310. - Nei, nei. Ekki er það svo gott að ég sé hættur að blogga

Mér finnst bara ástæðulaust að strekkjast við að blogga á hverjum degi. Ég hef ekki svo mikið að segja. Svo er ég ekki í neinni vinsældakeppni, þó það sé ágætt að vera í þeim exkljúsíva klúbbi sem valið er úr á forsíðu Moggabloggsins. Þar að auki vorum við hjónin að kaupa stóran flatskjá um daginn og það þýðir að ég þarf að horfa meira á sjónvarp en venjulega.

Að auki les ég alltaf dálítið af bókum, einkum eftir að ég er kominn uppí rúm. Ég get bara ekki farið að sofa nema ég sé búinn að lesa svolítið. Bókin sem ég er að lesa núna er um Skáktyrkjann svonefnda. Fékk hana á bókasafninu. Ágætis bók, en auðvitað engin spennusaga. Ekki velti maður neitt fyrir sér sálarlífi persónanna sem við sögu komu, þegar maður heyrði fyrst af þessu fyrirbrigði. Man ekki betur en að við höfum gefið Bjarna þessa bók í jólagjöf.

Já, ég fer alltaf á tvö bókasöfn í hverjum mánuði. Bókasafn Kópavogs og Borgarbókasafnið í Gerðubergi. Þetta er orðinn fastur vani hjá mér og sjaldnast kemst ég yfir að lesa þær bækur á mánuði sem ég ráðgeri að lesa. Enda er ég með afbrigðum seinlesinn. Líggur við að ég þurfi að hugsa hvert orð fyrir sig. En það gerir ekkert til þó ég nái ekki að lesa allar þær bækur sem ég fæ að láni. Engin sekt er fyrir það. Ég fæ þær bara aftur seinna, ef ég nenni.

Núorðið les ég blogg miklu meira en dagblöð og sveiflast mjög á milli náttúrverndar og virkjana. Það fer mest eftir því hvaða blogg ég las síðast um loftslagsmálin. Lára Hanna Einarsdóttir og Ómar Ragnarsson eru best í fyrri flokknum en Ágúst H. Bjarnason með sín vísindi er mjög oft sannfærandi fyrir þá efagjörnu. Nokkurskonar Björn Lomborg okkar Íslendinga. Eins og margir vita skrifaði Lomborg þá frægu bók „The Sceptical Environmentalist" og mér er ekki grunlaust um að skoðanir hans eigi nokkurn hljómgrunn meðal Íslendinga jafnt og annarra þjóða. Náttúruverndarmál eru svo margslungin að erfitt er að ræða þau af nokkru viti nema takmarka umræðuna sem mest við tiltekna hluti.

Það er ekki eðlilegt hvernig látið er við greyið hann Davíð seðlabankastjóra. Eflaust er hann enginn snillingur í efnahagsmálum en hann getur varla verið eins vitlaus og sumir halda fram. Vissulega er margt skrítið í íslenskum þjóðarbúskap, en samt eru sumir gagnrýnenda Davíðs jafnvel vitlausari en hann. Þeir geta spáð fyrir um allan fjandann, en þeir þurfa ekki að standa við neitt þó þeir reynist í fyllingu tímast hafa haft ragnt fyrir sér. Ef nógu mikið er spáð hlýtur einhver spáin að fara nærri því rétta. Sá sem hana á getur þá sagt. "I told you so", en hvað annað gerist?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Leitt væri ef þú hættir að blogga, og alveg máttu minnast á mig á nöldursamlega hátt eins og þú hefur margoft gert. En getur þú ekki látið okkur fá aðra mynd af þér en þá sem þú felur þig á bak við kattarrass, svo ég geti séð hvort ég muni eftir þér sem búðarsveini í Silla og Valda.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 19.4.2008 kl. 08:53

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hæ,

ég var verslunarstjóri í búðinni á Hringbraut 49 í nokkur ár fyrir 1970.

Ég get ekki áfellst Hófí fyrir að vilja vera meira áberandi á myndinni en ég. Annars festist ég frekar illa á filmu.

Sæmundur Bjarnason, 19.4.2008 kl. 10:54

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Nú, þú ert með sama vandamál og ég, en þetta er algengur kvilli. Ég á ekki lengur kött sem veður sér fram fyrir mig á myndum og bjargar sitúasjóninni.  Ég kom í verslunina á horninu, bæði með afa og ömmu sem bjuggu á Hringbrautinni, og örugglega með pabba, sem verslaði við Silla og Valda og foreldrar mínir fengu við oft vörur sendar heim í eplakassa. Ég man líklega best eftir brúnu pokunum og gömlu köllunum niður í Aðalstræti.

Aðrar verslanir í nágrenninu sem eru mér minnisstæðar voru t.d. mjólkurbakaríkið á horninu á Hofsvallagötu og Ásvallagötu, þar sem kona í peysufötum pakkaði skyri og sendi sandkökur í papír. Við hliðina á henni var Steini Fisksali, sem alltaf virtist vera með kvef. Lengra niður á horninu á Bræðraborgarstíg og Ásvallagötu var KRON, þar sem kaupmaðurinn var með blýant bak við eyrað og virtist vera 100 ára. Það voru innan við 100 vörutegundir á hillunum og gólfinu í versluninni sem var ekki meira en 15 fermetrar, og eitthvað álíka á bak við.  OG FÓLK sem verzlaði þarna LIFÐI AF! The good old days, þegar konan á kassanum talaði eins og fjallkona að Norðan en ekki díalektu frá uppsveitum Krakow.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 19.4.2008 kl. 17:10

4 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þú mátt bara ALLS ekki hætta að blogga...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 20.4.2008 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband