220. - Alvarleg slagsmál að Görðum - einn drepinn

Mér gengur illa að komast í blogg-gírinn.

Ennþá líður ansi langt milli blogga. Kannski fer þetta bráðum að skána.

Á föstudaginn var keyptum við okkur nýjan bíl. Ford Fusion árgerð 2007. Bílinn keyptum við hjá Toyota umboðinu og líkar ágætlega við hann. Margt mætti svosem um hann skrifa en það verður að bíða.

Á léninu domaraskipan.net er hægt að mótmæla síðustu afreksverkum Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Þótt villur séu í ávarpinu og röðunin á undirskrifendum svo mikill bastarður að vel er hægt að efast um að sá sem setti þetta upp kunni stafrófið er ég að hugsa um að skrifa undir. Það þýðir ekki að vera alltaf svona neikvæður. Auðvitað eru ekki allir fullkomnir, ekki einu sinni ég sjálfur.

Einhverju sinni vorum við nokkrir nemendur á gangi í útivistartíma á Bifröst. Til umræðu kom hve misþung nöfn væru og voru margar gáfulegar kenningar settar fram um það mál. Meðal annars ræddum við um nöfn okkar sjálfra og þyngd þeirra. Einnig voru fáeinir í hópnum sem hétu tveimur nöfnum. Sjálfur þurfti ég að viðurkenna að ég héti ekki einungis Sæmundur heldur einnig Steinar. Öllum kom saman um að það væri afar þungt nafn og fór ég mjög halloka í þessari umræðu og kom litlum vörnum við.

Afi minn í föðurætt hét Sæmundur Oddsson og var frá Sámsstöðum í Fljótshlíð. Kona hans hét Steinunn en hún var ekki amma mín, heldur var það systir hennar, Rannveig, sem var amma mín í föðurætt. Hún var fengin á heimilið þegar Steinunn þurfti að dvelja á sjúkrahúsi um tíma. Nöfn mín sæki ég engu að síður til þeirra heiðurshjóna í Eystri-Garðsauka.

Oft er hér í umræðu hve slagsmál séu orðin illvíg upp á síðkastið. Hér held ég að fjölmiðlar eigi nokkra sök. Það var einfaldlega ekki til siðs áður fyrr að tíunda áverka manna í fjölmiðlum eins og nú er gert. Fólki hættir oft til að álíta fjölmiðla eins konar spegilmynd af því sem gerist á hverjum tíma en það er ekki rétt. Það er miklu réttara að segja að efni fjölmiðla spegli skoðanir sem ríkjandi eru.

Sem dæmi um illvíg slagsmál áður fyrr get ég nefnt eftirfarandi sögu. Hana sagði mér Þórður Gíslason bóndi á Ölkeldu.

Það mun hafa verið um 1950 sem loranmastrið á Gufuskálum var reist. Ekki hentar það öllum að vinna í svo mikilli hæð. Útlendingar sem ekki þekktu til lofthræðslu voru fengnir til að vinna sum erfiðustu verkin.

Eitt sinn var haldið ball að Görðum í Staðarsveit. Þangað komu margir og meðal annars útlendingar sem unnu við að reisa mastrið á Gufuskálum. Ungir og hraustir menn úr sveitinni voru fengnir til löggæslustarfa á ballinu og þeirra á meðal áðurnefndur Þórður á Ölkeldu. Hópslagsmál brutust út þegar leið á kvöldið og meðal þess sem þar gerðist var að einn útlendingurinn stakk annan til ólífis með hnífi og sljákkaði þá nokkuð í verstu ólátabelgjunum. Þórður sagðist aldrei hafa orðið eins hræddur á æfinni eins og meðan á slagsmálunum stóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Komdu þér nú í blogggírinn sem fyrst, ég sakna bloggsins þíns. Og mér finnst Sæmundur Steinar glæsilegt nafn sem þú ættir að vera stoltur af!

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.1.2008 kl. 02:20

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég var oft í heimsókn hjá föður mínum á Lóransstöðinni svo það var létt að sjá þetta framfyrir sér.
Þvílíkar sögur þú segir og síðan hættir þú bara...  Ég vildi heyra meira.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 15.1.2008 kl. 06:53

3 Smámynd: Bjarni Harðarson

Ekki vissi ég það að þú hétir eftir Steinunni - en eins og mér hefur verið sögð sagan þá fór sú heiðurskona suður í ljósmæðranám og á meðan varð afi minn og faðir þinn til. Reyndar held ég að Rannveig hafi lengi verið vinnukona hjá þeim hjónum og ekki bara þennan vetrarpart sem Steinunn stundaði ljósmæðranám og eru til af þessum ástarþríhyrningi í Langagerði margskonar sögur. Einhverntíma á Steina að hafa laumast í fleti systur sinnar þegar sú var frá og lá sem dauð en nokkru seinna kom karl hennar og fór að ýta við mágkonu sinni en sagði þegar hún engu ansaði, - þú mátt ekki vera eins og Steina!

Bjarni Harðarson, 18.1.2008 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband