316. - Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi

Gleðilegt sumar. Segja má að sumarið komi með óvenjumiklum látum að þessu sinni. Bílstjóramálin ætla ég ekki að fjalla um í þessu bloggi, enda er ég ófróðari um þau, en margir aðrir.

Ég minntist á Reyki í Ölfusi um daginn þegar ég skrifaði eitthvað um Sturlu Sighvatsson og Gissur Þorvaldsson. Gissur bjó um tíma á Reykjum í Ölfusi og er eflaust frægastur þeirra sem þar hafa búið. Hann var eitt sinn jarl yfir öllu Íslandi í umboði Noregskonungs og faldi sig í sýrukeri eins og frægt er í sögunni þegar bærinn að Flugumýri í Blönduhlíð var brenndur árið 1253.

Ég vann um tíma þegar ég var unglingur í garðyrkjustöðinni við garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi. Þar var margt brallað og þaðan er margs að minnast.

Oft villtust smáfuglar inn í gróðurhúsin og komust ekki út aftur. Þá var fangaráðið að elta þá fram og aftur um húsið þangað til þeir voru orðnir svo þreyttir að þeir gátu ekki flogið, þá var að taka þá upp og setja útfyrir. Þeir urðu jafnan frelsinu fegnir. Þetta gerðum við oft.

Ég sá um daginn í sjónvarpinu fréttaumfjöllun um bananarækt á Reykjum. Mest kom mér á óvart að húsið sem þeir eru ræktaðir í er ennþá nákvæmlega eins og ég man eftir því. Fyrr má nú vera íhaldssemin.

Við stálum oft bönunum þegar ég var að vinna þarna. Gallinn var bara sá að þeir bananar sem náðu að þroskast voru oftast svo litlir að þeir voru varla nema örfáir munnbitar, þegar búið var að taka hýðið utan af þeim. En góðir voru þeir.

Sjaldan náðist að selja þroskaða banana og ég man vel hvað Unnsteinn Ólafsson skólastjóri var stoltur í þau fáu skipti sem það tókst. Oftast var starfsfólkið búið að éta þá, áður en þeir þroskuðust. Það hefur verið skömmu fyrir 1960, sem ég og aðrir stálum bönunum þarna. Líklega er sökin fyrnd.

Ætli gróðurhúsin hafi ekki verið svona rúmlega tuttugu í stöðinni þegar þetta var. Stundum var ég í viðgerðum á húsunum. Þá fór ég um og skipti um rúður sem brotnað höfðu í þeim. Allt var þetta tveggja millimetra gler sem í húsunum var. Það þótti góð íþrótt að slá með krepptum hnefa í gegnum sæmilega stórt glerbrot. Vissara var að hafa vettling á hendinni þegar það var gert.

Mig minnir að ég hafi bloggað áður um veru mína á Reykjum og þá minnst á hesta, kýr, kóngulær, ranabjöllur og margt annað. Líklega þó ekki á villiketti. Talsvert var um þá á svæðinu en þeir forðuðust öll samskipti við fólk og við forðuðumst þá. Öðru máli gengndi um kettlingana þeirra. Ég man sérstaklega eftir einu skipti þar sem læðan þurfti af einhverjum ástæðum að yfirgefa kettlingana sína og þeir voru orðnir það stálpaðir að þeir gátu skjögrað um.

Það var í stóra húsinu sem við fundum kettlingana og fórum með þá í vínberjahúsið sem var þar rétt hjá, því þar var engin ræktun önnur en vínberjatrén sem stóðu í röðum við útveggina. Þó kettlingarnir hafi verið litlir og veimiltítulegir var grimmdin í þeim slík að ef við reyndum að taka þá upp þá læstu þeir klóm og tönnum í hendina á manni og héngu þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt sumar sömuleiðis

alva 25.4.2008 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband