132. blogg

Eins og sjálfsagt er hjá ýmsum öðrum þá er mbl.is upphafssíðan hjá mér á Internet Explorernum.

Þegar ég starta Explorernum birtist í boxi neðst á skjánum hjá mér „http://mbl.is/mm/fret... Auðvitað er margt af fréttunum þar óttalegt fret og mér finnst þetta lýsa efni vefsins nokkuð vel.

Ég segi vefsins en ekki vefjarins eins og margir mundu segja og búið er að reyna að koma inn hjá fólki að sé sú eina rétta beyging. Ég hef aldrei skilið hversvegna ekki má beygja þetta orð á venjulegan hátt heldur virðist mörgum vera keppikefli að það sé gert á þennan afkáralega hátt.

Þetta var útúrdúr hjá mér og sýnir bara að ég er ekki enn búinn að lækna sjálfan mig af bloggsóttinni. Já, mér þykir gaman að blogga og er nokk sama hvort þetta er lesið af áhuga eða ekki. Svo er ég ekki bara sérvitur hvað snertir fyrirsagnir heldur er ég líka talsvert sérvitur í sambandi við íslenskt mál. Verst er þó að ég hef stundum ragnt fyrir mér í því efni, en viðurkenni það helst ekki.

Ég á bágt með að skilja það að sumum virðist finnast erfitt að finna eitthvað til að blogga um. Hjá mér er þessu þveröfugt farið. Mér gengur hálfilla að hemja mig. Helst vildi ég skrifa miklu meira, en ég veit að gæðin versna verulega ef ég reyni ekki að vanda mig dálítið.

Um daginn voru áhugaverðar pælingar hjá Jóhanni Björnssyni hér á Moggablogginu um kattaát. Ég er sammála Jóhanni um að helsta ástæðan fyrir því að alls ekki er álitið við hæfi að borða sum dýr er einhvers konar tabú í þjóðfélaginu. Tabúin geta myndast af ýmsu. Ég held t.d. að það sé álíka mikið tabú hér að borða rottur eins og ketti, en augljóslega af ólíkum ástæðum.

Hér áður fyrr var tabú í gangi gegn hrossakjötsáti en það hefur látið mjög undan síga á síðustu áratugum og öldum. Sjálfur er ég kominn af hrossakjötsætum í Þykkvabænum og borðaði oft hrossakjöt í æsku og þótti gott. Eins og kunnugt er voru Þykkbæingar orðlagðar hrossakjötsætur hér áður fyrr og smátt og smátt hefur orðið viðurkennt að í lagi sé að éta hesta.

Mér hefur oft orðið hugsað til þess þegar mest hefur gengið á í fréttum um hvalveiðimál hvort búið sé að byggja upp hjá sumum hópum erlendis eins konar tabú gegn hvalaáti. Ef sú er ástæðan hjá fólki fyrir andúð á hvalveiðum er erfitt að breyta því og ef það er hægt þá tekur það a.m.k. langan tíma.

Þegar rætt er um þetta þá get ég ekki látið hjá líða að minnast á dýraverndunarmál. Mér finnst í lagi að slátra dýrum til matar. Aðallega vegna þess að segja má að komin sé hefð á það og svo étur maður nú einu sinni lík. Svona er þetta bara og því verður ekki breytt í snarhasti. Hins vegar lít ég á vissan hátt niður á allar veiðar og finnst alls ekki verjandi að að kvelja dýr að óþörfu. Laxveiðimenn stæra sig jafnvel af því að hafa kvalið laxana í sem lengstan tíma. Og svo sleppa þeir þeim jafnvel á eftir. Mér finnst nú lágmarkið að éta þá.

Kannski er þessi andúð mín á veiðum mest sprottin af því að ég er lélegur veiðimaður, ég veit það ekki. Ég er afskaplega lélegur í sumum íþróttum en lít svosem ekkert niður á þær þess vegna. Íþróttir eru samt í eðli sínu lífsflótti og tímaeyðsla, en auðvitað geta þær veitt ómælda ánægju líka.

Einu sinni hafði ég alveg ótakmarkaðan áhuga á formúlu eitt. Sumir kalla akstursíþróttir ekki íþróttir, en þar er ég ekki á sama máli. Hestaíþróttir eru þá ekki íþróttir heldur. Nema þá kannski þá fyrir hestana. Ekki fá þeir þó verðlaunin, eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jáhá, sérvitur hvað varðar íslenskt mál...ég er ekki frá því að það sé sérviska á hæsta stigi að segjast éta líkið af ketti. Þetta sagðir þú nú örugglega bara til að stríða mér og fleirum.  Ekki myndi ég borða kjötið af ketti, hvað þá eitthvert kattarlík, hvað er nú það?

Hafdís Rósa 4.10.2007 kl. 20:16

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hmm. Öll lík eru sjálfum sér lík. Eru lík bara af fólki? Hver er munurinn á skrokki og líki, eða hræi og líki. Orðabókin segir að lík sé dauður líkami. Ég sagðist ekki hafa étið lík af ketti. Hestalík og kindalík eru þó vinsæl til átu. Að segja að lík séu borðuð eða etin er auðvitað bara áhersluatriði.

Sæmundur Bjarnason, 4.10.2007 kl. 23:47

3 identicon

Einhverntíma lærði ég að menn borða og dýr éta, en það hvort ástæða sé til að gera greinarmun á mönnum og dýrum læt ég ég vera. En það er vissulega skepnulegt að borða ketti þannig að ef maður gerir slíkt þá er kannski réttara að segjast éta þá.

Mér finnast lík bara geta verið af fólki en ekki af dýrum. Það er rétt að þú sagðir ekki að þú hefðir borðað líkið af ketti, heldur að ,,maður éti nú einu sinni lík" - og ef maður gerir þá er maður eiginlega algjör skepna og mannæta.  

Hafdís Rósa 5.10.2007 kl. 18:40

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst ágreiningurinn einkum standa um það, hvort lík geti bara verið af fólki. Auðvitað er það svo að þannig er orðið nær alltaf notað. Óvenjuleg notkun orða getur þó oft átt rétt á sér. Mér finnst engin lógisk mótsögn vera í því að nota orðið yfir hræ dýra einnig. Mér finnst jafnvel ef menn vilja ná fram ákveðnum áhrifum alveg koma til greina að tala um hræ af mönnum. En íslenskt mál er stundum vandmeðfarið og auðvitað má ekki ganga of langt í því að misbjóða málsmekk fólks.

Sæmundur Bjarnason, 6.10.2007 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband