17.1.2008 | 00:49
222. - Nýi stíllinn í bloggskrifum
Nú er þetta að koma hjá mér.
Blogg eftir blogg. Ekkert minna. Bara skrifa eitthvað. Það les þetta hvort eð er enginn. En til hvers er ég þá að þessu? Jú, auðvitað lesa einhverjir þetta. Og því skyldi ég ekki blogga eins og mér sýnist, þó sumum þyki það ekki merkileg iðja.
Bloggið er að taka yfir hlutverk annarra miðla. Það er ég sannfærður um. Hraðinn eykst. Skrifin verða óvandaðri. Skoðanirnar fleiri og sundurleitari. Lesendum fækkar. Skrifendum fjölgar. En hvar í ósköpunum endar þetta allt saman? Eitt blogg á mann og hver og einn skrifar fyrir sig. Nei, annars. Ekki munu allir blogga. Kannski talsvert margir. Þeir sem blogga verða líka að standa sig við lesturinn. Annars endar þetta með ósköpum. Lesendur verða að vera talsvert fleiri en skrifendur. Annað gengur ekki.
En hvað verður af gömlu miðlunum. YouTube í stað alls sjónvarps, bloggið fyrir útvarp og prentmiðla, stuttmyndir á Netinu í stað bíómynda. Meira að segja Netmiðlarnir eru að fara á hausinn og hætta unnvörpum. Bloggið er betra. Það leggur allt undir sig. Blaðamenn og fréttamenn ekki lengur til. Eða verða allir bloggarar blaðamenn og fréttamenn? Netið verður í vasa allra. Sími, tölva, myndavél og hvað sem manni dettur í hug. Eitt lítið og handhægt tæki. Enginn nennir að keyra eigin bíl. Strætisvagnar á tveggja mínútna fresti á hverju götuhorni. Fáeinir leigubílar fyrir þá sem aldrei geta lært á strætó.
Margt er mannanna bölið og misjafnt drukkið ölið var kveðið í eina tíð. Alveg er ég hissa hvað fólk nennir að hafa miklar áhyggjur af því að allt sé að fara til fjandans. Hefur ekki alltaf allt verið að fara til fjandans? Samt reddast þetta. Það rætist bara furðanlega úr þessum misheppnuðu unglingum til dæmis.
Þetta er nýr stíll. Hugrenningastíll. Ekkert stenst hann. Endalaus skrif. Óstöðvandi. Bara punktur og svo haldið áfram. Þegar ekki er hægt að segja meira, er bara byrjað á nýrri málsgrein.
Ekki veit ég hvers vegna það kom svona ítarlegt bil á eftir myndinni frá Bjarna í blogginu í gær. Kannski er það bara ágætt. Nenni ekki að breyta því. Enda óþarfi.
Merkileg frétt um daginn um stolnar bækur úr dánarbúi. Til hvers að vera að safna bókum. Skiptir nokkuð máli nema það sem í þeim stendur. Er ekki leikur einn að skanna það og gera öllum aðgengilegt. Til þess er Netið. Bókasöfnun er eins og hver önnur söfnun. Fíflaleg. Einu sinni var Vignir í vandræðum með að finna eitthvað frumlegt til að safna og fór að safna yddi frekar en engu. Við Ingibjörg vorum víst að safna einhverju merkilegu. Kannski var ég að safna frímerkjum þá og Ingibjörg servíettum. Það þótti mjög kúl einu sinni.
Já, bókasöfnun er fíflaleg. Það er líka fíflalegt að brugga fíflavín. Það reyndi ég einu sinni en mistókst. Tómur fíflagangur.
"Ef ég fer, þá fer ég ber. Annars ekki." Sungu þeir Haukur prestsins og Dóri Höskulds. Þetta var í Hveragerði á árum kalda stríðsins. Ekki veit ég hvað átt var við með þessum úrvalstexta. Þeir fóstbræður sungu þetta með mikilli tilfinningu. Því segi ég þetta að fyrirsögn í þessum dúr er á bloggi hjá Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyndi fornleifafræðingi í Kaupmannahöfn.
"Ert þú hann?" Var ég spurður með hálfgerðu þjósti á kommentakerfinu mínu. Ekki hafði ég mér vitanlega gefið tilefni til svona ásakana. Bendi bara á að lesa kommentin frá í gær.
Athugasemdir
Ég les það sem þú skrifar.
Ég veit ekki hversu oft þú heimsækir bloggvini þína
en hér er skýringin á þessari spurningu "ert þú hann?" smelltu HÉR!
Gunnar Helgi Eysteinsson, 17.1.2008 kl. 08:43
Úps.... ég vona að græskulaus leikurinn hafi ekki valdið þér hugarangri.
Anna Einarsdóttir, 17.1.2008 kl. 23:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.