387. - Meira um íþróttir

Áfram með íþróttirnar. Golf er ekki annað en göngutúrar sem reynt er að setja svolítið fútt í. Viðurkenni samt að myndataka í sjónvarpi af golfi er stundum flott. Hvernig fólk getur valið það sjálfviljugt að fara frekar sem áhorfandi á golfmót en að sjá það í sjónvarpi er gersamlega ofvaxið mínum skilningi.

Sund er eina íþróttin sem ég hef stundað að einhverju gagni. Þegar ég var unglingur fór ég oft svona þrisvar á dag í sund. Af því að ég hafði tekið afreksstig í skólanum og þóttist vera að æfa vegna yfirvofandi sundmóts Skarphéðins fékk ég ókeypis í laugina. Sundmót Skarphéðins voru haldin árlega. Mig minnir að þau hafi verið til skiptis í Hveragerði og á Flúðum. Aðallega þó í Hveragerði því laugin þar var alveg einstök. Eina 50 metra sundlaugin á landinu.

Ég náði aldrei lengra en að verða í öðru sæti á sundmóti Skarphéðins. Ég man að það var í 1000 metra sundi frjálsri aðferð. Langfyrstur var Palli Sigurþórs. Hann var líka með bestu mönnum landsins í greininni og synti bringusund. Ég og Örn Jóhannesson vorum jafnir í öðru til þriðja sæti mestalla leiðina. Þegar 25 metrar voru eftir skellti ég mér á skriðsund og Örn átti ekkert svar við því. Fjórði og langsíðastur var Erlendur yngri bróðir Palla Sigurþórs.

Einu sinni man ég að ég synti 10 kílómetra í einum rykk. Það tók mig reyndar nokkuð langan tíma. Þetta var í sundtíma og hann var alls ekki nógu langur fyrir þetta langsund. Eftir að tíminn var búinn skrapp Hjörtur niður í Hveragerði og þegar hann kom aftur var ég enn að synda. Reyndar synti einhver þetta sund með mér en ég man ómögulega hver það var. Það var ekki meira erfiði að synda en að ganga svo þetta var bara spurning um þolinmæði.

Þegar Bifröstungar töpuðu með eftirminnilegum hætti fyrir Reykjaskóla í Hrútafriði í samanlögðum ýmsum íþróttagreinum var ég í boðsundsliði Bifrastar og komst aldrei lengra í íþróttum þar. Ég synti síðasta sprettinn af fjórum og auðvitað töpuðum við.

Sundmót Skarphéðins í Laugarskarði og frjálsíþróttamótin á Þjórsártúni voru fastir liðir og óhemju skemmtileg. Ég man vel hve mikð ævintýri það var að koma á Þjórsártúnsmótið. Aldri náði ég svo langt að keppa þar og Hvergerðingar voru ekki nærri eins góðir í íþróttunum þar eins og í sundinu. Undantekningin sem sannaði regluna var Óli Unnsteins. Bjarni í kaupfélaginu var líka með þeim allra bestu í glímunni, en hann var eiginlega ekki ekta Hvergerðingur.

Félagið sem við kepptum fyrir var Ungmennafélag Ölfusinga og ég man ekki eftir að neinn hrepparígur hafði verið til staðar. Ekkert Ungmennfélag var heldur í Hveragerði. Taflfélagið sem stofnað var um þetta leyti hét samt Taflfélag Hveragerðis þó Ölfusingar væru að sjálfsögðu velkomnir í það.

Í lokin eru svo nokkrar myndir sem ég tók í dag.

IMG 1805IMG 1822IMG 1842IMG 1869


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg mynd af vaskinum :) Þetta leit nú ekki alltaf svona vel út alla vikuna...heheh

Hafdís Rósa 17.7.2008 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband