201. - Yrsa og óveður

Var að enda við að lesa bókina „Þriðja táknið" eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Þessi bók kom út fyrir tveimur árum og mig minnir að þetta sé fyrsti krimminn eftir Yrsu. Já, ég les bækur oft löngu eftir að þær koma út. Þær rekur þá gjarnan á mínar fjörur á bókasafninu, en ég heimsæki yfirleitt tvö slík í hverjum mánuði.

Bókin er ágæt, spennunni haldið út í gegn, en efnið fannst mér ekki sérlega áhugavert. Galdrar og kukl - ekki minn tebolli. Líka óþarflega mikið gert útá blóð og óhugnað. Bókin er þó mjög vel skrifuð og höfundurinn er alveg laus við þessa þjóðfélagslegu og pólitísku predikun sem einkennir oft íslenska krimma.

Óveður mikil hafa gengið yfir landið undanfarna daga hvert á eftir öðru. Mér finnst þó fréttafólk fjölmiðlanna ekki standa sig nógu vel. Auðvitað getur verið erfitt að forðast að gera of mikið úr hlutunum þegar svona stendur á, en þó þyrftu margir fréttamenn að venja sig á gagnrýnna hugarfar.

Til dæmis var ein frétt margtuggin í fréttatímum útvarpsins. Nefnilega sú að starfsfólk ákveðinnar leikfangabúðar hefði, vegna veðurhamsins, hleypt inn fólki sem stóð í biðröð fyrir utan búðina. Fréttamenn eiga að hafa vit til að sigla framhjá svona augljósum auglýsingatilburðum. Auglýsing sem tekst að smygla inn í fréttir er miklu verðmætari en venjuleg auglýsing. Þetta á fréttafólk að vita. Hafi þetta verið frétt, sem ég efa stórlega, þá var að minnsta kosti engin ástæða til að nefna nafn búðarinnar.

Menn æsa sig í bloggum og greinum í fjölmiðlum útaf Þorláksmessuskötunni. Ég hef aldrei étið kæsta skötu og finnst lyktin af henni ógeðsleg, en alls ekki verri en mörg önnur lykt. Ég hef grun um að sumir þykist vera hrifnir af skötufjandanum, án þess að vera það. Samt sem áður finnst mér alltof langt gengið að tala um að banna skötusuðu. Þetta er bara mál sem þarf að leysa.

Einu sinni fyrir löngu sat ég húsfélagsfund þar sem ákveðið var að banna hunda og ketti í blokkinni. Lítil stelpa þar átti kettling. Ég hafði á tilfinningunni að samþykktin beindist gegn henni og væri einkum sett vegna þess að það var hægt. Ég setti mig á móti banninu, en það hafði enga þýðingu, ég var ofurliði borinn og yfirgaf fundinn í fússi.

Og tvær myndir í lokin.

Hér eru tveir hjólagæjar. Til hægri er Bjössi og er dálítið dreymandi á svipinn. Mig minnir endilega að sá til vinstri heiti Gunnsteinn en veit ekki mikið meira um hann. Held þó að hann hafi verið uppeldissonur Ragnars í Reykjafossi.

 

 

 

 

Hér er setið á tröppunum að Hveramörk 6. Valli og Vibbi í aftari röð og Björgvin, Inga frænka og Guðjón sitjandi fyrir framan. Guðjón er greinilega á sokkaleistunum, en ég veit ekki með aðra. Mjólkurbrúsinn frægi er nú kominn í vesturhornið og sést við hliðina á Bjögga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband