21.5.2008 | 00:23
341. - Um útlendingahatur og annan aumingjaskap
Umræðan er þannig núna, að það er varla hægt annað en blogga um flóttafólk og útlendinga-andúð. Stíga verður þó varlega til jarðar, því greinilega eru margir afar viðkvæmir hvað þetta snertir.
Ég er alveg hissa á Magnúsi Þór Hafsteinssyni að láta svona útaf flóttafólkinu sem væntanlegt er til Akraness. Með því að vera svona reiður, persónulegur og skömmóttur er hann búinn að stórskaða bæði Frjálslynda flokkinn og Akurnesinga yfirleitt. Það getur vel verið að þetta mál sé upphaflega einskonar pólitísk aðför að Magnúsi, en mér finnst að hann hefði ekki átt að loka svona rækilega á eftir sér þegar hann fór fyrst útá torg að góla. Það er hætt við að hann sé á útleið úr íslenskri pólitík.
Margir blanda af kappi flokkapólitík í þann kokkteil sem innflytjenda- og flóttamannamálin eru orðin. Verst held ég að þessi umræða sé fyrir flóttafólkið sjálft, sem hingað kemur og líklega til Akraness. Andstæðingar Frjálslyndra flokksins reyna eftir mætti að koma á hann rasista-stimpli. Oftast eiga talsmenn hans auðvelt með að hreinsa sig af þeim ásökunum. Samt er það svo, að þeir sem rasískar skoðanir hafa vita alveg hvert þeir eiga að leita. Það sést ef rannsakaður er hópur kjósenda með tilliti til rasískra skoðana.
Skrípamynd sem Sigmund gerði og sýnir frú Clinton bera í potti hjá mannætunni Obama er talsvert á milli tannanna á fólki. Íslendingar þekkja Sigmund og vita vel að svona mega skrípamyndir alveg vera. Eitthvað hefur myndin samt farið fyrir brjóstið á útlendingum, en þeir eru nú svo skrítnir. Ég þori eiginlega ekki að linka í þessa mynd eða birta hana hér, en treysti því að allir hafi séð hana. Er virkilega einhver ný Jótlandspósts-mynd á ferðinni hér?
Í einhverjum tilvikum er víst búið að loka fyrir að menn geti linkað á fréttir hér á Moggablogginu. Kannski er betra að vara sig með vísnabloggið. Þar linka ég ævinlega í fréttir, en aldrei hér. Hver er eiginlega galdurinn? Að enginn kvarti nokkurn tíma? Er um að gera að vera nógu meinlaus og þægur? Er ég það? Málfrelsið er vandmeðfarið. Andstæðingar mínir í höfundarréttarmálum gætu hæglega kvartað undan mér. Ég var ósammála ýmsu í málflutningi Vilhjálms Arnar og á hans bloggi var talað um að fá blogginu mínu lokað. Kannski ekki í mikilli alvöru, en hvað veit ég?
Nú sé ég að púkinn hefur svarað svari mínu við athugasemd hans frá því á sunnudagskvöldið. (það var þá sem ég skrifaði bloggið) Síðan er ég búinn að blogga tvisvar (að þessu bloggi meðtöldu). Það er einkum þetta sem ég sé að löngum svarhölum. Áhugaverð skoðanaskipti eiga sér oft stað þar, en þau verða oft marklausari en vera þyrfti, vegna þess að margir vita ekki af þeim. Mér er engin vorkunn að taka eftir þessu tilskrifi púkans, því það kemur tilkynning til mín um það á stjórnborðinu, en aðrir lesendur bloggsins (sem hugsanlega eru þónokkrir) eiga á hættu að missa af þessu.
Guðni frá Brúnastöðum hefur hátt um hvalveiðar í ríkisútvarpinu og talar um að bergmáli hlátur í öllum fjöllum heims. Ef allir væru sammála um að það væri langmikilvægasta málefnið í veröldinni hvort þessar hrefnur verða veiddar eða ekki, gæti verið að hann hefði eitthvað til síns máls. Það er auðvitað vandræðalegt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að hafa eina skoðun á þessu máli til heimabrúks, en aðra erlendis. Það hafa stjórnmálamenn þó oftlega neyðst til að gera.
Athugasemdir
Gunnar Helgi Eysteinsson, 21.5.2008 kl. 12:16
Magnús Þór er á leiðinni út... ef ekki?
halkatla, 21.5.2008 kl. 16:38
Höldum höndum saman um ísland, við skulum ekki þurfa að upplifa það sem hefur gerst í nágrannlöndum okkar. Allt í báli og brandi vegna innflytjanda af arabískum uppruna, hryðjuverk ogsfv, það er ekkert sem segir okkur að það gæti ekki gerst hér líka. Ísland er lítið land og er viðkvæmt að taka of miklar áhættur með að blanda kynþáttum saman sem eru méð svo ólíkar skoðanir og trúr þá sérstaklega í litlu landi eins og Íslandi, Það gerir mig ekki að rasista að hafa þessa skoðun á málinu.
Gunnar 21.5.2008 kl. 19:59
Ég er einhvern vegin ekki alveg sannfærður um að allt sé í báli og brandi vegna innflytjanda af arabískum uppruna í nágrannalöndum okkar og finnst að vel megi taka "áhættur" með að blanda kynþáttum saman.
Sæmundur Bjarnason, 21.5.2008 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.