218. - Tómatar, lóranmastur og farsímar

Undarlegt með tómatana í Bónus þessa dagana. Allir sem eru óskemmdir og íslenskir eru sérvaldir.

Ég mundi gjarnan vilja fá ósérvalda (jafnvel ósérhlífna) tómata þar, en þeir eru ekki á boðstólum. Verðið er þó ekki hærra en búast má við á þessum árstíma. Ég man vel þá tíð þegar tómatar fengust alls ekki á Íslandi yfir vetrartímann. Til að halda verðinu uppi (og tryggja að lítið seldist) var tómötum hent í stórum stíl yfir hásumarið þegar framleiðslan var sem mest.

Það var oft fróðlegt að vinna uppi á Stöð 2. Einu sinni sagði Varði tökumaður (Þorvarður Björgúlfsson) okkur frá því í kaffitíma þegar hann og Ómar Ragnarsson fóru upp í mastrið á Gufuskálum. Það var um það bil 420 metra hátt minnir mig. Ómar getur nú aldrei staðist það sem álitið er hættulegt og erfitt og Varði sá þarna upplagt tækifæri til þess að mynda umhverfið nánast úr lofti. Það vantaði líka peru í ljós þarna uppi og Ómar og hann buðust til að skipta um hana í leiðinni og var það þegið.

Varði útmálaði það fyrir okkur hvernig hefði gengið á uppleiðinni og svo lýsti hann því þegar hann tók að mynda efst í mastrinu. Hann sagði að þar hefði verið smápallur og handrið svona í hnéhæð yst á honum. Hann lýsti því fyrir okkur hvernig hann hefði þurft að nota báðar hendurnar á tökuvélina og fetta sig og bretta til að ná sem bestum myndum þarna á pallinum með hnéháu grindverki í kring og í 420 metra hæð. Svo mögnuð var lýsing hans á þessu, að ég man að ég fékk verk í hnén.

Í annað skipti var það uppi á Stöð 2 að Siggi Hlö hafði fengið sér stóran og mikinn farsíma og í hádeginu stillti hann honum upp á borðið hjá sér. Þetta var í upphafi farsímabyltingarinnar miklu og sárafáir sem áttu farsíma. Siggi var náttúrulega bara að auglýsa það að hann væri einn af þessum sárafáu. Nema hvað allt í einu hringir síminn öllum að óvörum. Allir í matsalnum sem áreiðanlega voru nokkrir tugir manna lustu upp fagnaðrópi og klöppuðu lengi og innilega. Siggi stóð upp og hneigði sig virðulega og svaraði svo í símann. Þetta var ógleymanlegt móment.

Önnur farsímasaga gerðist um svipað leyti. Ég var uppi á Bæjarhálsi að bíða eftir rútunni til Hveragerðis og annar maður einnig. Hann var með talsverðan farangur. Töskur, pinkla og poka. Um svipað leyti og rútan er að nálgast okkur byrjar sími að hringja í farangrinum. Maðurinn byrjar að hamast við að leita að símanum, opnar poka og töskur en finnur ekki símann. Rútan kemur og stoppar hjá okkur og í sama mund finnur maðurinn símann sem nú er hættur að hringja. Maðurinn reynir nokkrum sinnum í miklu fáti að svara í símann en hendir honum svo ofan í poka aftur og kemur hlaupandi í rútuna.

Enn einni símasögu man ég eftir sem gerðist þegar við gáfum út Borgarblaðið í Borgarnesi. Við höfðum skrifstofuherbergi í kjallaranum á gömlu prentsmiðjunni og sími var þar meðal annars. Eitt sinn þegar við vorum að undirbúa eitt af fyrstu tölublöðunum og allt var á rúi og stúi á skrifstofunni byrjaði síminn allt í einu að hringja. Yfirleitt gerist svona bara í kvikmyndum. Við litum hver á annan og enginn okkar mundi hvar í ósköpunum síminn var. Hvert sem litið var voru bara pappírar, bækur og blöð. Það tók okkur talsverðan tíma að finna símafjandann því við hlógum svo mikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er búinn að lesa færsluna en hef enga skoðun á henni.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 10.1.2008 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband