171. blogg

Bjarni gerði jafntefli í síðustu umferðinni og er þar með orðinn skákmeistari Bahamaeyja.

Ég ætla ekkert að skrifa meira um þetta, því ég reikna með að hann geri það sjálfur á eftir og vísa bara á bloggið hans - lampshadow.blog.is.

Um áramótin 1990 og 1991 hætti ég að reykja. Um þau áramót urðu þau tímamót í apótekasögu landsins að ekki þurfti lengur læknisvottorð til að geta keypt sér nikótíntyggjó. Þetta notfærði ég mér og um leið og ég fór í vinnuna 2. janúar, eftir að hafa kvalist sígarettulaus í Hveragerði allan nýjársdag, keypti ég mér nikótíntyggjó í Árbæjarapóteki.

Í þeim janúarmánuði sem í hönd fór gerðist einkum tvennt. Hekla fór að gjósa og Flóabardagi hinn síðari hófst. Saddam Hússein hafði af góðmennsku sinni innlimað Kuwait í ríki sitt, en Búskurinn eldri var ekki hrifinn af því og ákvað að hrekja hann þaðan í burtu. Þessvegna braust Flóabardagi hinn síðari út, en ekki vegna þess að ég hætti að reykja. Sama er um Heklugosið að segja, engin bein tengsl eru milli þess og reykingastoppsins hjá mér.

Ég er dálítið sammála Davíð Oddssyni um að þessi óhemjugangur varðandi opnun dótabúða er illskiljanlegur. Það hefur verið vitað lengi að álagning verslana á leikföng hefur verið mjög rífleg hér á landi. Þegar smáskarð rofnar í þann múr sem verið hefur umhverfis þá tilhögun er eins og allt verði vitlaust. Einhvern tíma kemur líka að því að skarð rofnar í þann múr sem er utanum vaxtaokur bankanna. Ég veit ekki hvort lætin verða eins mikil þá, en það verða samt áreiðanlega merkari tímamót.

Blaðamennskan er síðasta vígi ómenntaðra aumingja las ég einhvers staðar nýlega. (Guðbjörg Hildur Kolbeins - kannski) Verst hvað þeir hjá mbl.is taka þetta bókstaflega. Stundum finnst manni eins og það séu eingöngu ómenntaðir aumingjar sem skrifa svokallaðar fréttir þar. Svo er þó alls ekki alltaf. Stundum er eins og fréttirnar séu lesnar yfir og lagfærðar af fólki með viti. Mér finnst slæmt að fréttir víðlesinna fjölmiðla, eins og mbl.is eflaust er, séu skrifaðar á afleitu máli. Oft og einatt bera fréttirnar það líka með sér að vera þýddar og það illa þýddar. Meira máli skiptir að fréttirnar séu þokkalega skrifaðar, en að það takist að rubba af einhverju ákveðnu magni á vissum tíma.

Sama er að segja um bloggið, það skiptir ekki öllu að blogga sem mest heldur að það sé örlítið vit í blogginu. Þess vegna er ég að hugsa um hætta núna.

Ég get samt alveg bætt við fáeinum myndum.

nullHér er Vignir greinilega á ferð og ansi glaðhlakkalegur.

 

 

 

 

 

nullÞarna erum við fjögur systkinin. Sigrún, ég og Ingibjörg í aftari röðinni og Vignir fyrir framan Sigrúnu. Vignir og Sigrún eru eins klædd og þegar Vignir fékk að sitja á hjólinu hennar svo kannski er þetta tekið í sama skipti.

 

 

 

 

 

nullEnn ein mynd af Vigni, en hér er það nýja húsið sem er í baksýn og líklega er það Björgvin sem er eitthvað að bauka þarna á bak við hann. Merkilegt að á fyrri myndinni er hann ljóshærður en þarna er hann orðinn dökkskolhærður. Samt er þetta áreiðanlega Vignir á báðum myndunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Afsakið, en áttu ekki við Flóabardagi hinn fyrri?  Það getur vel verið að ég hafi gleymt einhverju í mannkynssögunni.  Vil annaðhvort læra eitthvað nýtt (gamalt) eða vera bara viss um að ég muni hlutina rétt.  Takk fyrir áhugavert efni.

Sveinn 12.11.2007 kl. 06:51

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er talað um Flóabardaga í Sturlungu. Hann var á Húnaflóa. Það er Flóabardagi hinn fyrsti eða fyrri í mínum huga. Flóabardagar við Persaflóann hafa verið margir.

Sæmundur Bjarnason, 12.11.2007 kl. 11:59

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta hljómaði ekkert sérlega vel hjá mér. Það er bara svona sem ég hugsa. Gleymdi alveg að þakka þér fyrir áhugann og kommentið.

Sæmundur Bjarnason, 12.11.2007 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband