302. - "Global warming", heimsókn Al Gore og loftslagsmálin almennt

Náttúruverndarsinnar hafa farið nokkuð halloka í umræðunni að undanförnu, þrátt fyrir að Al Gore hafi komið hingað í heimsókn. Hver stjórnar umræðunni í raun og veru? Er það Egill Helgason? Kannski.

Margir bloggarar eru mjög fyrir að gagnrýna það sem náttúruverndarsinnar halda fram. Einn af þeim bestu í þeim hópi er Ágúst H. Bjarnason. Mér finnst samt leggjast heldur lítið fyrir kappann þegar hann gerir hið svokallaða "Al Gore effect" að aðalatriði í umfjöllun sinni um heimsókn hans.

Sú hugmynd að sífellt fylgi kuldi í kjölfar Als Gore þegar hann flytur sitt evangelíum varðandi "global warming" er auðvitað bara sett fram í gríni. Tilviljanir ráða ekki úrslitum í þessu mikilsverða máli.

Jafnvel þó fallist sé á að heimurinn sé að hlýna og koltvísýringur að aukast í andrúmsloftinu, er ekki sannað að þessi aukning sé af mannavöldum og að nauðsynlegt sé að grípa til allra þeirra ráðstafana sem í undirbúningi eru.

Alarmistar í loftslagsmálum fara stundum offari í áróðri sínum gegn stóriðju og hvers konar mengun. Mér finnst líka ótækt að gera ráð fyrir að allir sem andæfa einhverju í þeirra málflutningui séu fylgjandi óheftri og stjórnlausri mengun. Eins og í mörgu öðru er sannleikurinn ugglaust einhvernsstaðar þarna á milli.

Það er með öllu óþarft að reiðast þó ekki fari allt eftir eigin höfði. Virkjunarsinnar hafa löngum beitt fyrir sig hliðhollu ríkisvaldi og hreinu ofbeldi, en andstæðingar þeirra hafa verið að færa sig uppá skaftið og styrkjast að undanförnu og almenningsálitið er þeim fylgjandi. Á endanum næst samkomulag um þessi mál hér á Íslandi og allsengin ástæða er til að draga úr þörfinni fyrir umræðu um málin og að menn tali tæpitungulaust.

Það er slæmt að blanda flokkspólitík of mikið í þetta. Þórunn Sveinbjarnardóttir gerir eins vel og hún getur í þessum málum öllum. Það er ég sannfærður um, hvað sem Vinstri grænir segja. Ég er líka sannfærður um að núverandi ríkisstjórn er ekki lakari í þessu en sú síðasta, hvað sem Bjarni frændi minn Harðarson segir um yfirburði framsóknarflokksins.

Um daginn var mikið gert úr því í Kastljósinu hve fólk hefði verið heimskt hér áður og fyrr, þegar það lét telja sér trú um að töfralæknar á Filippseyjum gætu læknað það af ýmsum kvillum með því að þykjast skera það upp. Baldur Brjánsson var fenginn til að koma og rifja upp þegar hann gerði það sama í sjónvarpssal og töfralæknarnir á Filippseyjum höfðu gert fyrir væna þóknum.

Nú orðið fer fólk til Póllands til að kúka. Að öðru leyti hefur ekkert breyst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er nokkuð ljóst og óumdeilt að aldrei í þekktri sögu lofthjúps jarðar sem vel að merkja er milljónir ára hefur koltvísýringur aukist jafn mikið og síðsutu 100 árin. ástæðan er augljós þ.e. að við höfum brennt lífrænt kolefni sem tók milljónir ára að safnast upp sem jurtaleyfar. Þ.e. við skilum koltísýring út í andrúmsloftið miklu hraðar en jurtaríkið getur bundið hann - og við vitum að koltísýringur hefur áhrif á útgeislun varma frá jörðu. Þetta er hvorki umdeilt né véfengt.

- En þó við slepptum nú öllum vísindum og rannsóknum - segir þá heilbrigð skynsemi okkur ekki samt að fara varlega þegar við með þessum hæti  breytum andrúmslofti Jarðar - og er ekki algerlega óhætt að gera það - að fara varlega? 

Ef við strunsum áfram með bundið fyrir augu en höfum tilefni til að gruna að framundan sé bjargbrún væri ekki full ástæða til að fara varlega jafnvel þó við vissum að mögulega væri bjargbrúnin í aðra átt?

Helgi Jóhann Hauksson, 10.4.2008 kl. 02:21

2 identicon

Takk fyrir hófstilltan pistil. Hef verið áhugamanneskja um loftslagsbreytingar árum saman, en hin almenna umræða á Íslandi er oft í svo miklum skotgrafarstíl að það er sjaldan að maður nennir að blanda sér í hana.

Lokasetninging er óborganleg...

Auður H Ingólfsdóttir 10.4.2008 kl. 08:34

3 Smámynd: molta

Það er holt (í merkingunni holt að innan, ekki solid) að einblína á co2 útblástur, þegar nóg er af eiturefnum sem væri hollara að takmarka... enda er global warming (eða global cooling í kring um 1970) hannað til að hræða fólk í að borga UN skatt, ekki til að "bjarga" jörðinni.

molta, 10.4.2008 kl. 12:29

4 Smámynd: Morten Lange

Jú, það er gott að vera hófsamur, en hér er hófsemi svolítið eins og að vera hófsamur á því hvort jörðin sé flöt eða kringlótt. 

Tek undir með Moltu, að ekki skuli einblína um of á koltvísýring.  Best er að stuðla a< því að  draga úr bæði GHL og önnur mengun og helst með aðgerðum sem líka efla heilsu, nærumhverfi og fjarhag. Eins og eflun hjólreiðar til samgangna gera, en þær efla að auki andlega heilsu, umferðaröryggi, borgarbrag og margt fleira gott.

Morten Lange, 10.4.2008 kl. 13:02

5 identicon

Ég verð nú að taka upp hanskann fyrir Ágúst H. Bjarnason. Það eru fáir jafn málefnalegir í umræðunni um loftslagsmál og hann, og gífurlegt magn mikilvægra upplýsinga sem hann leggur fram á bloggsíðu sinni. En hann hefur gaman af lífinu og tekur sjálfan sig stundum ekki allt of hátíðlega sem ég held að sé bara góður eiginleiki sem aðrir mættu tileinka sér.

Magn CO2 hefur oft verið margfalt það sem það er í dag og merkilegt nokk - það var ekki hlýrra. Man ekki heimildir eða tölurnar enda óðs manns æði að ætla að sanka að sé öllu því sem skrifað er um gróðurhúsaáhrifin.

Ljónsmakkinn 10.4.2008 kl. 13:56

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Auður, mér finnst umræðan líka stundum einkennast dálítið af því að menn eru of sannfærðir um að hafa rétt fyrir sér. Sjálfur er ég mjög beggja blands í þessu og get ekki gert að því.Ég tek undir það að Ágúst H. Bjarnason er oftast mjög málefnalegur í sínum skrifum og margir pistla hans eru stórfróðlegir. Kannski hefði ég átt að sleppa því að minnast á hann. Mér finnst bara þessi Gore-effect-brandari hafa verið ofnotaður síðustu daga.

Sæmundur Bjarnason, 10.4.2008 kl. 14:46

7 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Það þyrfti að banna alla hergagnaframleiðslu og allt hernaðarbrölt heilt yfir, vopnabrakið allt saman og framleiðsal drápstólanna mengar meira en flest annað mannana brölt til samans, bandaríkjaher einn og allt hans brambolt um allar koppagrundir heimsins er líklega stærsti einstaki mengunarvaldur heimsins...en það verður líklega bið á því að hergagnaframleiðendur heimsins finni sér eitthvað þarft að gera.

Georg P Sveinbjörnsson, 10.4.2008 kl. 17:08

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér finnst þetta vera svolítið að hafa annaðhvort rétt fyrir sér eða rangt.

Ef þú setur þig í vísindalegar stellingar, þá notarðu ekki aðferðir eins og Al Gore notar. Forsendurnar verða að vera réttar, ekki fyrirfram gefnar til að þjóna einhverri tiltekinni niðurstöðu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.4.2008 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband