256. - Daðrað við dauðann og leisure suit Larry

Um daginn sagði ég frá því að ég væri búinn að lesa bókina Harðskafa.

Líklega minntist ég ekki í því sambandi á kvikmyndina „Flatliners" sem gerð var árið 1990 og Kiefer Sutherland, Julia Roberts og Kevin Bacon léku í. Ég man að mér varð hugsað til þess þegar ég las bókina að Arnaldur hlyti að hafa séð þá kvikmynd. Bókin fjallar nefnilega um svipað efni og hún. Vel væri hægt að kalla það efni: „Daðrað við dauðann."

Margt minnisstætt gerist í Kastljósinu í Sjónvarpi allra landsmanna. Ég man til dæmis vel eftir konunni sem fékk viðtal við sig og var að kynna einhverja nýja tegund af heilun. Hún sagði meðal annars frá því að hún talaði reglulega við stofnfrumuna sína. Einhver sálfræðingur hafði verið fenginn til að andmæla vitleysunni í henni, en hann gerði þau mistök frá upphafi að taka þetta alvarlega.

Kastljósfólkið (þau voru tvö - man þó ekki alveg hver) leit hvort á annað þegar konan fór að tala um stofnfrumuna og úr svip þeirra mátti lesa: „Hvað höfum við nú komið okkur í?" Heilarinn sjálfur virtist njóta sín best þarna. Átti í erfiðleikum með að bæla niðri í sér hláturinn, en fór þó að vorkenna sálfræðingnum og Kastljósfólkinu að lokum og bað þau um að taka þetta ekki svona alvarlega. Óborganlegur þáttur.

Það er líka eftirminnilegur þáttur þegar Kristján Jóhannsson reiddist og varð dónalegur og glataði við það að minnsta kosti um tíma vinsældum sínum meðal þjóðarinnar. Kannski er hann að ná þeim aftur. Þetta með heimsfrægðina lætur þó svolítið á sér standa.

Ég sá í þættinum hjá Evu Maríu á sunnudaginn endursýnt úr fréttum það fræga innslag þegar Halldór Blöndal sem þá var samgönguráðherra sagði við herbergisþernuna í Rússlandi: „Sæl vertu, Sigurjóna!" Ég man að ég orti vísu um þetta á sínum tíma, en get ómögulega munað hana núna. Ógleymanlegt atvik samt.

Það er mjög áhugavert að skoða bloggin hjá þeim Austurlanda-agli og Söru ferðalöngu. Svo er ekki síður áhugavert að skoða síðuna hjá „Leisure suit Larry", sem þau skötuhjúin vísa í. Hann minnist líka á þau og birtir meðal annars myndir frá Doha í Qatar þar sem íslenski fáninn blaktir víða. Merkilegt.

Myndirnar hjá Larry eru margar stórskemmtilegar. Sérstakt yndi virðist hann hafa af því að taka myndir af alls kyns skiltum og vissulega eru þau mörg hver ansi fróðleg. Í heildina er þessi blogg og ferðasíða Larrys með þeim bestu slíkum sem ég hef séð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband