195. - Ekki fékkst ísleyfi hjá Ísleifi

Í framhaldi af símahrekk Vífils frænda datt mér í hug að einhverntíma í fyrndinni hlustaði ég á útvarpsþátt þar sem Jökull heitinn Jakobsson var að reyna að ná sambandi í síma við páfann í Róm.

Ekki villti hann á sér heimildir heldur var það eitthvað sem hann var að ræða um í þættinum sem hann vildi bera undir páfa.

Ekki gekk vel að fá samband við hans heilagleika og vísaði hver á annan. Jökull var ýtinn og frekur og menn í mestu vandræðum með að losna við hann. Öllum þessum samtölum var útvarpað í þættinum. Sum þeirra hafa þó ef til vill verið stytt eitthvað því Jökull þurfti að segja sögu sína margoft hinum og þessum toppfígúrum í Vatíkaninu.

Mig minnir að endirinn hafi orðið sá að eina ráðið fyrir Jökul til að fá hugsanlega samband við páfa sjálfan væri að skrifa einhverjum aðila í Kaupmannahöfn og biðja um viðtal.

Jökull hafði gaman af að fíflast í síma. Eitt sinn man ég eftir því að í þættinum sagði hann frá því að hann þyrfti endilega að fá svolítinn ís af Tjörninni. Í lögreglusamþykkt eða einhverju þess háttar hafði hann grafið upp að ekki mætti taka ís af Tjörninni nema hafa til þess leyfi bæjaryfirvalda.

Nú vildi hann fá þetta leyfi, en það lá ekki á lausu og vísaði hver á annan. Jökull hringdi í ýmsa yfirmenn í borgarkerfinu og bar upp erindi sitt. Sum þessara samtala voru skondin í meira lagi.

Birgir Ísleifur Gunnarsson var borgarstjóri þegar þetta var. Þegar allt annað þraut vildi Jökull fá samband við borgarstjóra sjálfan, en ekki gekk það. Hann hafði öðrum hnöppum að hneppa og ég man að þættinum lauk á þvi að Jökull sagði að ekki hefði tekist að fá ísleyfi hjá Ísleifi.

Var að enda við að lesa hér á Moggablogginu langhund mikinn eftir Sverri Stormsker um miðla. Þegar ég var búinn að pæla í gegnum þetta kom í ljós að um var að ræða margra ára gamla grein sem hann var að endurbirta. Í greininni vitnaði hann óspart í töframanninn og snillinginn Harry Houdini. Mig minnir að ég hafi stuttlega vitnað í hann fyrir nokkru af svipuðu tilefni en þó í mun styttra máli.

Annars er margt rétt hjá Sverri í þessari grein. Mér finnst hann þó gera lítið úr lesendum sínum með því að endurtaka svona oft það sem hann vildi sagt hafa og svo er það alls ekki til fyrirmyndar að endurbirta efni með þessum hætti og láta þess ekki getið fyrr en í lokin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Bara til að ég sé viss um að þú sjáir þetta Sæmi minn skýt ég hér inn einni spurningu: Þar sem ég er nú áhugamaður um Reynistaðarbræður og frændi, væri gaman að vita hvort það sé grein sem Hannes P. skrifaði  í lesbók Moggans árið 1969 sem þú ert að tala um?

Eyþór Árnason, 8.12.2007 kl. 02:26

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eiginlega var ég með í huga bókina "Rauðamyrkur" en er ekki viss um að hún fjalli um Reynistaðabræður. Ég er samt viss um að ég hef lesið meira um Reynistaðabræður en eina tímaritsgrein. Mér finnst að um bók eða bókarhluta hljóti að hafa verið að ræða. Kannski er ég með rangan höfund í huga.

Sæmundur Bjarnason, 8.12.2007 kl. 03:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband