184. - Lilla Hegga, Lára Hanna og Fischer

Málflutningur feminista er stundum þannig að ekki er að sjá annað en þeir vilji koma því inn hjá fólki að kvenremba sé jafnsjálfsögð og karlremba.

Nefni þó engin dæmi. Best væri auðvitað að vera laus við hvorttveggja.

Videofréttirnar sem ég skrifaði um í gær eru bráðskemmtilegar, það er líka gaman að fylgjast með tilraunum Salvarar Gissurardóttur með vídeóblogg. Ég kíkti á eitthvað þess háttar hjá henni í kvöld og leist bara vel á.

Sigurður Þór var að blogga um Mömmugöggu og Sobbeggi afa og ég get sagt frá því að ég var einu sinni (fyrir 1970) verslunarstjóri í litlu Silla og Valda búðinni sem var á Hringbraut 49. Þangað komu þau heiðurshjón oft og það fór ekkert á milli mála að Margrét réð að minnsta kosti öllu um heimilishaldið. Þórbergur kom stundum og keypti eitthvað smálegt. Einkum lýsi og drottningarhunang minnir mig.

Þegar ég var á Bifröst (1959 - 1961) var stúlka í bekknum á undan mér, að nafni Birna Torfadóttir. Því var hvíslað að okkur nýnemunum að þetta væri hvorki meira né minna en systir Lillu Heggu. Meira þurfti ekki að segja.

Lára Hanna skrifar á sitt blogg fínan pistil sem hún kallar: "Bloggað um blogg og bloggara." Þar skrifar hún meðal annars um þau blogg sem hún les reglulega og gefur þeim umsagnir. Flestar eru þær mjög lofsamlegar. Þetta segir hún t.d. um mig: "Þessi er gamall vinnufélagi og mér finnst alltaf gott að lesa bloggið hans. Honum er einkar lagið að blanda saman hlutum í skrifum sínum, er einstaklega vel máli farinn og segir skemmtilega frá." Takk, Lára Hanna, það liggur við að ég fari hjá mér og ég reyni að telja mér trú um að ég eigi þetta skilið.

Sagt er að Bobby Fischer aka Robert James Fischer sé alvarlega veikur. Í mínum augum verður hann alltaf mesti skáksnillingur sem uppi hefur verið og hann gerði á sinn hátt meira fyrir skáklistina en nokkur einn maður annar. Menn hafa löngum hamast við að ata hann auri en samanborið við snilli hans við skákborðið er það lítilvægt. Enginn gerir svo öllum líki og ekki Guð í Himnaríki. Ég hef löngum talið það mér til tekna að vera sem næst jafnaldra tveimur af mestu íþróttamönnum síðustu aldar þeim Bobby Fischer og Muhammed Ali.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það er óþarfi að fara hjá sér, Sæmi minn. Þú heldur bara þínu striki, skrifin þín eru þrælgóð. Ég reyndi að vera lágstemmd í umsögnunum, nota hógvær orð og meinti hvert einasta þeirra.

Svo sé ég að þú ert farinn að nota fyrirsagnir! 

Ertu ekki annars að tala um hana Biddu systur? Það er svo langt síðan ég las Sálminn að ég man þetta ekki alveg.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.11.2007 kl. 21:23

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, áreiðanlega hefur þetta verið Bidda systir. Sálmurinn um blómið er stórkostleg saga, einkum tungutakið og orðavalið. Ég man að ég var svolitla stund að átta mig á sumu, en sá svo auðvitað snilldina í því. Appú (það þýðir allt búið)

Sæmundur Bjarnason, 25.11.2007 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband