211. - Áramót og jólasveinar

Allir sem þetta lesa fá bestu óskir um hamingjuríkt nýtt ár og þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

Þetta er fyrsta heila árið sem liðið hefur síðan ég byrjaði að blogga. Mikil er sú speki sem ég hef sent frá mér á þessu ári - eða hittó. Mér finnst ég vera að bregðast svolítið þeim sem þó kíkja reglulega á bloggið mitt með því að skrifa sjaldan. Kannski er það tóm vitleysa. Kannski eru þeir bara fegnir. Ég reyni að hafa þetta frekar stutt núna.

Næsta ár verður vonandi gott bloggár. Ég veit ekki hvort Moggablogginu fer fram eða ekki. Að undanförnu finnst mér svolítið hafa dregið af því. Kannski er það bara útaf hátíðunum. Fólk hefur svo mikið að gera.

Bjarni er með áhugavert blogg sem hann kallar jólasveinablogg. Hér er linkur á það. Ég man eftir þessum jólasveinaleik og ég man líka eftir því að hafa einu sinni leikið jólasvein fyrir þá bræður Atla og Bjarna Harðarsyni þegar þeir voru litlir og áttu heima í Bræðraborg í Hveragerði. Ekki man ég þó hvenær ég hætti sjálfur að trúa á jólasveina. Ég held að við höfum lítið séð af þeim á Bláfelli og áreiðanlega var þessi „draslískó" siður ekki við lýði þá. Helst man ég eftir jólasveinum á jólaböllum og þeir voru bara skrýtir kallar í skrýtnum búningum.

Merkilegt hvað ég er alltaf upptekinn af Sigurði Þór Guðjónssyni. Þó kommenta ég sjaldan á bloggið hans. Sem betur fer er hann byrjaður að blogga aftur. Þó hann hafi mestan áhuga á veðurpælingum þá finnst mér nú annað sem hann skrifar áhugaverðara. Um daginn gerði hann t.d. eftirfarandi jáningu: "Mali er mikill. Og ég er húsbóndi hans." Siggi er þá væntanlega meiri en mikill, en förum ekki nánar út í það.

Svo eru trúmálapælingar hans oft mjög góðar. Um daginn var hann eitthvað að skrifa um grein í Mogganum og æsti menn svo upp að kommentin á þá grein voru komin á annað hundrað síðast þegar ég vissi. Ég nennti nú ekki að lesa öll þau ósköp en las þetta þó með talsverðum áhuga framan af. Jón Valur Jensson hafði skrifað langflest kommentin. Sum alveg óralöng. Ég verð að segja að eftir því sem ég les meira eftir Jón Val Jensson því minna þykir mér til málflutnings hans koma. Framan af þótti mér hann oft vel að sér og rökfastur. Nú finnst mér hann bara leiðinlegur. Andstæðingar hans eru margir skelfing orðljótir og langorðir, en Sigurður Þór finnst mér alltaf standa fyrir sínu. Hann gerði margar tilraunir til að þrengja umræðurnar í kommentunum en árangurslaust. Aðallega fóru menn útum víðan völl eins og oft gerist í trúmálaumræðum.

Ef þetta á að vera stutt verð ég að hætta núna. Skrifa kannski aftur snemma á næsta ári.

Gleðilegt ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Gleðilegt ár 2008, Sæmundur, Áslaug, Bjarni, Benni, Hafdís og fjölskylda. 

Anna Einarsdóttir, 31.12.2007 kl. 21:48

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.1.2008 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband