177. blogg

Sífellt er verið að tala um það hvað vín sé ódýrt víðast annarstaðar en hér á landi. Oft er minnst á Frakkland og fleiri Evrópusambandslönd í því sambandi. Ég held að hluti af skýringunni sé sá að þar eru vín talin landbúnaðarafurð og væntanlega niðurgreidd sem slík.

Áfengi er vímuefni á sama hátt og bönnuð eiturlyf. Vitanlega eru kaffi og tóbak líka vímuefni en miklu mildari. Áfengi er sterkt eiturlyf sem fylgt hefur mannkyninu lengi og óhugsandi er að reyna að útrýma því. Ástæðulaust er þó að dreifa því sem víðast og að gera aðgengi að því sem auðveldast. Lögleg eiturlyf eru ekki í eðli sínu neitt betri en önnur. Eflaust er hægt að finna dæmi um góð áhrif af tilteknu víni við tilteknar aðstæður. Það sama er vel hægt hvað snertir önnur eiturlyf.

Það er auðvelt að eyða alltof miklum tíma í blogglestur og bloggskrif. Kannski geri ég það. Sigurður Þór Guðjónsson segir á sínu bloggi: „Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, sem ætti reyndar að liggja í augum uppi, að bloggið er botnfall mannlífsins." Þetta segir hann eftir að vera nýbúinn að eyða út hjá sér alllangri bloggfærslu með skömmum um Dag B. Eggertsson og fleiri vegna ófullkominna veðurlýsinga þegar ekki var verið að lýsa veðrinu neitt heldur hafði blaðamaðurinn bara spurt eitthvað um veður. En eins og allir vita er það lenska hér að svara spurningum fréttamanna með einhverju fyrirfram ákveðnu sem oft er ekki í neinu sambandi við spurninguna. Sigurður er óútreiknanlegur. Einu sinni eyddi hann mér út sem bloggvini sínum en tók mig svo í sátt aftur. Svo hættir hann stundum að blogga með látum, en byrjar aftur. Skaði ef hann hættir núna einu sinni enn.

Blaðamanni varð það einhvern tíma á að segja í einhverju sambandi: „Mennirnir drupu höfði". Í Speglinum var af þessu tilefni birt teiknuð mynd af hópi manna þar sem höfuðin bókstaflega láku af þeim. Þetta var kryddsíldarveisla þeirra tíma.

Salvöru Gissurardóttur varð það á að setja í fyrirsögn á blogginu sínu eitthvað svipað og Nanna Rögnvaldardóttir var fljót að grípa það og sagði í athugasemd að nota ætti sögnina að drúpa en ekki drjúpa.

Nanna setti nafnið sitt undir líkt og hún væri Moggabloggari og þegar farið var á setur hennar blasti þetta við:

Bara af því að ég var orðin útúrpirruð á að geta ekki skrifað athugasemdir hér á Moggablogginu . Auðvitað verð ég svo áfram hér.

Undir hér-inu var svo náttúrlega linkur á hennar aðalblogg. Ég vissi ekki að Nanna bloggaði á Moggablogginu, enda væri synd að segja að hún væri aktív þar.

Nokkrar myndir í lokin.

Veiðileg mynd af Bjögga. Ýsan er frosin og fyrst vildi hann halda henni þannig að hausinn sneri upp, en það fannst okkur Ingibjörgu ekki nógu sniðugt. Fimm lítra mjólkurbrúsi er hafður úti á tröppum þvi enginn var ísskápurinn.

 

 

 

 

Tvær ungar og hressar. Sigrún og Unnur á tröppunum á Hveramörk 6.

 

 

 

 

 

Inga systir mömmu hefur verið í heimsókn í Hveragerði. Á myndinni eru Valgeir Gunnarsson (aftari röð til vinstri) og Björgvin fyrir framan hann. Vignir síðan við hliðina á Valgeiri og Guðjón Gunnarsson fyrir framan hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég vona líka að Siggi sé ekki hættur að blogga. Hann er skemmtilegur bloggari. Þú líka þótt ólíkur honum sért.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.11.2007 kl. 02:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband