182. blogg

Fljótið ekki sofandi að feigðarósi, segir Lára Hanna í kommenti við bloggið mitt.

Í mínum huga eru virkjanir ekki endilega neinn feigðarós, og mér finnst ég ekki umvafinn neinum Þyrnirósarsvefni. Vissulega orkar virkjun á Ölkelduhálsi þó mjög tvímælis. Það er leitun að jafn ósnortnu hverasvæði og fjölbreyttu og því sem er á Ölkelduhálsi. Líka er sú nýtni sem hægt er að ná úr gufunni til rafmagnsframleiðslu ansi lítil. Ef vel er að verki staðið held þó að virkjun gufuafls sé skáski kosturinn, ef endilega þarf að virkja. Jafnvel er hægt að hugsa sér að framkvæmdir við slíkar virkjanir séu afturkræfar ef í það færi. Ég sé ekkert útaf fyrir sig sem mælir meira á móti því að virkja fyrir stóriðju en smáiðju.

Þegar álverið í Straumsvík var byggt á sínum tíma var mjög haft á orði að ekki væri seinna vænna, því áður en langur tími liði yrði orka frá kjarnorkuverum orðin svo ódýr að vatnsaflsvirkjanir gætu ekki keppt við hana. Nú eru gufuaflsvirkjanir sagðar mun vistvænni en vatnsorkuver en samt ómögulegar. Það er vandlifað fyrir virkjunarsinna. Ætli kjarnorkuverin komi bara ekki bráðum aftur inn í umræðuna. Ekki hverfur orkuþörfin, hvernig sem menn láta.

Langt mál um lítið efni er að finna hjá orðháknum og karlrembunni Sverri Stormsker um ráðherra og ráðherfur. Mér finnst reyndar óþarfi að eyða tíma Alþingis í svona vitleysu. Íslenskt mál hefur sinn gang og gæti alveg klárað sig án þeirra Sverris Stormskers og Steinunnar Valdísar.

Í ríkissjónvarpinu var sagt áðan (fimmtudagskvöld) í fréttunum að eitthvað hefði ollið (eða ekki ollið) tilteknum bruna. Mér finnst alltaf ljótt að sjá eða heyra svona vitleysur. Sumum finnst þær kannski ekkert verri en aðrar og í heild er RUV yfirleitt til fyrirmyndar í málnotkum. Einhverntíma sá ég fyrirsögn í blaði sem var svona: "Mennirnir ullu óspektum" Ég sá fyrir mér óspektirnar bókstaflega vella uppúr þeim eins og ælu. Ég get bara ekki skilið hvað er svona flókið við notkun þessara sagna. Sögnin að olla er einfaldlega ekki til í íslensku í þessari merkingu.

Natturan.is sem Lára Hanna bendir á í blogginu sínu er ágætisvefur. Þar eru fréttir og allt mögulegt sem snertir náttúruvernd og þ.h. Núorðið finnst mér einn mesti gallinn við hefðbundna fréttamiðla að þar ægir öllu saman og sumt af því sem þar er að finna er svo ómerkilegt að ég reiðist stundum sjálfum fyrir að eyða tímanum í að lesa eða hlusta á þessa endemis þvælu.

Hér sitja þeir Bjössi og Björgvin saman "sunnan undir vegg" líklega að Hveramörk 6.

Hér hefur Bjössi verið píndur til þess að fara í jakka af mér og er greinilega ekkert hamingjusamur með það.

 

 

 

 

 

 

 

Þessi mynd gæti verið tekin um sama leyti og myndin af Bjössa í stóra jakkanum. Þetta erum við Björgvin, greinilega eitthvað að fíflast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband