124. blogg

Hver var Sunneva Jónsdóttir?

Hún fæddist á fyrri hluta 18. aldar. Faðir hennar dó áður en hún fæddist. Móðir hennar þegar hún var 8 ára. Bróðir hennar barnaði hana þegar hún var 15 eða 16 ára og sýslumaðurinn sem hafði hana í gæslu síðan aftur nokkru seinna og svo var henni drekkt. Eða var henni kannski ekki drekkt, ég man það ekki. Allavega stóð það til. Ég er ekki alveg búinn með bókina og veit ekki hver niðurstaðan er þar.

Þetta er í afar stuttu máli ævisaga aðalpersónu Sunnevumálanna svonefndu en auðvitað er margt fleira sem ástæða er til að segja frá. Margar bækur hafa verið skrifaðar um þetta fræga mál. Ég var að enda við að lesa sögulega skáldsögu um það. Sú saga er skrifuð árðið 1978 og fyrst gefin út í London það sama ár undir nafninu "Men at Axlir".

Eiginlega er þetta frekar léleg bók, en efnið er áhugavert. Höfundurinn virðist á stöku stað ekki hafa alveg nógu góða þekkingu á íslensku samfélagi og síðan er alltaf öðru hvoru skotið inn rómantískum náttúrulýsingum sem mér finnst trufla frásögnina og í heild er sagan eins og hún hafi verið skrifuð fyrir mörgum öldum þó málfarið og stíllinn sé nokkurn vegin í nútímahorfi.

Lára Hanna skrifaði komment á síðustu bloggfærslu hjá mér og kallaði bloggið mitt greindarlegt og yfirvegað. Líklega er það alveg rétt hjá henni og vel getur verið að fleirum finnist svo vera. Sennilega hefði ég þó notað einhver önnur lýsingarorð ef ég hefði verið neyddur til að segja eitthvað um það sjálfur.

Það var svo sannarlega margt ágætisfólk sem ég kynntist á árunum mínum á Stöð 2 og Lára Hanna er þeirra á meðal. Auðvitað detta mér ýmsar þýðingarsögur í hug þegar ég hugsa til Láru Hönnu enda var hún yfirþýðandi á Stöð 2 um tíma.

Í Bond-myndinni "Octopussy" sem sýnd var eitt sinn á Stöð 2 sagði Bond við einhverja píu sem hann var að reyna við: "Would you like a nightcap?" Þetta var þýtt þannig að hann var látinn segja við aumingja stúlkuna: "Viltu nátthúfu?"

Í sjóræningjamynd sem átti að gerast fyrir mörg hundurð árum segir ein aðalpersónan: "My father is a pilot". Þetta var umsvifalaust þýtt með: "Pabbi minn er flugmaður".

Eflaust hef ég sagt frá þessu fyrr, en góð vísa er aldrei of oft kveðin og sjálfur hef ég eiginlega tekið upp þann sið að kalla það sem sumir kalla orðabókarþýðingar einfaldlega nátthúfuþýðingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ein besta bók sem ég hef lesið er "Allt hey er hold"  eftir Þorgrím Þráinsson.  Endilega lestu hana við tækifæri.

Anna Einarsdóttir, 27.9.2007 kl. 21:17

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Eða var það "Allt hold er hey" 

Anna Einarsdóttir, 27.9.2007 kl. 21:17

3 identicon

Talandi um lélegan bíómyndatexta, þá segir John McClane, þegar hann er að rífast við konuna sína í Die Hard 1, "Oh, but you had your career" og það er þýtt "En þú áttir karríer".  Í sömu mynd er að finna fjölmargar kostulegar þýðingar.

Eitt af því betra var líka í byssumynd sem ég horfði einhverntíman á, en man nú reyndar ekki hvaða mynd þetta var lengur.  Þá eru menn að læðast einhversstaðar með illt í hyggju þegar fleiri bætast í hópinn.  Þá tekur einn bófinn upp byssuna, lítur á félaga sína og segir "We´ve got company!".  Það var þýtt "Við eigum fyrirtæki".   

Máni Atlason 28.9.2007 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband