd: Beturvitringur

Ég kunni vel við spurningaspurningarnar sem þú veltir upp, - eins og steini.

Beturvitringur, 14.8.2008 kl. 00:41

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Tvær spurningar:
1. Þú birtir mynd um daginn af þessu fína húsi hans Bjarna. Hvar er það?
2. Hvar er þetta vegvillta strætóskýli?

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.8.2008 kl. 01:05

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Húsið hans Bjarna er í "skattaskjóli" sem einu sinni var svo kallað en heitir víst melahverfi eða eitthvað svoleiðis og er rétt hjá Akranesi, Grundartanga og Stóra-Lambhaga.

Strætóskýlið er í Kópavogi milli Toyota umboðsins og Hafnarfjarðarvegarins. Þarna eru mót Dalbrekku og einhverrar annarrar brekku og vegurinn sem er á milli skýlisins og ljósmyndarans er til þess að komast niður á Nýbýlaveginn minnir mig. Svo er líka vegur hinum megin við strætóskýlið og eflaust eiga strætisvagnar eftir að fara þar um. Þetta er allt saman alveg nýtt og flott.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2008 kl. 02:55

5 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ógeðsleg könguló maður !

Anna Einarsdóttir, 14.8.2008 kl. 07:50

6 Smámynd: Yngvi Högnason

Það er fallegt í Kópavogi.

Yngvi Högnason, 14.8.2008 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband