150. blogg

Það eru bara frægir pistlaskrifarar eins og Egill Helgason og fleiri sem þurfa alltaf að passa sig á því að vera gáfulegir í sínum bloggum.

Við í pöplinum getum látið flest flakka enda fáum við ekki borgað fyrir skrifin. Við getum vel látið það eftir okkur að vera ógáfulegir stundum. Svo mikil getur bloggsóttin samt orðið að manni fer að finnast að maður verði að blogga eitthvað á hverjum degi. Sama hve vitlaust það er. Maður má ekki láta þá hugsun trufla sig að vesalings lesendunum er auðvitað vorkunn að þurfa að lesa þetta þrugl. En þeir geta auðvita látið það vera. Kíkt bara inn og farið út strax aftur og reynt að finna eitthvað bitastæðara.

Bloggið mitt skiptist nokkuð í hugleiðingar eins og hér á undan, minningar frá gömlum tímum (Hveragerði, Bifröst, Snæfellsnes, Reykjavík) og ýmsar frásagnir. Lítið fer fyrir eiginlegu dagbókarefni og ekki er mikið sagt frá fjölskyldumálefnum. Þó er ég ekki frá því að sumir sem líta hingað inn séu einkum að leita að slíku efni. Minningarnar frá hinum ýmsu stöðum kunna líka að freista einhverra. Sjálfum finnst mér hugleiðingarnar yfirleitt merkilegastar, a.m.k. finnst mér það oft þegar ég skrifa þær. Ég geri mér samt engar gyllivonir um að öðrum finnist það líka.

Nú er ég búinn að vera svo duglegur við bloggið að undanförnu að ég er að hugsa um að hafa þennan otóbermánuð fyrsta mánuðinn sem ég blogga eitthvað á hverjum einasta degi. Ekki dónalegt það. En til öryggis og til að hlífa lesendum mínum er ég að hugsa um að blogga stundum stutt.

Nú stefnir í að allt verði upp í loft í formúluheiminum útaf hita á bensíni ef marka má mbl.is. Það yrði nú til að kóróna ruglið ef Hamilton fengi heimsmeistaratitilinn á silfurfati eftir allt saman.

Annars er ég að mestu hættur að fylgjast með formúlunni. Sá þó áðan að Stefán Friðrik Stefánsson var að hrósa Gunnlaugi Rögnvaldssyni í blogginu sínu. Ég man vel eftir þegar Gunnlaugur var að byrja í þessu, þá vissi hann eiginlega ekki neitt í sinn haus um formúluna. Þekkti ekki einu sinni bílana í sundur, hvað þá hjálmana. En honum hefur farið heilmikið fram síðan.

Þegar ég fylgdist sem mest með formúlunni var hún á Eurosport og aðalþulurinn var fyrrverandi formúlu eitt ökumaður. Þá voru þulirnir á staðnum og vissu alltaf nákvæmlega hvað var að gerast. Fyrst eftir að byrjað var að sýna frá formúlunni á RUV fór það einna mest í taugarnar á mér hvað þulirnir fylgdust illa með því sem var að gerast í brautinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband