23.12.2007 | 02:59
207. - Stafsetning, lesblinda og fleira
Það verður ekki dimmara en þetta og þó daginn lengi afar hægt í byrjun, er vel hægt að fara að láta sig hlakka til vorsins, svona þegar jólaglaumnum linnir.
Skiptir stafsetning í rauninni nokkru máli? spyr Harpa Hreinsdóttir í sínu bloggi um daginn.
Þetta er mikilvæg spurning. Margir telja stafsetningu í rauninni engu máli skipta. Áður fyrr var þetta bara aðferð til greina nemendur í gáfaða nemendur og minna gáfaða. Nemendurnir sjálfir (altsvo þeir gáfuðu) gengust upp í þessu og í skólastarfi var farið að láta þetta skipta meira og meira máli.
Nútildags er þetta farið að valda því að ritað mál er óvinsælla en það þyrfti að vera. Auðvitað fengu þeir nemendur sem voru stimplaðir lélegir í stafsetningu smám saman andúð á því að skrifa, jafnvel minnimáttarkennd, sem auðvitað var hinn leyndi tilgangur með öllu saman.
Annars er þetta minna vandamál í íslensku en til dæmis í ensku. Íslensk stafsetning er ekki flókin. Eftir að setan var afnumin í opinberu máli er þetta eiginlega ósköp einfalt og líkt framburði. Helst að ypsilonið geti þvælst fyrir fólki. Ég er þó svo heppinn að mér hefur alltaf þótt ypsilon reglurnar einfaldar og auðskildar og þar að auki hef ég sæmilegt sjónminni á ritað mál.
Sumir virðast halda að það séu til einhverjar reglur um það hvernig eigi að skrifa. Hvaða réttritun sé sú eina rétta. Það eru alls engar reglur til um þetta. Í rauninni má hver maður stafsetja eins og honum sýnist. Það er bara betra að aðrir skilji hvað átt er við. Til þess er ágætt að hafa einhverjar reglur. Þannig hljóta stafsetningarreglur að vera hugsaðar upphaflega. Að fara síðan að nota þessar reglur til þess greina fólk eftir í mismunandi flokka, er alveg út í hött.
Stafsetning hefur ekkert með blogg að gera. Ég tek eftir því að fólk sem áður fyrr hefði verið stimplað sem mjög fákunnandi í stafsetningu bloggar af krafti. Það að koma hugsun sinni skipulega á framfæri í rituðu máli er allt annað en stafsetning. Stafsetning er bara tækni sem menn hafa mismunandi gott vald á. Skipuleg hugsun er síðan annað mál og skáldleg hugsun enn annað.
Harpa skrifar líka um lesblindu í blogginu sínu. Mér hefur alltaf þótt sú kenning að lesblinda sé ekki til, dálítið athyglisverð, þó hún sé líklega röng. Sagt er að fólki gangi bara misvel að tileinka sér þá tækni sem nota þarf við lestur. Skólinn geri síðan ráð fyrir að allir séu búnir að læra að lesa við ákveðinn aldur. Afleiðingin verði svo sú, að talsverður fjöldi nemenda sem eigi í erfiðleikum með að tileinka sér þessa einu réttu lestrartækni, lendi í sívaxandi erfiðleikum.
Mikið er óskapast útaf troðningi og æsingi í fólki í kringlum, lindum og laugavegum þessa lands núna síðustu dagana fyrir jól. Merkilegt er að það eru ávallt allir hinir sem eru yfir sig stressaðir, en ekki þeir sem um málið skrifa. Mér leiðist þetta tilstand, en reyni að stressa mig svolítið upp, til að falla í hópinn.
Áður fyrr tíðkaðist ekki að fyrirtæki gæfu starfsfólki sínu jólagjafir. Nú er svo komið að kjöt, vín, ostar, kerti, körfur og allskyns dót sem frammámenn fyrirtækja álíta að henti sæmilega að gefa mörgum, eru meðal vinsælustu og útbreiddustu jólagjafa.
Samkvæmt fréttum í kvöld virðist stóra þvagleggsmálið á leiðinni í fréttirnar aftur. Lögreglan á Selfossi er nú tekin við af Lögreglunni á Blönduósi, sem helsti skelfir landsins. Allt er þetta þvagleggsmál hið undarlegasta og það eru svo margir búnir að tjá sig um þetta mál, að vel mætti skrifa um það margar bækur. Ætli ég sé nokkuð að fjölyrða meira um þetta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.