148. blogg

Þættinum hefur borist bréf.

(Svona var til siðs að taka til orða í tómstundaþættinum í gamla daga.)

Það er Lára Hanna Einarsdóttir fyrrum vinnufélagi minn og yfirþýðandi á Stöð 2 sem skrifar:

Komið þið sæl,

Þetta er ójafn leikur, ég játa það. Fæst ykkar þekkja mig (nokkur þó), en ég þekki ykkur öll því ég les bloggið ykkar og athugsemdir. Sjálf  blogga ég ekki... ennþá.

Ég les reyndar miklu fleiri blogg, en ekki eru allir með netfang á bloggsíðum sínum. (Vill einhver senda póstinn áfram til t.d. Jónu Á. Gísladóttur, ég finn ekki netfangið hennar.)

Mér datt í hug að senda kunnum og ókunnugum bloggurum þennan póst, auk allra minna vina og vandamanna, til að "breiða út fagnaðarerindið um íslenska tungu", ef svo má að orði komast, og viðhalda umræðunni. Bloggið er öflugt tæki til slíkra hluta.

Undanfarnar vikur, í tengslum við umfjöllunina um tvítyngi í stjórnsýslu, enskunotkun í bönkum, kennslu á erlendum tungumálum í skólum og það allt saman, hefur mér hvað eftir annað orðið hugsað til greinar sem ég las fyrir mörgum árum í hinu ágæta tímariti Íslenskrar málnefndar, Málfregnum (19:2000), sem ég er áskrifandi að  sem unnandi íslenskrar tungu og þeirra menningarverðmæta sem í henni felast.

Grein þessi var unnin upp úr fyrirlestri sem dr. Matthew Whelpton, dósent við Háskóla Íslands,  flutti á ráðstefnu um íslensku sem annað tungumál. Margt hefur breyst síðan greinin birtist.  Til dæmis þekktist ekki þá að afgreiðslufólk á veitingastöðum, kaffihúsum og í verslunum kynni ekki orð í íslensku, en þó er flest í henni ennþá í fullu gildi.

Til að gera langa sögu stutta snerti greinin mig svo mjög, að ég sendi Matthew tölvupóst,  þakkaði fyrir mig og bað um hana á ensku til að geta sýnt þeim útlendingum í fjölskyldu minni  sem ekki töluðu íslensku, hvers konar virðingu þetta merkilega tungumál verðskuldaði. Hann fjallar einnig um þau vandræði sem útlendingar rata í þegar þeir reyna að tala málið.

Matthew átti greinina ekki í sinni endanlegu mynd á ensku, en lofaði að snara henni ef tími gæfist til.  Ég reyndi aftur seinna, þegar ég varð vör við í starfi mínu sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna, hve mikinn áhuga þeir hafa á tungumálinu,  hlutverki þess í íslensku samfélagi og hvernig málinu hefur verið haldið við í aldanna rás. Því miður er hann ekki búinn að snara henni ennþá svo ég viti.

Snemma árs 2004 fékk ég leyfi hjá Matthew til að ljósrita greinina og dreifa henni meðal erlendra samnemenda minna í Leiðsöguskóla Íslands sem allir töluðu mjög góða íslensku.

Ég leitaði að greininni á netinu, fann hana og afritaði yfir á Word-skjal. Hún fylgir hér með í viðhengi.   Tilfinningarnar sem komu upp þegar ég las hana fyrst koma enn upp nú, mörgum árum seinna.

Lesið greinina og dæmið sjálf. Sendið hana áfram. Bloggið um hana.

Ég hef sent Matthew póst og skorað á hann að birta greinina í blöðum, því hún á jafnvel enn meira erindi við okkur nú en þegar hún var skrifuð þótt aðeins séu liðin sjö eða átta ár síðan.

Bestu kveðjur og þakkir með von um góðar undirtektir,

Lára Hanna

 

Lára Hanna segir ekkert um það hvort ég megi birta greinina í heild á blogginu mínu, en ég er að hugsa um það gera það. Greinin er hrikalega löng miðað við það sem venjulega birtist hér og ef menn hafa lítinn áhuga er langbest að hætta hér. Meira verður ekki bloggað í dag og hef ég þó í rauninni ekki bloggað neitt.

 

MATTHEW WHELPTON

Að tala íslensku, að vera íslenskur:

mál og sjálfsmynd frá sjónarhóli útlendings

Ég vil byrja á að segja hve ánægður ég er að hafa verið beðinn um að koma fram með mitt sjónarmið á íslensku sem annað mál . Eins og þið heyrið er íslenska ekki móðurmál mitt og ég á enn langt í land með að tala málið reiprennandi. Samt sem áður vona ég að þið skiljið öll það sem ég hef fram að færa. Ég vildi nota tækifærið og þakka Sveini Haraldssyni, Höskuldi Þráinssyni og Sigurði Jónasi Eysteinssyni fyrir hjálpina við að undirbúa hina íslensku útgáfu á fyrirlestrinum. Titill fyrirlestrarins er Að tala íslensku, að vera íslenskur: mál og sjálfsmynd frá sjónarhóli útlendings. Fyrri hluta hans er kastað fram sem umhugsunarefni frekar en sem staðhæfingu. Það er vel kunnugt meðal félagsmálvísindamanna að tungumálið er mikilvægt tæki til að byggja upp og túlka sjálfsmynd þjóðfélags og ímynd einstaklingsins innan þess þjóðfélags.  Íslenska er mjög vel fallin til að rekja þræði milli tungumáls og sjálfsmyndar þjóðarinnar, sérstaklega þegar litið er til hinnar aldagömlu bókmenntahefðar, íhaldssemi tungunnar og tiltölulega mikillar sögulegrar einangrunar íbúanna. Markmiðið með þessum fyrirlestri er ekki að fjalla um þetta viðfangsefni í sjálfu sér þar sem ég geri mér ljóst að þar sem ég hef aðeins búið hér á landi í fimm ár er ég ekki hæfur til að gefa öðrum viðstöddum innsýn í málið. Það sem ég vildi aftur á móti gera er að skoða hvernig útlendingur á Íslandi, sem leggur stund á tungumálið, upplifir tungumálið á heimaslóðum þess og að benda á sum þeirra vandamála sem ég hef tekist á við þegar ég hef reynt að læra tungumálið í þessu samhengi. Það sem ég ætla að segja er ætlað sem óformlegt og persónulegt sjónarhorn á þessar aðstæður sem ég vona að ykkur, sem berið ábyrgð á því hvernig íslenskukennsla er skipulögð og þróuð, muni finnast áhugavert.

Niðurstaða mín, hvað fyrsta hluta titilsins áhrærir, mun verða sú að þó það að tala íslensku sé ekki aðferð til að vera íslenskur sé það samt sem áður aðferð til að heyra til íslensks samfélags á miklu persónulegri hátt en það að tala ensku gefur færi á í bresku samfélagi. Þar sem enska er notuð í alþjóðasamskiptum merkir það að tala ensku ekki það að tilheyra bresku samfélagi; hvað Englending áhrærir mun málnotkun hans marka honum sess í einhverjum ákveðnum félagslegum og svæðisbundnum bás.  Eins og George Bernhard Shaw sagði einu sinni að hvenær sem Englendingur opnar munninn muni annar Englendingur hata hann. Þessu er öfugt farið með íslensku. Þó að ég geti ekki stuðst við neinar vísindalegar rannsóknir vil ég samt segja ykkur tvær sögur til að renna stoðum undir mál mitt.

Þegar ég kom í fyrsta skipti til Íslands gekk ég í átt að vegabréfaskoðuninni og tók eftir skilti þar sem stóð Welcome to Iceland. En fallega gert, hugsaði ég og braut ekki heilann meira um þetta. Í annað eða þriðja skiptið sem ég kom til landsins kom ég auga á íslensku útgáfuna af þessu skilti en þar stendur ekki Velkomin til Íslands heldur Velkomin heim. Þetta er fallegt og einfalt dæmi um tengslin milli íslensks tungumáls og íslensks samfélags. Íslenska útgáfan gerir ráð fyrir að allir sem tali íslensku séu Íslendingar eða, til að sýna meiri sanngirni og nákvæmni, að hver sá sem tali íslensku kalli Ísland heimili sitt. Þó að ég sé sjálfur ekki Íslendingur og muni aldrei verða það þá hlýnar mér enn um hjartarætur þegar ég stíg frá borði í Keflavík og sé margumtalað skilti, Velkomin heim. En í rauninni er Ísland heimili mitt. Þetta skilti myndi aldrei virka í Englandi þar þætti það fáránlegt. Og að mínu mati eru fá önnur tungumál í heiminum þar sem skilti með áletrun sem þessari virkar eins blátt áfram.

Gott dæmi um hvernig íslenska gefur til kynna að einstaklingur tilheyri samfélaginu er þegar ég flaug heim til Íslands frá Kaupmannhöfn í flugi þar sem fyrir tilviljun virtust næstum engir útlendingar vera um borð. Þegar flugfreyjan kom til mín kom hún fram við mig af vinalegri kurteisi eins og ég hefði mátt búast við í flugi hjá bresku flugfélagi. Síðan pantaði ég drykki og bar fram fyrirspurnir á íslensku. Eftir því sem lengra leið á flugið varð andrúmsloftið í flugvélinni léttara og óformlegra.  Það var eins og að stórfjölskyldan væri að koma heim úr sumarfríi - allir glaðir og reifir. Flugfreyjan hætti að gera greinarmun á hvernig hún kom fram við mig og hina farþegana. Þegar nær dró því að við lentum á Íslandi var flugfreyjan að hella kóki úr dós í glas fyrir mig þegar við urðum fyrir ókyrrð í lofti og hún hellti óvart gosdrykknum í kjöltu mér. Ef þetta hefði gerst hjá bresku flugfélagi hefði flugfreyjan verið eyðilögð og mjög afsakandi og ef ég hefði verið mjög breskur sjálfur hefði ég verið mjög pirraður. Við þessar aðstæður, aftur á móti, áður en ég gat komið upp nokkru orði, sletti hún fram einu Æ, fyrirgefðu, greip servéttu, þurrkaði lauslega af mér eins og elskuleg frænka á ættarmóti og sagði: Svona, er þetta ekki í lagi? og ég brosti bara á móti og sagði: Já, já, ekkert mál. Þar sem ég talaði íslensku varð ég að haga mér eins og Íslendingur.

Ég vona að þessi tvö dæmi lýsi á einhvern hátt hvernig íslensk tunga myndar ákveðin tengsl sem binda íslenskt samfélag saman. Og þrátt fyrir að mörgum finnist þessum tengslum vera ógnað þá er ég sannfærður um að þau eru mjög sterk.

Þegar fólk veltir fyrir sér styrkleika tungumáls sjá flestir fyrir sér einhvers konar fjöldamælikvarða - og með íbúatölu upp á um tvö hundruð og áttatíu þúsund hefur íslenska samkvæmt þessum mælikvarða mjög veika stöðu.  Félagsmálvísindamenn hafa hins vegar bent á að styrkleiki tungumáls sé ekki fyrst og fremst tengdur fjölda þeirra sem tala tungumálið heldur á hve fjölbreyttan hátt það er notað og í hve ríkum mæli þeir sem tala málið kjósa að nota það frekar en eitthvert annað mál við hinar ýmsu aðstæður. Sem dæmi um slíkar aðstæður má spyrja að því hvort málið sé notað af stjórnvöldum, í stjórnsýslu, á ýmsum dómstigum, í grunnskóla, í framhaldsskóla, í námi á háskólastigi, í viðskiptum, í fjölmiðlum, milli vina og til að tjá sig við fjölskyldumeðlimi. Er einhver annar kostur í boði? Er hægt að þvinga fólk til að velja eitt tungumál fremur en annað? Ef tekið er dæmi af gelísku í Írlandi þá eru niðurstöðurnar dapurlegar. Það er hægt að nota tungumálið opinberlega en það er að stórum hluta táknrænt, þegar það er ekki táknrænt þá er það notað af örlitlum minnihluta og enska er alltaf í boði sem annar kostur. Staða velsku er mun sterkari. Hún er töluð af um fimmtán til tuttugu prósentum íbúanna þó að flestir séu tvítyngdir og tali enn fremur ensku. Hún er opinberlega í boði á öllum stigum þó að raunin sé önnur og það geti verið erfitt að notfæra sér velsku í stjórnsýslunni og það er félagsleg pressa gegn því að nota hana á mörgum svæðum innan Wales. Hún er eingöngu í boði á einni sjónvarpsstöð og hún er notuð til boðskipta milli vina og fjölskyldumeðlima þar sem hún er mest töluð, í dreifbýlinu norðan og vestan til í Wales. Enska er enn þá það tungumál sem notað er félagslega til að koma sér áfram.

Berum þessar aðstæður saman við stöðu íslenskunnar. Íslenska er skilyrðislaust notuð af stjórnvöldum, dómstólum og grunn- og framhaldsskólum. Og á háskólastigi er hún í flestum tilfellum notuð eingöngu þó að heyrist raddir um að nota beri ensku vegna stúdenta af erlendum uppruna. Í viðskiptum er íslenska notuð nema ef skipt er við útlendinga, á fjórum sjónvarpsstöðum er allt efni kynnt á íslensku eða þýtt á tungumálið þó að nálgast megi sjónvarpsefni á ensku auðveldlega í gegnum gervihnött. Og íslenska er alltaf valin við að tjá sig við fjölskyldu og vini. Það er staðreynd að mjög margir Íslendingar eru tvítyngdir á ensku og íslensku, auk annarra tungumála, og ég mun minnast aftur á þetta atriði síðar en að minni hyggju er íslenska valin fram yfir ensku í öllum tilfellum þar sem tveir Íslendingar eiga samskipti. Þetta er mjög áberandi í samhengi þar sem ætla mætti að menn breyttu yfir í ensku ef íslenskt tungumál ætti á brattann að sækja. Til dæmis talar tengdafólk mitt allt ensku mjög vel og því finnst sjálfsagt að tala ensku við mig ef nauðsyn ber til. En það fer aldrei á milli mála að íslenskan er grunnmálið, jafnvel í svo litlum hópi þegar ég er viðstaddur. Mestur hluti samræðnanna fer fram á íslensku nema ef þau beina máli sínu sérstaklega til mín og frá byrjun var það ljóst að þau voru mjög áfram um að ég lærði íslensku. Viðbrögðin frá tengdafólkinu við því að ég gat farið að taka þátt í samræðum á íslensku, jafnvel á því stigi sem íslenskukunnátta mín er í dag, hafa einkennst af hlýju og þakklæti. Viðbrögðin í háskólasamfélaginu eru jafnvel enn meira sláandi. Ég stjórna vikulegum umræðuhópi málvísindamanna. Næstum allir í hópnum tala ensku vel og skrifa greinar á því tungumáli. En það er mjög óalgengt, nema að útlenskur gestur sé viðstaddur, að umræðurnar fari fram á ensku. Þó að ég skilji fræðileg umfjöllunarefni betur á ensku en íslensku er íslenskan það tjáskiptaform sem kemur eðlilega upp eins og ætti að vera við aðstæður þar sem íslenskan skipar traustan sess í samfélaginu.

Styrkleiki íslenskunnar er raunar eitt af fyrstu atriðunum sem ég tók eftir í sambandi við tungumálið, löngu áður en ég kom fyrst til landsins. Ég umgekkst mjög fjölþjóðlegan hóp í Oxford, þar á meðal Íslendinga. Mjög algeng samsetning á móðurmáli þátttakenda í t.d. sjö manna hópi gæti verið enska, þýska, íslenska, urdu og hindi. Þar sem hópurinn var staddur í Oxford og enska er alþjóðlegt tungumál var það mál notað til tjáskipta. En það var athyglisvert að fylgjast með því að þó að þeir væru innan hópsins notuðu þeir sem áttu t.d. urdu eða þýsku að móðurmáli ensku til að tala sín á milli, jafnvel þó að umræðuefnið væri utan þess sem hópurinn var að ræða um.  Íslendingar töluðu aftur á móti oft saman á íslensku á tveggja manna tali. Hér á ég ekki við að þeir vildu halda því sem þeir sögðu leyndu frá hinum í hópnum og ég held að þeir hafi ekki verið sér meðvitandi um að þeir forðuðust að nota ensku. Ástæðan var einfaldlega sú að þeim fannst eðlilegra að nota íslensku við að tjá sig við annan Íslending. Þessi tilhneiging er ríkari meðal Íslendinga sem ég umgekkst en hjá fólki af öðru þjóðerni.

Íslenska sem tungumál myndar sterk tengsl sem binda íslenskt samfélag saman. Það sem ég hef áhuga á er hvernig þetta hefur áhrif á hvernig útlendingur lærir íslensku á Íslandi. Ég held að á kaldhæðinn og alls ómeðvitaðan hátt sé þetta uppspretta fjölda vandamála sem útlendingur, sem lærir íslensku, verður að horfast í augu við. Í fyrri hluta erindisins hélt ég því fram að það væri sterk tilhneiging meðal Íslendinga til að nota íslensku hvenær sem færi gæfist. Í beinni mótsögn við þessa staðhæfingu er notkun ensku í verslunum í Reykjavík. Það er algengt umkvörtunarefni meðal erlendra gesta sem eru að læra íslensku, og ég hef upplifað þetta í fjöldamörg skipti sjálfur, að þegar maður fer inn í búð og reynir að nota íslensku til að kaupa eitthvað skiptir starfsfólkið umsvifalaust yfir í ensku. Ég hef jafnvel talað íslensku við starfsfólk í verslun og haldið áfram að tala íslensku allan tímann en mér var alltaf svarað á ensku. Það mætti ætla að þetta sýndi fram á styrka stöðu ensku á Íslandi en mér finnst að þetta sýni fram á athyglisverða hluti í sambandi við stöðu íslenskunnar sem máls samfélagsins. Alveg eins og tveir Íslendingar í Oxford nota íslensku í samskiptum hver við annan án þess að hugsa, vegna þess að íslenska er það mál sem Íslendingar nota innan síns samfélags, notar Íslendingur sem talar við útlending á Íslandi á sama hátt ekki íslensku vegna þess að útlendingurinn tilheyrir ekki samfélaginu, í stað þess er enska valin til samskipta við aðila utan samfélagsins. Þegar ég tala við tengdafólk mitt eða samstarfsmenn í háskólanum þá vita þeir að ég bý hér og að ég er meðlimur í samfélaginu þar af leiðir að þeir vilja umfram allt að ég læri íslensku. Starfsmaður í verslun, sem hefur samskipti við útlendinga á degi hverjum, sér mig ekki í þessu ljósi. Ég er utan samfélagsins svo að ákveðið er að nota ensku. Ég get í þessu sambandi nefnt dæmi um þýskan nemanda hjá mér sem kvartaði yfir því að íslenskir vinir hans skiptu yfir í ensku þegar þeir töluðu við hann þó að enskukunnátta hans væri minni en kunnátta hans í íslensku. Íslendingar virðast fylgja einfaldri reglu:  íslenska innan samfélagsins, enska utan þess. Þessar aðstæður líkjast því sem félagsmálvísindamenn kalla tvískipt málsamfélag, þegar tvö tungumál eru notuð innan sama samfélags en hvort um sig er notað í ákveðnum tilgangi. Munurinn er sá að í raunverulegu dæmi um tvískipt málsamfélag, sem fyrirfinnst til dæmis víða í arabalöndum, er vandað, sígilt mál notað af dómstólum og í stjórnsýslu en mállýskukennt daglegt mál notað innan heimilanna og í lágmenningarbókmenntum.  Íslenska útgáfan er samfélagstengd eitt tungumál innan þess og annað utan þess.

Vandamálið er ekki sterk staða íslenskunnar (sem vonandi mun haldast um aldur og ævi) heldur að styrkurinn hefur verið notaður fyrst og fremst til að treysta innviði málsamfélagsins. Það þarf að nota íslensku í öðru samhengi, við fleiri tækifæri, ekki færri - þetta þýðir að hverfa frá því að álíta íslenskuna vera fjársjóð sem þarf að standa vörð um og til þess að líta á hana sem nægtabrunn sem hægt verði að deila með öðrum. Ef viðhorfið verður að íslenska sé eitthvað eftirsóknarvert sem einhver utan samfélagsins vill leggja stund á (hvaða undarlegu ástæður sem hann hefur fyrir því) þá verður það að notast við íslensku í tjáskiptum við útlending, sem hefur af fúsum og frjálsum vilja ákveðið að nota hana, aðferð til að hvetja til fjölbreyttari nota tungumálsins. Þetta þýðir að sjálfsögðu að íslenska mun með tímanum hætta að vera einkaeign þeirra sem álíta Ísland heimili sitt. Hugmyndinni um íslensku sem nægtabrunn fylgja tvenns konar vandamál sem tengjast því sem áður sagði um sjálfsmynd Íslendinga.

Öðru vandamálinu tæpti ég á þegar ég sagði að útlendingar vildu læra íslensku, hvað sem vekti fyrir þeim. Staðreyndin er sú að flestir Íslendingar, sem ég hef talað við, eru furðu lostnir að útlendingar skuli vilja læra tungumálið. Að vera giftur Íslendingi eða að vera með háskólagráðu í germönskum fræðum gerir þetta auðskiljanlegra en það er undarleg andstaða við þá hugmynd að nokkur utan samfélagsins vilji læra tungumálið. Ástæðan fyrir þessu virðist eiga rætur sínar að rekja til tilfinningarinnar sem fær Íslendinga, þeim sjálfum til mikillar skemmtunar, til að spyrja útlendinga fyrst (og svo aftur og aftur) „How do you like Iceland?"  Íslendingum finnst (að mínu mati réttilega) að þeir búi á mjög sérstökum stað en þeim virðist líka finnast að enginn annar kunni að meta þessa sérstöðu. Þetta lýsir miklu óöryggi í bland við þjóðarstoltið. Og frá mínum bæjardyrum séð er þetta miður því það er meðal annars þetta sem kemur í veg fyrir að Íslendingar kynni tungumál sitt þeim sem utan samfélagsins standa. Það er virkilega til fólk einhvers staðar úti í heimi sem vill koma hingað og læra íslensku, ekki bara fræðimenn í hinum germönsku málum eða fólk sem stundar rannsóknir í nútímamálvísindum allt frá MIT í Cambridge, Massachusetts, til Japans sem hefur heyrt Höskuldar Þráinssonar getið, heldur alls kyns fólk sem hefur áhuga á sögu og menningu norrænna manna. Auk þess er fólk hér á landi sem vill læra tungumálið af margs konar ástæðum, ekki bara fólk sem gifst hefur Íslendingum eða gestakennarar (þó að þeir séu fjölmargir), heldur erlent vinnuafl, sérfræðingar, læknar, trúboðar og svo framvegis. Þó að íslenska sé fjöregg Íslendinga þá eru fjöldamargir sem hafa áhuga á að læra tungumálið og það er ekkert undarlegt við það.

Hitt vandamálið er sú skoðun að íslenska sé eins skrýtin og framandi, eins hrjúf og erfið og landið sem hún er töluð í. Þetta má til sanns vegar færa. Ein margra ástæðna fyrir því að mig langaði að flytja til og búa á Íslandi var að íslenska er eins hrífandi og raun ber vitni frá málvísindalegu sjónarmiði, sérstaklega ef hún er borin saman við ensku og þýsku. Hún býr yfir fjársjóðum eins og: langdrægum afturbeygðum fornöfnum, kjarnafærslu með sögn í öðru sæti, leppsetningum með áhrifssögnum, auk fjölmargra annarra. Hún er einnig erfitt tungumál að læra hvað það varðar að hún er þvílíkt beygingamál að það að læra eitt orð úr orðabókinni þýðir í raun að læra fjölmargar orðmyndir og vita í hvaða sambandi á að nota þær. Ég skil vel þessa skoðun á íslensku sem erfiðu og skrýtnu tungumáli eins og fyrstu kynni mín af málinu sýna. Ég hafði lagt stund á námskeið um hin ýmsu, mismunandi hljóð sem notuð eru í tungumálum heimsins í nokkrar vikur og við vorum loksins komin að undarlegustu og fágætustu hljóðunum. Eitt þeirra var óraddað nefhljóð sem var virkilega furðulegt hljóð. Hópurinn, sem ég var í, kvartaði yfir því að verða að æfa hljóð sem sennilega væri aðeins notað af einum ættbálki á miðju Amasón-svæðinu.  En vinkona mín ein sagði skyndilega: Nei, nei, ég þekki mann sem er með óraddað nefhljóð í nafninu sínu og hann er Evrópubúi. Hann heitir Sveinn. Við eyddum næstu tuttugu mínútum í að reyna eftir bestu getu að bera fram þetta undarlega nafn. Þegar Íslendingar segja að tungumál þeirra sé eins óvenjulegt og jöklar á eldfjöllum og eins aðgengilegt og apalhraunbreiðurnar í nánd við Keflavík verð ég innst inni að vera sammála þeim. En staðreynd málsins er að íslenska er engu erfiðari fyrir útlendinga að læra en mörg önnur tungumál. Í raun er engu erfiðara fyrir Englending að læra íslensku en þýsku. Engum finnst skrýtið að Þjóðverjar breiði út tungumál sitt og menningu og á sama hátt er ekkert sem stendur í vegi fyrir að kenna öðrum íslensku.

Ég veit að íslenskukennsla fyrir útlendinga er vel skipulögð og hefur verið stunduð um árabil en ég vil koma með nokkur dæmi sem ég byggi á eigin reynslu. Ég flutti til Íslands í ágúst 1995 og hafði nýlokið doktorsritgerð minni við Oxfordháskóla.  Ég bjóst við því að ég yrði að læra íslensku til að geta uppfyllt skyldur mínar við háskólakennsluna og ég ætlaði mér að gera það sem fyrst. Ég gerði ráð fyrir að boðið yrði upp á námskeið í íslensku fyrir erlenda kennara við háskólann. Sú var ekki raunin. Mér var í fyrstu bent á B.Ph.Isl.-námið í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Þetta er mjög gott þriggja ára námskeið á háskólastigi og þangað hafa sótt erlendir gestir með mismunandi þarfir og bakgrunn. Vandamálið er að þessi námskeið eru ætluð fólki sem er að hefja háskólanám og eru skipulögð með þarfir þess í huga, þar á meðal kennslu í bókmenntum og bókmenntagreiningu, formlegri málfræði og svo framvegis.  Þar sem ég var að hefja störf sem lektor í háskólanum og hafði nýlokið háskólanámi ætlaði ég mér ekki að hefja nýtt nám og stefna á nýja gráðu á meðan ég reyndi að sinna kennslunni, rannsóknum og stjórnun, sérstaklega vegna þess að námskeiðin, sem ég kenndi, bar upp á sama tíma og íslenska fyrir erlenda stúdenta var kennd á. Ég hefði getað reynt að velja mikilvægustu námskeiðin og skotið þeim inn á milli fyrirlestra minna en það er erfitt að byggja upp eigin námskrá þegar maður er nýfluttur til ókunnugs lands og hefur nýlega hafið störf. Þrátt fyrir að námskeið í Endurmenntunarstofnun Háskólans kæmi til móts við sumar þarfir mínar þá var það ekki hannað sérstaklega fyrir erlenda kennara og fræðimenn við háskólann. Hvað var það þá í raun sem ég var að sækjast eftir?

Hvað mig varðar sérstaklega voru þarfir mínar bæði af praktískum toga og mjög sértækar. Ég vildi bæði mjög einfaldan hlut og svo mjög erfiðan. Annars vegar vildi ég ná nokkurri leikni í talaðri íslensku og ná valdi á orðaforða og málfræði til að geta tekist á við ákveðnar daglegar aðstæður: til dæmis að kaupa inn matvæli, borga mig inn í sundlaugarnar, fara í bankann og svo framvegis. Í hverju þessara tilvika vildi ég læra daglegt mál. Til dæmis, ef ég kaupi brauð í Englandi segi ég Can I have some bread? sem er spurning en í Frakklandi segi ég Je prens une baguette, ég tek brauð, sem er setning sem þætti dónaleg í flestu samhengi í Englandi. Það tók mig langan tíma að komast að því að á Íslandi setti maður einfaldlega Ég ætla að fá...  á undan öllu sem mann langaði að kaupa en ekki Má ég fá...  Inn í þessi fyrir fram ákveðnu skemu má setja mikilvægan orðaforða og í raun er málfræðin aukaatriði hér þar sem ég hefði verið hæstánægður með að læra heldur nöfnin á matvælum í þolfalli, sem andlag við sögnina , en í nefnifalli.

Hins vegar var það sem mig vantaði líka mjög sértækur en mun flóknari hlutur. Ég varð að læra íslensku til að eiga samskipti innan stjórnkerfis háskólans.  Sem dæmi má nefna að mig vantaði þýðingu á setningum og orðaforða sem kom upp aftur og aftur í tilkynningum og fundargerðum í sambandi við skorarfundi og deildarfundi, til dæmis:

deildarfundur verður haldinn

að vera vinsamlegast beðnir að

dagskrá

umsókn

álitsgerð dómnefndar

stöðunefnd

fleira gerðist ekki

...og svo framvegis

Þarna er um að ræða þýðingaræfingar þar sem allur orðaforðinn er gefinn. Eins ómögulegt og þetta virðist í fyrstu fyrir byrjanda þá er þetta í raun mjög raunhæf aðferð til að öðlast ákveðna kunnáttu í málinu og að læra orðaforða og einfaldar setningar. Þegar ég hóf nám í fornensku var okkur fyrst sýnd málsgrein úr bréfi eftir Ælfric munk og sagt að þýða hana jafnvel þó að fæst okkar hefðu séð eitt einasta orð í fornensku fyrr. Þar sem fletta mátti hverju orði upp aftast í bókinni með tilvísun í málfræðina gátum við leyst þýðinguna af hendi og innan mánaðar vorum við farin að þróa með okkur leikni í að lesa texta á málinu sem ég hafði ekki búist við að kæmi fyrr en að þriggja til fjögurra mánaða námi loknu. Það sem ég er í raun að leggja til hér er að boðið yrði upp á kennslu í íslensku sem væri sambærileg við það sem kallað er á ensku English for Special Purposes (sérhæfð íslenska). Til að vísa til skilgreiningar sem notuð hefur verið innan háskólans væri hægt að kalla þessi námskeið: Hagnýt íslenska fyrir útlendinga. Það sem gerði þessi námskeið frábrugðin íslensku fyrir erlenda stúdenta væri að þau yrðu ekki ætluð sem skipulagt nám sem endaði með háskólagráðu. Fyrir slík námskeið mætti semja einfalda kennslubók sem skipt yrði upp í nokkra tugi stuttra kafla sem hver um sig fjallaði um hvernig bera eigi sig að við ákveðnar aðstæður. Hún gæti gagnast útlendingum, sem eru að stíga sín fyrstu skref í íslensku samfélagi, vel. Til dæmis væri einn kafli um að fara til læknis, annar um bankann, skattinn, að fara í sund, kaupa inn matvörur, fara á kaffihús og svo framvegis. Bók sem þessi kenndi fólki bæði á íslenskt samfélag um leið og hún kenndi því íslensku til að nota við fyrir fram ákveðnar aðstæður. Ekkert er því til fyrirstöðu, ef bókin er nógu einföld og skýrt fram sett, að þýða hana á króatísku, pólsku, ensku, taílensku, tagalog eða önnur af þeim fjölmörgu málum sem innflytjendur til landsins tala og afhenda þeim eintak við hæfi við komuna.

Ein ástæðan fyrir þessu erindi er að færa rök fyrir því að gefa ætti kost á námskeiðum sem ætluð væru útlendingum sem búa og vinna á Íslandi. Íslendingar skilja að erlendir námsmenn og fræðimenn hafi áhuga á tungumáli þeirra og treysta þeim til að yfirstíga þau vandamál sem kunna að koma upp í náminu. En ég hef á tilfinningunni að þeir dragi í efa að nokkur vilji læra hið daglega mál til að geta tekið þátt í samfélaginu. Ég vona að þetta erindi gefi nokkra innsýn í af hverju þetta er raunin og færi nokkur rök fyrir því að hægt sé að líta á íslensku sem nægtabrunn sem hægt er að ausa úr handa útlendingum til að uppfylla sínar daglegu þarfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband