2.8.2008 | 00:09
407. - Sólin ekki sinna verka sakna lætur
Að undanförnu hafa sólarlög og sólaruppkomur verið með þeim hætti að manni fallast algjörlega hendur. Vinna mín er þannig að ég á nokkuð auðvelt með að fylgjast með þessum fyrirbrigðum. Myndavélin mín fær að kenna á því. Ég hef tekið svo mikið af myndum af þessu að ég hef enga hugmynd um hvað ég á að gera við þær. Einhverjar hef ég birt hér á blogginu mínu en það eru bara sýnishorn. Eflaust finnst sumum þær vera allar eins. Þessvegna birti ég nokkrar núna en hætti því svo líklega. Svo eru menn að tala um veður og veðurmet. Ég veit ekki betur en sólin stjórni þessu öllu eins og henni sýnist. Ég missti reyndar af sólmyrkvanum um daginn en það verður að hafa það. Minningar mínar tengjast mjög gjarnan sólmyrkvum hvernig sem á því stendur. Sennilega hef ég verið sóldýrkandi í fyrra lífi. Tunglmyrkvar eru miklu ómerkari. Eiginlega bara fyrirbrigði á himni og ekkert framyfir það. Sólmyrkvar eru hins vegar náttúrufyrirbrigði. Þetta með Guðna Ágústsson og Sverri Stormsker er að verða meiri háttar mál. Nú langar mann svo til að hlusta á þennan útvarpsþátt að maður reynir að gúgla hann og hvaðeina. Hvað er málið eiginlega? Á ekki að endurflytja þáttinn eins og aðra slíka? Ætlar Sverrir ekki að setja hann á síðuna sína? Ég bíð. Fór með gömul dagblöð og auglýsingapésa í grenndargám áðan og kveikti á útvarpinu í bílnum á meðan. Þar var verið að óskapast útaf lokun vörubílstjóra á veginum í Elliðaárbrekku. Snerti mig lítið og svo komst ég að því að þetta var eitthvert plat í auglýsingaskyni. Verst ef einhverjir hafa hætt við að fara úr bænum útaf þessu. Kannski brottför hafi bara frestast og menn séu jafnvel enn ánægðari með lífið eftir en áður. Vonum það. Núna er ég að lesa bók eftir Kristin Snæland: Diddasögur - Reykjavíkurstrákur segir frá. Vestfirska forlagið gaf út árið 2007. Merkileg bók og enn merkilegra að ég skuli ekki hafa heyrt á hana minnst fyrr. Höfundur er fæddur nokkru fyrir 1940 og lýsir mannlífi og atburðum á styrjaldarárunum og fyrstu árunum þar á eftir af stakri snilld. Eflaust hefur þessi bók ekki verið auglýst eins vel og vert hefði verið. Sumurin 1950 og 1951 vann Kristinn við síldarverksmiðjuna á Djúpuvík. Síðan segir hann: "Verksmiðjan var starfrækt lítilsháttar næsta sumar en síðan ekki meir. Næst komst hún rækilega í fréttir þegar kvikmyndin Blóðrautt sólarlag var tekin þar nokkrum árum síðar." Þetta er ekki alveg rétt hjá Kristni. Það var löngu seinna sem myndin Bóðrautt sólarlag var tekin. Ef ég man rétt var heldur ekki um kvikmynd að ræða heldur sjónvarpsþátt. Það var Hrafn Gunnlaugsson sem stjórnaði myndinni og Helgi Skúlason sem lék aðalhlutverkið. Myndin fjallaði um hóp manna sem fór til Djúpuvíkur til að komast á fyllerí. Ældu þar og ólmuðust og myndin hneykslaði á sínum tíma marga en mundi ekki þykja mjög merkileg að því leyti núna. Sjálfur á ég þá minningu helsta um Djúpuvík að skólasystkini min Ágúst Guðmundsson og Kamilla systir hans eða frænka voru sögð vera þaðan. Kannski finnst mér bók Kristins Snælands svona góð af því að hún er eins og blogg. Höfundurinn er kannski að vanda sig en ekki með neinar skáldagrillur. Maður trúir flestu af því sem hann segir frá einmitt þess vegna.
|
Athugasemdir
Þetta eru alveg logandi flottar myndir!
ÁslaugBen. 2.8.2008 kl. 00:16
Það er einmitt veðurlagið, veðurmetin, sem skapa þetta fallega sólarlag og sólaruppkomu!
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.8.2008 kl. 01:37
Þetta eru fallegar myndir Íslenskur himinn getur stundum verið ævintýri líkastur.
Sporðdrekinn, 2.8.2008 kl. 02:23
Ólafur Ragnarsson, 2.8.2008 kl. 11:32
kvaddur er rétta orðið
Ólafur Ragnarsson, 2.8.2008 kl. 11:34
Glæsilegar myndir! Ég get endalaust horft á himinninn undir þessum kringumstæðum. Litadýrðin og form skýjanna er dáleiðandi.
Lára Hanna Einarsdóttir, 2.8.2008 kl. 11:38
Þér hefur tekist að fanga yndisleg móment á himnum, takk fyrir þetta, virkilega yndislegar myndir Hver á sér fegra föðurland???
Ásdís Sigurðardóttir, 2.8.2008 kl. 15:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.