27.7.2008 | 01:52
401. - Ferðin mikla í Tintron
Einhvern tíma fyrir þónokkrum árum þegar Bjössi bróðir var í svæðisstjórninni (Svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurlandi eða eitthvað þessháttar) bauð hann okkur Bjarna Harðarsyni (núverandi þingmanni) í ferð í hellinn Tintron.
Hellaferðir eru næstum því eins skemmtilegar og fjallgöngur og í eina tíð hafði ég heilmikinn áhuga á þeim. Tintron er eins og flestir vita hellir skammt frá Laugarvatni sem myndast hefur á svipaðan hátt og stóri hellirinn við Þríhjúka skammt frá Bláfjöllum. Semsagt eiginlega ekki annað en gjóta ein mikil ofan í jörðina sem víkkar eftir því sem neðar dregur. Tintron er bara miklu minni en hellirinn hjá Bláfjöllum. Innan við 10 metrar eru niður á botn í honum. Hæstur er botninn þó í miðjunni.
Farið var á svæðisstjórnarbílnum og nokkrir björgunarsveitarmenn úr Hveragerði voru með í ferðinni. Skammt frá Selfossi tók farsíminn hjá Bjössa að pípa. Á þessum árum voru farsímar sjaldgæfir. Tilkynnt var að veiðimaður hefði fallið í Sogið og væri hans saknað. Hætt væri við að hann hefði drukknað í ánni. Bjössi var beðinn að útvega menn til leitar. Einhverjir frá Björgunarsveitinni á Selfossi væru að leggja af stað í gúmmíbát.
Auðvitað var snarlega ákveðið að breyta þessari skemmtiferð í leitarferð og ekki var hægt að láta okkur Bjarna út á guð og gaddinn og fengum við því að fljóta með.
Þegar komið var yfrir brúna hjá Þrastarlundi sáum við litla flugvél á sveimi yfir Soginu. Skömmu eftir að við beygðum inn á Þingvallaveginn sáum við lögreglubíl niður við ána. Eftir svolítið maus komumst við þangað líka og þá bentu lögreglumennirnir okkur á þúst eina sem væri á leirum nokkuð langt undan landi. Hugsanlega væri það veiðimaðurinn.
Nokkrir hraustir björgunarsveitarmenn fóru strax út í ána og höfðu lítið fyrir því að athuga þessa þúst. Þetta reyndist vera lík veiðimannsins og var hann settur í líkpoka og afhentur lögreglunni. Við ákváðum hinsvegar að halda skemmtiferðinni í Tintron áfram eins og ekkert hefði í skorist. Þegar verið var að draga líkið til lands sást til ferða gúmbátsins frá Selfossi og gladdi það Hvergerðingana að hafa orðið á undan þeim.
Frá Þingvallavatni fórum við svokallaðan Lyngdalsheiðarveg í áttina að Laugarvatni og skömmu áður en við komum að Tintron fórum við í nokkuð langan helli sem ég man ekki lengur hvað heitir. Hann var svo haganlega gerður að hægt var að fara niður í hann öðru megin við þjóðveginn og koma uppúr honum hinum megin við hann. Hellirinn var semsagt opinn í báða enda.
Þegar að Tintron koma fórum við allir þar niður en ekki var ýkja mikið þar að sjá. Þó niðurferðin hafi verið auðveld var ekki hægt að segja það sama um ferðina upp úr hellinum.
Við sigum niður í hellinn á kaðli og notuðum sérstakt belti og útbúnað sem kallaður er jummarar til að komast upp aftur. Fóturinn er þá settur í kaðallykkju og með jummurunum sem haldið er á í höndunum er hægt að vega sig smátt og smátt upp kaðalinn því þeir eru þannig útbúnir að þeir renna ekki niður aftur.
Þeir yngstu og hraustustu áttu í litlum vandræðum með að komast upp og allir komumst við upp að lokum en ég man að ég átti í talsverðum vandræðum þegar ég fór að nálgast hellisopið og það var ekki fyrr en sterkur og stæltur björgunarsveitarmaður gat náð í hendurnar á mér sem ég var hólpinn. Auðvitað hefði verið hægt að draga mig uppúr hellinum eins og hvern annan kartölflupoka en til þess kom sem betur fór ekki.
Að lokum eru svo nokkrar myndir sem ég tók í dag.
Athugasemdir
Hvaðan kemur nafnið Tintron?
Hólmdís Hjartardóttir, 27.7.2008 kl. 01:58
Það er rétt að nafnið er ekki mjög íslenskulegt. Mér finnst vera einhver írskur keimur af því. Annars er fjallað um þetta nafna á vísindavefnum á slóðinni: http://www.visindavefur.hi.is/svar.php?id=6179 og ég hef engu við það að bæta.
Sæmundur Bjarnason, 27.7.2008 kl. 02:20
Takk fyrir þetta. Las þetta en finnst nafnið óútskýrt. Tröllanafn? Dverganafn? Gaman að svona gátum.
Hólmdís Hjartardóttir, 27.7.2008 kl. 02:27
Sæll Sæmundur.kvitta hér fyrir mörg"innlit".Þakka fróðlega pisla og"flottar"myndir
Ólafur Ragnarsson, 27.7.2008 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.