117. blogg

Það er sko ekki að mínu frumkvæði sem allt síðasta blogg (og þetta kannski líka) var feitletrað. Annaðhvort kann ég ekki nógu vel á Word-ið mitt eða mbl-guðirnir eru að gera einhverjar tilraunir.

 

Bjarni fékk 2 vinninga eins og tveir aðrir á mótinu á Bahama og hefur nú rétt til að keppa á næsta meistaramóti Bahamas í skák sem verður haldið í nóvember n.k.

Já, það er hún Hófí sem er með mér á myndinni sem fylgir þessu bloggi. Hafdís fékk hana í afmælisgjöf þegar hún var 10 ára eða svo. Hófí var til sölu í gæludýraverslun og kostaði eina krónu.

Hún var kölluð Hófi af því öllum fannst hún svo falleg. Ef hún gerði eitthvað af sér var hún kölluð Hólmfríður. Og ef hún gerði eitthvað alvarlegt af sér var hún kölluð Hólmfríður Högnadóttir.

 

Hópur kvenfélagskvenna var staddur við Þúfubjarg skammt frá Malarrifi á Snæfellsnesi. Á Þúfubjargi kvaðst Kobeinn á við Kölska eins og frægt er. Á einum stað er nokkurs konar nes út á bjargið og þverhnípi á báðar hendur. Þangað héldu kvenfélagskonurnar og ein þeirra vildi ná mynd af hópnum með Lóndranga í baksýn. Örlítið þurfti hún að færa sig afturábak til að ná öllum með en þá vildi ekki betur til en svo að hún steig niður af brún nokkurri og hvarf kvennahópnum skyndilega. Þær héldu náttúrlega að hún hefði hrapað fram af bjarginu og brá mikið, en létti gríðarlega þegar hún birtist fljótlega aftur á sama stað og hélt myndatökunni áfram.

Ljósmynd sá ég einu sinni sem sýndi þrjár Póbedur í röð á Ölfusárbrú. Póbeda var vinsæl bílategund frá Rússlandi sem talsvert var til af hér á Íslandi í eina tíð. Á þessum tíma var ekki einu sinni algengt að þrír bílar væru á ferðinni samtímis á Ölfusárbrú. Svo lítil var umferðin.

Það hlýtur að fara talsverður tími í það hjá starfsfólki fjölmiðla nútildags að kemba bloggin. Greinilegt er að talsverður hluti af svokölluðum fréttum þeirra er aðeins endursögn af því sem þar er að finna. Eru ekki dagblöðin og þess vegna líka aðrir fjölmiðlar í rauninni bara súper-blogg?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Sæmundsson

Ef ég man rétt, þá fékk Hafdís hana í afmælisgjöf frá Kristjönu Gyðu þegar hún var tólf ára.

Bjarni Sæmundsson, 17.9.2007 kl. 13:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eflaust er þetta hárrétt hjá þér. Og vesalings Hófí varð ekki nema 16 ára, sem er þó ágætis aldur fyrir kött skilst mér.

Sæmundur Bjarnason, 18.9.2007 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband