334. - Að vera forsíðubloggari

Það er ágætt að vera forsíðubloggari. Að sumu leyti leggur það manni þó vissar skyldur á herðar. Það finnst mér að minnsta kosti. Mér finnst mitt blogg koma undarlega sjaldan upp ef ég endurnýja forsíðuna hvað eftir annað og ef ég blogga ekki á hverjum degi þá dett ég fljótt út. Þetta gerir auðvitað ekkert til, ég er búinn að venja mig á að blogga flesta daga. Gæti vel bloggað bæði meira og oftar, en reyni að stilla mig um það.

Almennt tekur því ekki að leiðrétta ambögur í mbl.is fréttum. Þær eru þó alltof algengar. Ég linka ekki í fréttir á aðalblogginu mínu (vísnabloggið visur7 er sér á parti). Vitleysan gæti líka hafa verið leiðrétt og þá er aðfinnslan orðin marklaus. Reyni bara að skrifa mitt eigið blogg þannig að skiljist.

Einu sinni fyrir langalöngu keypti ég bók í fornbókabúðinni hjá Sigga í Hafnarstrætinu. Ég man eftir að ég skipti líka stundum við hann þegar hann var í Kolasundinu, sem ekki er lengur til. Þessi bók hét (og heitir) "Apókrýfar vísur". Það var Gunnar frá Selalæk sem hafði gefið bókina út sem handrit. Hún er safn af klámvísum og hafði verið gefin út alllöngu áður en ég eignaðist hana. Á þeim tíma varð auðvitað að gefa svona lagað út leynilega.

Löngu seinna eignaðist ég svo annað safn af klámvísum sem var gefið út opinberlega af Hauki Halldórssyni myndlistarmanni. Ég held að ég fari rétt með þetta nafn, en man ómögulega hvað bókin var kölluð. Því minnist ég á þetta að ég sá á Moggablogginu um daginn að einhverjir voru að rifja upp gamlar klámvísur. Klámvísur eru oft ljómandi vel gerðar og sagt hefur verið að vísnagerð Íslendinga rísi hvað hæst í klámvísum og hestavísum.

Vegir Moggabloggsins eru stundum illrannsakanlegir. Í dag uppgötvaði ég allt í einu að gestabókin við bloggið mitt var týnd og ég gat ekki með nokkru móti fundið hana. Þetta endaði með því að ég hringdi í Moggann og auðvitað brugðust öðlingarnir þar ekki. Ég þurfti bara að bæta við síðueiningu sem heitir "Leiðakerfi - box" eða eitthvað þessháttar. Hún hafði dottið út í einhverjum tilfæringum hjá mér, án þess að ég tæki eftir því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Sæll Sæmundur. Þú gætir verið að tala um bókina sem ég hef verið að birta úr undanfarna 2 daga. Hún heitir Blautleg ljóð og er myndskreytt af Hauki Halldórssyni.

 http://blekpenni.blog.is/blog/blekpenni/   Mbk.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 14.5.2008 kl. 00:32

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, eflaust. En safnaði Haukur ekki vísunum líka saman og gaf bókina út? Það minnir mig endilega.

Sæmundur Bjarnason, 14.5.2008 kl. 02:00

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég á eintak af hinni ágætu bók, Apókrýfum vísum. Eignaðist hana óinnbundna fyrir um 25 árum. Maður sem vann með mér bauðst til að binda hana inn gegn því að fá að ljósrita hana, svo hún varð fallega innbundin fyrir vikið og hefur varðveist vel. Vísurnar í henni eru margar hverjar fjári góðar og eftir marga, þekkta vísnasmiði og ljóðskáld.

Eiguleg bók. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.5.2008 kl. 10:50

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eintakið mitt er að mig minnir í upphaflegu bláu bandi. Eitt af 200 eintökum áritað af Gunnari Sigurðssyni sjálfum.

Bókin er eflaust einhversstaðar til, en á sínum tíma hefur mér áreiðanlega ekki þótt við hæfi að hafa hana uppi við.

Sæmundur Bjarnason, 14.5.2008 kl. 11:47

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það stendur inni í minni - á bls. 4 - "Bók þessi er gefin út í 200 tölusettum eintökum og er þetta hið ......."  En ekkert númer og engin áritun. Formálinn er dagsettur 8. júlí 1938. Þetta eru 150 vísur, allar númeraðar og hver annarri betri.

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.5.2008 kl. 14:08

6 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Innlitskvitt

Gunnar Helgi Eysteinsson, 14.5.2008 kl. 16:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband