285. - Þingvallavatn og virkjanafyllerí

Anna K. Kristjánsdóttir bloggvinur minn notaði notaði um daginn fyrirsögnina: Ekki blogga ekki neitt.

Mikið skil ég hana vel. Hún er eins og ég að því leyti að hún hefur þörf fyrir að blogga á hverjum degi. Að öðru leyti ætla ég ekki að líkja okkur saman.

Ég man vel eftir því þegar álverið í Straumsvík var reist. Margir voru mjög á móti því og margt af því sem sagt var fallegt um þá framkvæmd hefur alls ekki komið fram. Ég er samt á því að það hafi verið gæfuskref að fara út í þá framkvæmd.

Líklega er ég virkjunarsinni. Ég er líka hlynntur aðild Íslands að Evrópubandalaginu og hef lengi verið. Margir líkja umsókn um aðild við landráð og víst er að þetta mál á eftir að valda miklum deilum.

Stóriðja í dag og væntanleg stóriðja valda líka miklum deilum um þessar mundir. Hræddur er ég þó um að þær kárínur sem yfir okkur hafa dunið að undanförnu í allskonar veiðibönnum og aflabresti ásamt gengisfellingu af markaðsvöldum (að sagt er) hefðu ekki farið vel í fólk ef engin hefði verið stóriðjan.

Ég segi nú bara svona, en auðvitað skil ég vel þá sem krefjast þess að varlega verði farið við beislun orku á næstu árum. Óvarlega hefur verið farið að undanförnu og þó Búrfellsvirkjun hafi tekist vel er ekki þar með sagt að virkjunarsinnar hafi alltaf rétt fyrir sér.

Til dæmis held ég að Efra-Falls virkjunin í Soginu hafi verið slys, þó hún hafi alls ekki verið álitin það á sínum tíma. Ég hef nokkrum sinnum heyrt Sigurð G. Tómasson tala um Þingvallavatn og lesið bloggið hans og finnst að þetta mál eigi skilið mun meiri athygli en það hefur fengið. Það að nota sjálft Þingvallavatn sem nokkurskonar miðlunarlón, án þess að fást til að viðurkenna það, nær náttúrulega ekki nokkurri átt.

Kastljósið tók að sér um daginn að auglýsa nýtt tölublað af einhverju blaði sem Illugi Jökulsson ritstýrir. Simmi tilkynnti ábúðarfullur að nú kæmi mynd af Múhameð spámanni á skjáinn, en aldrei kom nein mynd. Dæmigert Kastljós-klúður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband