172. blogg

Þetta með að Bjarni hafi unnið meistaratitil Bahamaeyja í skák þykir víst engin frétt.

Mér finnst það samt svolítið sögulegt að Íslendingur vinni meistaratitil í útlöndum. En það er bara ég.

Leikarar eiga sér oft mörg andlit og mörg gerfi. Sérstaklega á þetta við um gamanleikara og eftirhermur. Ég held mismunandi mikið uppá karaktera sem gamanleikarar hafa skapað sér. Enginn getur t.d. keppt við Jóhannes Kristjánsson í að herma eftir Guðna Ágústssyni. Það væri þá helst Guðni sjálfur. Laddi og Þórður húsvörður eru næstum eitt í mínum huga. Örn Árnason finnst mér eiga sína bestu spretti í gerfi Davíðs Oddssonar. Sigurður Sigurjónsson er auðvitað góður í gerfi Ragnars Reykáss, en mér finnst hann jafnvel betri í hlutverki Já-mannsins hræðilega.

Það er alltaf gaman að fá hrós í kommentunum. Takk fyrir það. Oft er ég samt ekki mest með hugann við vinsældir þegar ég læt móðann mása hér á blogginu mínu, heldur að þau séu hæfileg að lengd. Ég veit sjálfur af löngum og miklum blogglestri að ekki er gott að þau séu óhóflega löng. Með því móti fælast þeir hugsanlega frá sem þó rekast hingað inn. Miklu meira máli skiptir að skrifa oft og reglulega.

Auðvitað skiptir líka máli um hvað er skrifað og hvernig skrifað er. Leikni í því síðarnefnda næst oft smátt og smátt með æfingunni, en um það fyrrnefnda er aldrei neitt hægt að vita. Mér finnst skipta mestu máli að vera ekki alltaf að bergmála aðra, reyna heldur að koma með eitthvað frá eigin brjósti. Minningabrot, ættfræði, þjóðlegan fróðleik, draugasögur, stjórnmálayfirlýsingar, sögur af daglegu amstri og hvers kyns frásagnir. Um að gera að blanda þessu bara öllu saman. Þannig finnst mér að blogg eigi að vera. Blanda af öllu mögulegu.

Þónokkrum árum fyrir síðustu aldamót fór ég á Þjóðminjasafn Íslands því til stóð að loka því. Tilkynning um lokunina var auglýst þar. Tekið var fram að góður tími væri tekinn í þetta, undirbúningur allur sérlega vandaður og fyrirfram ákveðið að safnið mundi verða opnað aftur þann 17. júní árið 2000. Tekið var líka fram í auglýsingunni að öfugt við það sem oft tíðkaðist hér á Íslandi þá væri engin hætta á að þessi dagsetning stæðist ekki.

Ég ætla engar myndir að setja inn núna. Kannski seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 13.11.2007 kl. 10:00

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Það má alveg minnast á það ef við vinnum eitthvað í útlöndum. Hvað þá meistaratitil. Til hamingju með það! Kveðja.

Eyþór Árnason, 13.11.2007 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband