312. - Um Örlygsstaðabardaga og drekkingu Jóns Gerrekssonar

Pistill minn um Skúlamál hin nýju frá því í gær, virðist hafa farið eitthvað fyrir brjóstið á Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni því hann kommentar ótæpilega á hann og helgar mér heila bloggfærslu. Kannski hefur það ekki komið skýrt fram í pistli mínum í gær að ég er á móti því að bloggi Skúla Skúlasonar hafi verið lokað. Hinsvegar veit ég ekki hvað í því hefur staðið, því ég las það aldrei.

Blogg Vilhjálms Arnar les ég hinsvegar alltaf og hef oft gaman af því sem hann skrifar, en ekki alltaf. Í þeim ummælum mínum sem Vilhjálmur virðist hafa hvað mest við að athuga sagði ég bara „mér finnst". En nóg um þetta í bili.

Ég hef dálítinn áhuga á sagnfræði. Það er þó misjafnt hvernig atriði í henni festast í huga mér. Allskyns ruglingur er eflaust þar á ferðinni líka. Oft festast einstök atvik svo rækilega í huga mér að ég losna ekki við þau. Núna eru það til dæmis einkum tvö atriði sem ég velti fyrir mér.

Samkvæmt Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar var háttsemi frænda hans og nafna Sighvatssonar í aðdraganda Örlygsstaðabardaga undarleg í meira lagi. Það er einkum eitt atriði sem á sér stað eftir Apavatnsför sem mér er minnisstætt. Þeir ríða saman frá Apavatni að Reykjum í Ölfusi Sturla Sighvatsson og Gissur Þorvaldsson og fara yfir Sogið hjá Álftavatni. Höfundur Íslendingasögu gefur í skyn að Sturla hafi velt fyrir sér að drepa eða láta drepa Gissur, en það gerði hann ekki. Af hverju í ósköpunum gerði hann það ekki? Með hliðsjón af illvirkjum hans fyrr hefði það verið mjög skynsamlegt.

Sálfræðileg úttekt á Sturlu Sighvatssyni í aðdraganda Örlygsstaðabardaga væri forvitnileg og lýsingin á því þegar Gissur Þorvaldsson vinnur á honum í þeim bardaga er ógleymanleg.

Hitt atriðið snýst um Jón Gerreksson biskup og hæstráðanda á Íslandi og drápið á honum á fimmmtándu öld. Honum var einfaldlega stungið í poka og síðan hent útí Brúará. Fyrst þegar ég las um þetta velti ég fyrir mér hvers vegna þeir hefðu ekki hent honum í Hvítá, en það var bara vegna ókunnugleika míns á staðháttum. Hvernig í ósköpunum þorðu menn að gera þetta við hann, einkavin konungsins, Eiríks af Pommern og æðsta mann landsins. Og svo hafði þetta eiginlega enga eftirmála, eða hvað? Réði danakonungur eiginlega engu á Íslandi á þessum tíma?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég átti leið yfir Brúará fyrir nokkrum dögum og þá varð mér einmitt hugsað til Jóns biskups í pokanum.  Þetta hefur nú verið óttalega leiðinlegt fyrir hann og  sennilega hefur hann haft smá ráðrúm til að hugsa um að menn uppskera eins og þeir sá.

Eyrún G. 21.4.2008 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband