398. - Orðskýringar: Blogg, bloggari. Forsíðubloggari

Í athugasemdum hefur verið beðið um orðskýringar. Sjálfsagt er að reyna að verða við því. Auðvitað er það bara minn skilningur sem þar kemur fram og kannski er hann rangur.

Í fyrsta lagi er spurt um orðið blogg og ýmsar samsetningar af því leiddar. Mér er sagt að orðið sé dregið af enska orðinu Weblog og dreg það ekkert í efa. Rithátturinn ætti að vera blog en með því yrði samkvæmt íslenskum framburðarvenjum o hljóðið að vera langt. Svo er ekki í enskunni og orðið blogg er líkara framburði á því máli.

Merking orðsins er flestum nokkuð ljós og mér finnst orðið tvímælalaust hafa unnið sér þegnrétt í málinu. Það er fremur deilt um uppruna og rithátt þess en merkinguna sem slíka. Mér finnst að ekki þurfi að amast við tökuorðum í íslensku ef þau falla vel að beygingarkerfinu og eru auðveld í allskyns samsetningum. Hvorttvegga finnst mér eiga við um orðið blogg. Mér finnst líka að skrifa eigi orðið með tveimur g-um.

Hitt orðið er orðið forsíðubloggari. Líklega nota ég það meira en margir aðrir. Oft skýringarlaust. Sennilega er þörf á skýringum. Einkum er merkingin nokkuð sértæk og illskiljanleg.

Mér finnst einfaldast að láta orðið einkum eiga við moggabloggara þó það gæti auðvitað að breyttu breytanda átt við aðra. Eins og flestir vita er stéttaskipting meðal moggabloggara. (Slagorð Sjálfstæðismanna um „Stétt með stétt" viðurkennir auðvitað stéttaskiptingu meðan aðrir flokkar reyna að forðast að viðurkenna slíkt)

Þegar farið er á moggabloggið á Vefnum en ekki beint á síðu einhvers tiltekins bloggara birtast efst átta blogg og fyrstu orðin í þeim bloggum ásamt nokkuð stórum myndum af þessum bloggurum. Þar fyrir neðan koma síðan nýjustu bloggin og litlar myndir. Sérstakt forrit velur þessi átta blogg úr hópi sem vel mætti kalla aðal-bloggara moggabloggsins. Ég kalla þá forsíðubloggara.

Þarna er það sem stéttaskiptingin birtist. Þeir einir komast í hóp forsíðubloggaranna sem njóta til þess velvildar stjórnenda bloggsins. Þeir sem skrá sig á moggabloggið og njóta ekki velvildar guðanna eru bara réttur og sléttur pöpull. Njóta engra forréttinda en geta samt bloggað eins og þeir vilja.

Hvernig valið er í þennan hóp forsíðubloggara hefur oft verið deilt um. Ég er alls ekki að saka þá moggabloggsmenn um rangar eða óheiðarlegar aðferðir við það. Enda gæti þá verið að ég hrykki úr þessum hópi. Samt held ég að sjaldgæft sé að menn sem einu sinni komast í hópinn séu settir útaf sakramentinu fyrir það eitt að gagnrýna fyrirkomulagið.

Þetta er orðið langt mál um lítið efni. Vonandi hefur mér þó tekist að skýra eitthvað með þessum vaðli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ef horft er á stjórnmálaskoðanir þessa hóps gæti ég trúað að hann þætti dálítið vinstrisinnaður. Morgunblaðið er nú líka að verða það.

Svo er annað. Morgunblaðsmenn hafa mér vitanlega aldrei sagt frá því í smáatriðum hvað það er sem hefur áhrif á hve oft hver og einn forsíðubloggari kemur á forsíðuna. Alls kyns skilgreiningar á því er hægt að setja í þetta litla forrit sem stjórnar birtingunni.

Sæmundur Bjarnason, 24.7.2008 kl. 09:05

2 identicon

Ég hef getið mér til um eitt skilyrði þess að vera forsíðubloggari. Þú mátt ekki hafa bloggið þitt læst. Fyrrverandi þulan sem bloggaði í anda sex in the city datt út af forsíðubloggslistanum þegar hún læsti blogginu sínu.

