298. - Minningar um vetraríþróttir, hestamennsku og fleira

Vetraríþróttir hef ég aldrei stundað. Ég renndi mér þó oft á magasleða þegar ég var krakki, einkum í Gossabrekku, sem sögð var skírð eftir Gottskálk þeim sem í fyrndinni byggði sér hús við brekkuræturnar. Við systkinin vorum ekki nógu vel efnum búin til að eignast skíðasleða, sem þá voru hæstmóðins og þurftum að láta okkur magasleða nægja.

Það eru svo margir sem blogga um landsins gagn og nauðsynjar að mér er eiginlega ofaukið við það. Það er líka mesti óþarfi að vera að sperrast við að blogga á hverjum degi. Fréttalinkar finnst mér líka mikill óþarfi.

Endurminningar er það sem mér finnst mest gaman að blogga um og svo er alltaf eitthvað sem leggst til með frásagnir úr daglega lífinu, þó það sé oft harla tilbreytingalítið.

Nýr bloggvinur bættist í safnið mitt um daginn. Vefritið fór fram á að gerast bloggvinur minn og auðvitað gat ég ekki neitað því. Ekki hef ég hugmynd um hvað býr að baki. Ætli þeir (þær/þau) séu ekki bara að auglýsa sig?

En aftur að vetraríþróttunum. Einu sinni hef ég farið á skauta. Það var þegar ég var á Bifröst. Við fórum nokkur saman niður að Hreðavatni til að fara á skauta. Ég átti enga slíka og hef aldrei átt. Fékk samt lánaða hokkískauta sem ég gat með naumindum troðið mér í. Munurinn á hokkískautum og venjulegum skautum, var að minnsta kosti þá, einkum sá að á venjulegum skautum voru rifflur að framan sem hægt var að spyrna með í svellið, en ekkert slíkt á hokkískautum.

Hörku aflandsvindur var og þegar ég fór út á ísinn fauk ég strax af stað. Mér gekk bærilega að halda jafnvægi, en réði engu um það hvert ég fór. Ég fauk bara áleiðis út á vatnið. Þegar ég var kominn dágóðan spöl frá landi, sá ég að þetta stjórnleysi mitt mundi leiða til vandræða, svo ég lét mig detta og stöðvaðist við það. Skreið svo til baka og hef ekki á skauta komið síðan.

Líklega hefur það verið þegar ég var í Miðskólanum í Hveragerði sem svonefnd skíðalandsganga var haldin í fyrsta skipti. Þetta var ekki löngu eftir að 200m sundkeppnin var haldin í fyrsta sinn og var ef til vill einskonar stæling á henni.

Ganga átti þrjá kílómetra á skíðum og var lögð áhersla á mikla þáttöku. Ég hafði aldrei á skíði komið, en gat þó ekki skorast undan að taka þátt í þessu. Braut var lögð á túninu fyrir norðan Varmá, beint á móti Fagrahvammi. Fara þurfti þessa braut að mig minnir þrisvar eða fjórum sinnum fram og aftur til að ná markmiðinu.

Ég spennti á mig skíði sem ég fékk lánuð og hélt af stað. Líklega hefði ég verið fljótari án skíðanna, en ekki var um það að fást. Þrír kílómetrar er ekki löng vegalengd. Á einum stað var brautin í dálitlum halla niður að ánni og síðan beygði hún þannig að hún lá meðfram henni.

Ég hafði ekki grænan grun um hvernig ég átti að fá skíðin til að beygja svo að þegar hraðinn jókst svolítið og ég stefndi beint á ána lét ég mig bara detta á hliðina og beindi skíðunum svo lítið eitt til hliðar þegar ég stóð upp aftur og tók beygjuna þannig.

Þetta endurtók ég svo í hverri ferð og tókst að ljúka kílómetrunum þremur og fékk meira að segja leyfi til að kaupa mér gyllt barmmerki til sannindamerkis um að ég hefði lokið þessu afreki. Síðan hef ég ekki á skíði komið.

Af öðrum vetraríþróttum og mér fer engum sögum, en ég öfunda mikið fólk eins og bloggvin minn hana Stínu Jóhanns sem stundum bloggar um afrek sín á þessu sviði.

Aldrei hef ég stundað hestamennsku og sé ekkert eftir því. Þegar ég var í sveit í stuttan tíma eitt sinn að Eystri Garðsauka í Hvolhreppi voru þar tveir hestar sem hétu Gráni og Jarpur. Strákur einn þarna, sem var nokkru eldri en ég, fór með mér á bak Jarpi og sýndi mér sitthvað um gangtegundir.

Til dæmis sagði hann að valhopp og stökk væri eiginlega það sama. Stökkið bara hraðara. Tölt og brokk sýndi hann mér líka, en líklega var ekki hægt að láta Jarp skeiða. Auðvitað enduðum við með að detta af baki, en meiddum okkur ekkert.

Jarpur og Gráni voru aðallega notaðir til dráttar og þeir voru duglegir við það. Til dæmis var farið á hverjum morgni útað brúsapalli við pósthúsið á Hvolsvelli með mjólkina.

Vagn með henni dró Gráni jafnan og svo var hann orðinn vanur leiðinni að ekki þurfti að stýra honum nema lítilsháttar á tveimur stöðum. Á einum stað fór hann allof utarlega á plankabrú eina yfir síki sem var á leiðinni ef hann fékk sjálfur að ráða og svo fór hann of nálægt hliðstólpanum við hliðið á heimreiðinni.

Þessa ferð fór ég nokkrum sinnum með stráknum sem sýndi mér gangtegundirnar og ef ekki hefði verið fyrir þessa tvo staði og það að vippa mjólkurbrúsunum upp á brúsapallinn hefðum við verið alveg óþarfir í ferðirnar.

Einhvern tíma var ég að flækjast austan við Hveragerði nálægt Sogni og sá að þar voru hestar. Svo vildi til að ég var með snærisspotta í vasanum og minntist ég nú allra þeirra frásagna sem ég hafði lesið um sveitastráka sem tóku hesta traustataki og fóru eitthvað á þeim, sem gjarnan varð svo upphafið að ýmsum ævintýrum.

Í stuttu máli sagt þá ákvað ég að stela mér hesti og ríða á honum eitthvert út í buskann. Ég fann hest sem leyfði mér að setja upp í sig snærið og meira að segja líka að klöngrast á bak. Þetta var í brekku og hesturinn ákvað að fara niður eftir brekkunni og ég lét sem ég vildi það líka.

Svo vildi hesturinn fá sér að bíta og beygði hausinn niður til að fá sér nokkur grasstrá. Þá vildi ekki betur til en svo að ég hafði enga viðspyrnu á baki klársins og rúllaði fram af honum og lauk þessari reiðferð þannig.

Eitt sinn fór ég á hestamannamót á Hvítárbökkum í Borgarfirðinum. Þar hitti ég Ingólf á Flesjustöðum með tvo til reiðar. Aukahesturinn var bæði með hnakk og beisli og vildi Ingólfur, sem var svolítið við skál, endilega að ég færi á bak honum. Það gerði ég og gekk furðanlega að stýra honum í humátt á eftir Ingólfi sem fór víða.

Þegar við komum að sjoppu einni fór Ingólfur af baki til að fá sér eitthvað en ég sat kyrr á mínum hesti og hreyfði mig sem minnst. Þegar Ingólfur ætlaði á bak aftur rak hann upp mikið öskur og ætlaði að stökkva á bak klárnum sínum án þess að stíga í ístaðið. Hestinum brá við öskrið og færði sig svolítið til hliðar svo Ingólfur lenti ekki á baki hans heldur á jörðinni.

Ingólfur reiddist dálítið við þetta og rykkti klárnum að sér með beislinu, steig í ístaðið og ætlaði að sveifla sér á bak með látum en fór þá óvart útaf hinum megin.

Jæja, þetta er orðið alltof langt hjá mér, svo það er best að hætta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband