276. - "Svans caput"

Einu sinni þóttist ég vera mikill áhugamaður um kvikmyndir.

Þá þótti fínt að horfa á myndir eftir Fassbinder. Ingmar Bergman var svolítið kominn úr tísku og þótti ekki eins frumlegur. Ég dreif mig einhverntíma í að horfa á mynd eftir Fassbinder, en fannst hún afspyrnuleiðinleg. Ég man samt glögglega eftir einu atriði úr myndinni.

Stór og myndarlegur svertingi (innflytjandi?) var inni á bar einhverjum og nokkrar ungar konur á sveimi í kringum hann. Kannski voru það gleðikonur, ég veit það ekki. Þær voru greinilega að reyna við hann og hann fann það vel sjálfur og sagði um leið og hann reyndi að ýta einni þeirra frá sér:

"Svans kaput."

Ég kunni ekki mikið í þýsku þá og kann ekki enn. Þetta þóttist ég þó skilja og þótti nokkuð vel sagt. Ekki held ég að þetta hafi verið þýtt, en íslenskur texti hlýtur að hafa verið á myndinni þó ég muni ekkert eftir honum.

Í Kópavogi er fyrirtæki sem heitir Svansprent. Ég geng stundum framhjá því og þegar ég sé orðin prent svans í gluggunum minnir það mig alltaf á áðurnefnda senu. Að vísu veit ég ekki hvort prentsvansinn er orðinn kaput, en það gæti vel verið.

Að mörgu leyti er bloggið sem fyrirbrigði mitt aðaláhugamál um þessar mundir. Mitt eigið blogg þó auðvitað sérstaklega. Sumum finnst svo eðlilegt og sjálfsagt mál að blogga að það sé „lame" að vera að tala um það. Svo er þó alls ekki. Það er ákaflega merkilegt að bloggið skuli hafa náð svo mikilli útbreiðslu sem raun ber vitni.

Sem fyrirbrigði vekur Moggabloggið sérstaka eftirtekt mína. Áður en það kom til skjalanna var talsvert viðurhlutameira að blogga og ég býst við að bloggarar þá hafi komið út talsvert öðrum þjóðfélagshópum en nú er.

Með tilkomu Moggabloggsins má segja að svo einfalt hafi orðið að blogga að allir sem einhverja ánægju höfðu af skriftum gátu með hægu móti látið til sín taka. Samfélagið sem myndaðist er einstakt.

Mikilvægast í þessari samfélagsmyndun eru líklega bloggvinatengslin. Það eru fáir sem tjá sig mikið um þau og margir virðast vera farnir að líta á þau sem sjálfsagðan hlut.

Hvernig nýta menn sér bloggvinamöguleikann? Hvernig blogga þeir? Hve oft? Lesa þeir blogg bloggvinanna? Blogg annarra? Ég er viss um að það er kominn tími til að rannsaka þetta allt saman ýtarlega.

Sjálfur er ég svo illa haldinn af bloggsýki að ég hugsa oft og mikið um það hvernig mitt næsta blogg eigi að vera. Mikilvægast af öllu í sambandi við þessa bloggnáttúru mína (eða ónáttúru) er að ég hef ennþá gaman af þessu og það er ekki orðin nein kvöl og pína að blogga eitthvað á hverjum degi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég hef ekki bloggað lengi en mér finnst þetta merkilegt fyrirbæri. Ég er ekkert viss um að ég bloggi lengi en það hefur verið áhugavert að kynnast þessari veröld. Margir líta niður á bloggið. Svo er líka merkilegt að hugsa um af hverju menn blogga. Í dag var verið að tala um þunglyndi.  Mér sýnist nú ótúlegasta fólk úr öllum stéttum tjá sig. En þetta er merkilegt fyrirbæri og mér finst ég hafi orðið ögn fróðari.

Hólmdís Hjartardóttir, 12.3.2008 kl. 04:04

2 identicon

Schwanz kaput þýðir bara að skaufinn sé ónýtur :) Þýðir reyndar rófa á dýri en er notað svona í þýskunni.

Sigurgeir 12.3.2008 kl. 12:42

3 identicon

Einu sinni fyrir 25 árum síðan fékk ég "kengurenschwanzsuppe" á veitingahúsi í Austur-Berlín.  Veitingahúsið mátti muna sinn fífil fegri og fátt var þar til sölu fyrir utan þessa exótísku súpu.  Nú velti ég því fyrir mér úr hverju hún var búin til ...  

Eyrún G. 12.3.2008 kl. 17:47

4 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég hef aldrei lesið eins mikið og eftir að bloggið kom inn í líf mitt. Allir þessi bloggvinir skrifa einhver ósköp...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 12.3.2008 kl. 19:20

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í mínu starfi sem grafískur hönnuður kemur prentsmiðjan Svansprent oft við sögu og það er alveg ljóst að þeir eru betri prentarar heldur en gluggamerkingamenn.

Annars var einu sinni sett upp stafaskilti þar sem stóð KJÖTOGFISKUR, þ.e. í einu orði. Þegar kaupmaðurinn kvartaði við skiltagerðarmanninn gat hann ekki útskýrt vandamálið betur en með því að segja: „Heyrðu, það vantar bil á milli kjöt og og og og og fiskur“. (kannski er þetta lygasaga, veit það ekki)

Emil Hannes Valgeirsson, 12.3.2008 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband