11.9.2007 | 01:28
112. blogg
Líklega hefur þetta verið í kringum 1980, jafnvel einmitt það ár. Ég hafði verið í heila viku á verslunarstjóranámskeiði á Bifröst þar sem þeir Þórir Þorgeirs og Þórir Páll stjórnuðu málum. Þegar ég kom heim frétti ég að Brynjar Ragnarsson sonur Ragnars húsvarðar í skólanum hefði keypt fyrir hönd húsfélagsins að Hrafnakletti 6 (en þar bjó ég á efstu hæðinni í 4 herbergja íbúð) vídeótæki eitt af Akai gerð sem ætlað væri til þess að senda út kvikmyndir í allar íbúðirnar í stigaganginum samtímis.
Vídeótæki voru sárasjaldgæf þegar þetta var. Mér er nær að halda að þetta tæki sem Brynjar keypti hafi verið það fyrsta sem kom til Borgarness. Ekki man ég hvernig það bar til nákvæmlega en af einhverjum ástæðum þróuðust mál þannig að ég tók við þessum rekstri. Kannski var það bara frekjan í mér sem hélt aftur af öllum hinum. Sjálfur taldi ég mér auðvitað trú um að enginn á staðnum væri betur til þess fallinn en ég að sjá um þetta.
Við tókum svo á leigu kvikmyndir og byrjuðum að sýna þær í tækinu. Ég man eftir að hafa skrifað og hengt upp í anddyrinu dagskrá vikunnar og að ein fyrsta kvikmyndin sem þarna var sýnd var kvikmyndin Poseidon-slysið. Hún var nú reyndar sýnd nokkuð oft ef ég man rétt.
Þetta framtak vakti talsverða athygli í Borgarnesi og fyrr en varði vildu svo til allir íbúar í Sandvíkinni og Höfðaholtinu vera með. Ein ástæðan var sú að alla tíð hafði sjónvarpsmerkið frá ríkisapparatinu náðst illa í Sandvíkinni.
Örlygur Jónatansson hjá Heimilistækjum var fagmaður á þessu sviði og teiknaði fyrir okkur ódýrt kerfi fyrir allt svæðið. Ég man svosem ekki hversu ódýrt þetta var, en það var alls ekki mjög há upphæð þegar búið var að deila henni niður á öll heimili á svæðinu. Í undirbúningnum bættust síðan göturnar Þórðargata, Dílahæð og Kveldúlfsgata við.
Við stofnuðum félag um þessa framkvæmd. Líklega var það að minni tillögu að félagið var nefnt Útvarps- Sjónvarps- og Videófélag Borgarness. Ömurlegt nafn en ég man að skammstöfunin á því minnti mikið á UMSB og sennilega hefur það verið hugsunin hjá mér. Ég held að ég hafi verið kosinn formaður þessa félags (líklega hefur enginn viljað styggja mig). Ég man eftir þeim Bjarna Jarls, Tedda löggu og Stefáni Haraldssyni með mér í stjórn.
Fjórar rásir voru í kerfinu. Vídeóið var á einni, RUV á annari, dagskrá ÚSVB var send út á einni og FM á einni. Til að geta sent út dagskrána þurfti ég að fá tölvu. Hún fékkst í Heimilistækjum. Mér er minnisstætt að hún kostaði tólf hundruð og eitthvað krónur og var af gerðinni Sinclair ZX 81. Breyta þurfti tölvunni til að hún hentaði til þessara nota. Seinna fengum við svo Sinclair Spectrum tölvu sem var mun betri.
Á þessum tíma var Vidoson sem svo var nefnt að hasla sér völl í Reykjavík. Þar voru blokkarkerfi tengd saman og útsendingar á kvikmyndum og fleiru hafnar. Mér er minnisstætt að í Videoson kerfinu sá ég fyrst kvikmyndina Animal House og þótti hún merkileg.
Videókerfi voru einnig í Ólafsvík, Ólafsfirði og víðar. Ég man að við stofnuðum það sem við kölluðum Landssamband kapalkerfa eða eitthvað þessháttar og Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV var formaður þess, en þá hafði DV eða útgáfufélag þess keypt Videoson.
Fór um helgina að Drumboddsstöðum. Jói var með bæði húsin frá Byko á leigu fyrir 40 ára afmælið sitt. Hafði það á leigu allt frá fimmtudagskvöldi og þangað fórum við Áslaug þá. Á föstudaginn eftir hádegið komu Ingibjörg og Hörður ásamt Sigrúnu í heimsókn þangað. Pabbi og mamma bjuggu á Drumboddsstöðum í ein þrjú ár og þar er Ingibjörg fædd.
Afmælisveislan sjálf var svo á laugardaginn og við fórum náttúrlega þangað. Veislan tókst bara vel að öllu leyti, maturinn frábær og nóg af öllu. Ingimundur bróðir Jóa var grillmeistari en að öðru leyti var veislan undirbúin af Jóa og Hafdísi.
Bjarni er að mér skilst að undirbúa endurtekningu á giftingarveislunni og að þessu sinni á Bahamas. Það er allt gott af honum að frétta þó ekki sé hann búinn að fá vinnu ennþá. En dvalarleyfi er hann búinn að fá til 2012.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:06 | Facebook
Athugasemdir
Ég held að menn hér í Borgarnesi muni fyrst og fremst eftir þér, einmitt vegna videóvæðingarinnar.
Anna Einarsdóttir, 11.9.2007 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.