Jú, svo verðuru að blogga sæmilega reglulega, held ég. Það væri nú gaman að sjá hvað myndi t.d. gerast ef Sigmar setti inn eitt blogg, myndi það detta beint á forsíðuna? 

Hafdís Rósa 24.7.2008 kl. 12:01

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þakka þér fyrir að verða við þessari bón minni. Nú þegar ég veit hvað það er að vera forsíðubloggari verður kannski gaman að rýna í hvað veldur því þegar skrif manns eru valin þangað.

Ég þóttist reyndar vita hvernig orðið blog væri til komið, en það sem ég hiksta svolítið á er hvers vegna skrefið er ekki stigið til fulls og orðið skrifað með tveimur géum.

Kv.

Sigurður Hreiðar, 24.7.2008 kl. 12:49

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það er skrifað með tveimur géum á "íslensku", Sigurður.

blogg -s HK
tölvur, óformlegt
1
bloggsíða, vefdagbók
2
færsla í vefdagbók

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.7.2008 kl. 12:59

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst langeðlilegast að skrifa það með tveimur g-um og geri það yfirleitt. Urlið hjá Mogganum er að vísu blog.is en það held ég að stafi einfaldlega af því að lénið blogg.is hafi verið upptekið þegar þeir byrjuðu.

Sæmundur Bjarnason, 24.7.2008 kl. 13:01

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Lára Hanna -- mér sýnist Sæmundur einmitt hafa svarað fyrir mína hönd!

Sigurður Hreiðar, 24.7.2008 kl. 18:39

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Smáinnlegg hér: 

Uppruni orðsins blog: Blogg er dregið af enska orðinu log sem þýðir dagbók. Ég man ekki í bili hvernig b-ið var hugsað fyrir framan loggið .... Set það inn þegar ég næ að rifja það upp! 

Stéttskipitng: Ég upplifi stéttskipinguna á Moggablogginu ekki í neinu samræmi við innlitafjölda á síðurnar; staðreyndin er sú að það eru alls ekki bezt skrifuðu bloggin og áhugaverðustu síðurnar sem eru mest sóttar. Þar eru þó undantekningar eins og Gurrí t.d. - En þetta er nú bara skoðun mín.

Takk fyrir góð skrif, Sæmundur. Ég kíki oft á síðuna þína.
 

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.7.2008 kl. 22:44

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

rétt sem komið hefur fram, að blog er stytting enska orðsins weblog. orðið fellur allsendis vel að íslenskunni, enda orðið almennt viðurkennt sem tökuorð. allavega hjá okkur sauðsvarta almúganum. vitanlega skrifað með tveimur g-um, annars væri það borið fram, eins og þú nefnir, með löngu o-hljóði og jafnframt með veiku g-hljóði líkt og sog, trog og flog.

merkileg elíta þessir vínarbrauðsbloggarar (A.K.A. forsíðubloggarar) og hvernig í hana er valið. ég get ekki séð að þar sé nein sérstök vinstri sveifla í gangi.

mér skilst að eitt skilyrðið sé að blogga reglulega. þá virðist engu máli skipta hvort þú tönnlist á sama hlutnum endalaust, svo sem um gyðinga eða Guð almáttugan.

annað sem er líka augljóst. þekktar persónur virðast komast sjálfkrafa þangað inn. ég tók einmitt eftir, snemma í vor, nýju, þekktu, andliti þar og við nánari athugun var sú persóna tiltölulega nýskráð. hafði ritað fjórar eða fimm færslur.

svo er örugglega rétt hjá þér. þú skalt ekki styggja yfirvaldið ætlirðu þér að vera áfram í dekurhópnum. eitt styggðarorð og þú ert eflaust kominn út í kuldann. svona einskonar Stalínismi.

Brjánn Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 23:27

9 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ætlaði vitanlega að benda á að þessi nýja þekkta persóna hafði auðvitað verið of stutt á blogginu til að geta talist blogga reglulega.

Brjánn Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband