283. - Umferðarslys á Holtavörðuheiði - hrikaleg aðkoma

Fyrir fáeinum árum kom ég þar að á Holtavörðuheiði sem umferðarslys hafði orðið á blindhæð.

Blóðslettur voru um allt og höfuðið af fórnarlambinu hafði skilist frá bolnum. Aðkoman var alveg hrikaleg. Svo virtist sem gerandinn hefði flúið af vettvangi og reynt að komast undan. Greinilegt var að bifreið hafði ekið á miklum hraða á kind sem í mesta sakleysi  hafði átt leið um veginn. Þó þetta hafi bara verið kind var aðkoman skuggaleg. Ekkert var hægt að gera og ekki um annað að ræða en halda áfram. Kona sem hafði ekið bílnum á undan okkur gat þó ekki meira, heldur fékk mann sem var í framsætinu við hliðina á henni til að taka við.

Margt er áhugavert í sambandi við íslenskt mál og slæmt að vera ekki betur að sér í því en raun ber vitni. Um daginn var ég að skrifa lítilsháttar um upptökuheimilið í Breiðavík. Umhugsunarefni er beygingin á orðinu. Á Snæfellsnesi er hreppur sem nefndur er Breiðuvíkurhreppur og eru Arnarstapi, Búðir og Hellnar til dæmis í honum. Í mínum huga er hreppurinn kenndur við hina breiðu vík sem er vestan við Búðir. Þess vegna tel ég orðið beygjast eins og það gerir.

Einhvers staðar minnir mig að ég hafi heyrt að Breiðavíkurheimilið sé ekki kennt við breiða vík, heldur við vík þar sem breiður eru af einhverju og þess vegna beygjist það ekki eins og Breiðuvíkursveit. Eflaust getur þetta þó verið álitamál. Ég man ekki betur en menn hafi deilt lengi og hatrammlega um staðarnafnið Bolungarvík og réttmæti þess að hafa þetta err inni í orðinu.

Staðarnöfn taka líka stundum með sér forsetningar sem engin leið er að finna hvernig eru hugsaðar. Ýmist er talað um að vera á Selfossi eða í Keflavík. Hvort nöfn taka frekar með sér á eða í er oft afar vandséð. En bæði hvað það varðar og rithátt eins og fyrr var um talað þá finnst mér að venja fólks sem býr á staðnum eigi að ráða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll enn, Sæmundur skólabróðir - Dr. Halldór Halldórsson, sem var manna fróðastur um íslenskt mál á sinni tíð er mér sagt, rökstuddi m.a. þetta í sambandi við Breiðafjörð. Hann væri kenndur við "breiður" en ekki hvað hann væri breiður. Hinsvegar minnir mig að hann gerði greinarmun á víkunum tveimur, Breiðavíkin á Snæfellsnesi væri breið, en þessi handan Látrabjargs væri kennd við breiður! Hann tók þetta fyrir í þætti um íslenskt mál, sem lengi voru á Ríkisútvarpinu vegna fyrirspurnar um þetta atriði. Sama átti raunar við Löngumýrarnar í Skagafirði annarsvegar og í Svínavatnshreppi hinsvegar. Þær húnvetnsku voru beinlínis langar, en sú skagfirska kennd við "löngur" sem reinar milli kvísla norður af bænum.

Ellismellur 19.3.2008 kl. 08:07

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Gaman að þessu svari Ellismellsins. Íslenskan er yndisleg þótt ég sé stundum ergileg út í hana við vinnuna.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.3.2008 kl. 09:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband