4.5.2008 | 00:37
324. - Bloggvinir og orkusparnaður
Náttúruvernd og orkusparnaður hefur margar hliðar. Mikið hefur verið rætt um hve asnalegt sé að rækta korn til eldsneytisframleiðslu frekar en til manneldis. Eflaust er það rétt, en bensín eða annað eldsneyti úr korni eða öðrum jarðargróðri verður framleitt þegar það fer að borga sig og þá skiptir ekki máli þó einhverjir svelti þess vegna. Þetta er það skipulag sem náð hefur yfirhöndinni í heiminum. Það eru peningarnir sem ráða. Með skattheimtu eða einhverju þessháttar er þó hugsanlegt að breyta þessu.
Mér hefur alltaf fundist óeðlilegt hve mikið er gert af því í heiminum að láta grasbíta framleiða kjöt. Ég er viss um að það kæmi betur út að rækta eitthvað sem fólk gæti borðað á þeim víðlendum sem notaðar eru til að framleiða fæðu fyrir grasbíta. Þessu mætti líka hugsanlega breyta með tímanum.
Uppáhaldsbloggvinir mínir eru þeir sem ég þekkti svolítið fyrir. Á þessu eru þó undantekningar. Gunnar Helga Eysteinsson hef ég aldrei séð svo ég viti, en hann er bæði frændi minn og með afbrigðum duglegur að kommenta. Bloggar alltof sjaldan, en spáir mikið og spekúlerar. Topplistinn hans er til dæmis ágæt uppfinning.
Fleiri skyldmenni eru meðal bloggvina minna og mér finnst alltaf gaman að lesa bloggin þeirra. Ellismellurinn kommentar stundum á bloggið mitt og ég er viss að ég þekki hann, þó hann vilji ekki segja til nafns. Bæði Önnu í Holti og Láru Hönnu þekkti ég áður en ég byrjaði að blogga og kannaðist við þónokkra til viðbótar. Arnþór Helgason þekkti ég líka. Bloggarar sem ég hef lengi fylgst með og eru núna komin á moggabloggið eru til dæmis. Bjarni Rúnar Einarsson, Anna K. Kristjánsdóttir og Salvör Gissurardóttir.
Annars er ekki rétt að vera að draga bloggvini sína svona í dilka. Þeir eru allir einstakir og engum öðrum líkir. Það er mitt markmið flesta daga að ná því að kíkja á bloggin þeirra. Auðvitað les ég þau misvandlega. Ég er líka svo seinlesinn eins og mig minnir að ég hafi einhverntíma bloggað um. Margir bloggvina minna hafa komið mér á óvart og verið miklu skemmtilegri en ég átti von á.
Nú er ég búinn að þurrka út skoðanakönnunina. Hún kom ágætlega út og ég reikna með að taka heilmikið mark á henni. Ég er mest hissa á hve margir nenntu að taka þátt í þessu. Ég mun sennilega halda áfram að blogga um allan fjárann, sem mér dettur í hug. Líka getur vel verið að ég setji upp skoðanakönnun aftur.
Helgi Seljan sagði í Kastljósinu við Láru Ómarsdóttur um daginn: "Hættirðu þá bara vegna þess að einhver bloggari segir eitthvað?" Þetta sagði hann með augljósum fyrirlitningartón í orðinu bloggari. Helgi var sjálfur bloggari einu sinni (meira að segja Moggabloggari) og bloggaði undir nafninu 730.blog.is.
730 held ég að sé póstnúmerið á Reyðarfirði. Helgi er ágætur bloggari og ég las oft bloggið hans, þó ekki væri hann bloggvinur minn. Einn af núverandi bloggvinum mínum er hinsvegar búsettur á Reyðarfirði og er alltaf með skoðanakönnun uppi með spurningu um það hvar fólk búi. Ég hef ekki tekið þátt í þeirri könnun vegna þess að ekki er gefinn neinn kostur á Kópavogi eða öðrum útborgum Reykjavíkur. Mér líkar ekki að geta bara valið um það hvort ég bý í Reykjavík eða á Vesturlandi. Ef orðinu Reykjavík væri breytt í Höfuðborgarsvæðið yrði ég sáttur. Suðurnes mættu líka mín vegna bætast við.
Athyglisvert hjá Salvöru að hún er búin að fá sér lénið salvör.net. (kíkið á það) Ég ætti kannski að fá mér sæmi.net.
Athugasemdir
mig langar í svona lén, hvernig föndrar maður það?
alva 4.5.2008 kl. 18:08
Ég veit það eiginlega ekki. Ég mundi kíkja á boggið hjá Salvöru Gissurardóttur, mig minnir að þessu sé lýst eitthvað þar. (Hún er bloggvinur minn) Svo væri líka vel hægt að hafa beint samband við hanai. Hafðu bara samband við mig aftur ef þetta gengur ekki. Mig minnir að netfangið mitt sé í höfundarupplýsingum hér á blogginu, en það er saemi@snerpa.is
Sæmundur Bjarnason, 4.5.2008 kl. 20:53
amm, takk fyrir það.
alva 5.5.2008 kl. 00:24
Þú ert einn af mínum uppáhalds bloggurum
Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.5.2008 kl. 17:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.